23.03.1936
Efri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

85. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Guðrún Lárusdóttir:

Eins og hæstv. atvmrh. drap á í ræðu sinni, voru samþ. l. á síðasta þingi um fávitahæli, með því bráðabirgðaákvæði, að meðan ríkið ætti ekki slíkt hæli, skyldi það greiða 4/5 hluta kostnaðar á hælum eða öðrum forsvaranlegum stöðum fyrir fávita. Nú er liðinn alllangur tími síðan þetta var samþ., og ég veit ekki, hvort greitt hefir verið með fávitum fram yfir það, sem var. Ég vildi því í sambandi við þetta frv. gera þá fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort þetta bráðabirgðaákvæði, sem þegar er samþ., gildir ekki þar til þetta frv. verður að gildandi lögum. Það hefir reynzt mjög bagalegt fyrir þetta eina hæli, sem hér er, að hrepparnir hafa neitað að greiða nema 1/5 hluta kostnaðar. Þetta getur vitanlega ekki viðgengizt, vegna þess að eigandi þessa hælis býr við fátækt, svo sem kunnugt er, og getur alls ekki annazt framfærslu fávitanna svo að segja meðgjafarlaust.

Nú eru áætlaðar í fjárl. 5 þús. kr. með fávitum, en það hrekkur hvergi nærri til. Ég vil benda á, að Rvíkurbær hefir 4 fávita á fávitahælinu í Sólheimum og hefir greitt 100 kr. á mánuði með hverjum, en síðan um áramót hefir bærinn ekki greitt nema 20 kr. með hverjum, og svo mun vera með öll hreppsfélög, sem hlut eiga hér að máli, vegna þess að þau telja sér ekki skylt að greiða nema 1/5, og styðja það álit sitt eingöngu við hin samþykktu bráðabirgðaákvæði. er ég hefi minnzt hér á.

Ég vildi gjarnan heyra álit hv. d. og þá sérstaklega hæstv. atvmrh. um þetta atriði. Ég hefi heyrt, að hæstv. fjmrh. — sem því miður er ekki viðstaddur — hafi neitað að greiða, fyrr en til þess yrði veitt fé á fjárlögum. Ég treysti hæstv. atvmrh. manna bezt í þessu máli — ég get gjarnan sagt það hér í heyranda hljóði —, og því langar mig til að heyra hans álit og fá upplýsingar um, hvernig í þessu liggur.