23.03.1936
Efri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

85. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Guðrún Lárusdóttir:

Ég þakka hæstv. atvmrh. fyrir svör hans. Ég má þá ef til vill skilja þetta svo, að ef of margar umsóknir koma um þennan styrk, þannig að upphæðin hrökkvi ekki til, þá muni ríkið greiða það, sem á vantar.

Viðvíkjandi 100 kr. kostnaðinum af dvöl á hælinu er það að segja, að mér þykir líklegt, ef hælið væri fullskipað, að komast mætti að samningum um lægri meðgjöf. Hælið getur tekið 25 manns fullskipað, en nú eru þar 14. Þó væri það mikil bót, ef ríkið tæki að sér að greiða það, sem á kynni að vanta, en bindi sig ekki við þessar 5000 kr.