16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

1. mál, fjárlög 1937

*Frsm. fyrri kafla (Jónas Guðmundsson):

Það eru víst að koma lokin í þessa umr., og þykir mér rétt, þó ég geti ekki talað fyrir munn fjvn., að minnast á þær brtt., sem eru hér prentaðar á þskj. 329 og bornar fram af einstökum þm. En áður en ég sný mér að þeim vil ég segja það út af þeim umr., sem hér hafa nú farið fram um nokkra tekjuliði frv., að þær umr. finnst mér að séu harla óþarfar á þessu stigi málsins. Hv. sjálfstæðismenn hafa ekki borið fram neinar brtt. í þessu etni. Þeir hafa ekki borið fram till. um að fella niður útflutningsgjald af sjávarafurðum né aðflutningsgjaldið nýja. Þeir hafa ekki heldur borið fram neina till. um að hækka hina einstöku tekjuliði fjárlagafrv. og því geta slíkar umr. sem þessar blátt áfram ekki haft neitt gildi á þessu stigi málsins. Það þyrfti að liggja fyrir möguleiki til þess að breyta frv. í þessu efni, ef slíkar umr. ættu að vera tímabærar. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í dag, að ef ekki verður búið að ákveða fyrir 3. umr. að framlengja fyrir árið 1937 þá tekjuliði, sem l. eru um aðeins til eins árs, þá verður fjvn. vitanlega að bera fram till. um að fella þá niður af fjárlagafrv., því þeir geta þá af eðlilegum ástæðum ekki þar staðið. En ég get ekki fallizt á að fella niður þá liði, sem hv. 3. þm. Reykv. minntist á við þessa umr., þegar engar till. liggja fyrir um breytingar á öðrum tekjuliðum frv. Að afgreiða frv. nú með 2 millj. kr. tekjuhalla, sem þá yrði gert, nær blátt áfram ekki nokkurri átt finnst mér.

Ég skal viðurkenna það, að það er mín skoðun. og ég held fjvn. allrar, að tekjuliðir fjárlagafrv. séu mjög gætilega áætlaðir. Ég tel, að það megi hækka tekjuáætlunina um 400–500 þús. kr., en hreint ekki meira, ef tekjurnar eiga að teljast forsvaranlega áætlaðar. Því það verða menn að viðurkenna, að þó hér sé að ræða um árið 1937, sem enginn veit hvernig verður, þá eru allverulegir liðir á þeim fjárlögum sem byggjast á afkomu ársins 1936. Og sú afkoma ársins 1930, sem við ennþá vitum um, er ekki það glæsileg, að hægt sé að gera sér von um stórar tekjur, ef miðað er við afkomu þess árs. Auk þess er svo komið á þeim hörmungatímum, sem nú ganga yfir, að sjálfsagt er að áætla tekjur ríkissjóðs gætilega, þó úr kynni eitthvað að rætast, því á þessum tímum hlýtur að skella á ríkissjóði mikið af útgjöldum, sem ómögulegt er að sjá fyrir. Þannig hlýtur á árinu 1936 að falla á ríkið mikið af skuldum, sem það hefir tekið ábyrgð á fyrir bæjar- og sveitarfélög og einstök fyrirtæki út um land. En hvar er gert ráð fyrir slíku á fjárlögum? Það eru aðeins veittar 100 þús. kr. til óvissra útgjalda, allt annað eru fastbundin útgjöld. Því er skylda þingsins eins og nú standa sakir, þegar og allir vita, að mikið hlýtur að lenda á ríkinu af gjöldum, sem ekki er gert ráð fyrir á fjárlögum, en ekki er þó hægt að komast hjá að greiða, að áætla tekjurnar gætilega, en það tel ég, að væri gert, þó tekjuhlið frv. væri hækkað um 400–500 þús. kr.

Um brtt. I.1 á þskj. 329 vil ég segja það, að mér finnst tæplega geta komið til mála að ákveða á fjárlögum upphæð til stofnunar drykkjumannahælis, meðan því máli er ekki lengra á veg komið í þinginu heldur en nú er. Það er ekkert drykkjumannahæli til í landinu eins og er það er sjálfsagt mjög nauðsynlegt að koma því á fót, en það þarf að undirbyggja stofnun þess fyrst, og taka að því loknu upp styrk til þess á fjárlögum.

2. lið sömu till., um styrk til fávita, vil ég mælast til, að hv. flm. taki aftur til 3. umr. a. m. k. Þetta er atriði, sem mikið hefir verið rætt í fjvn., og er ennþá óafgert, hvernig verður leyst þar, hvort hækkaður verður sá styrkur sem á frv. er til fávita, eða hvort gegnum þingið nær að ganga frv., sem nú liggur fyrir Ed., um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, en þar eiga fávitar að koma undir.

Um till. II., III., IV. og V. á sama þskj. vil ég segja það, að allir þeir vegir, sem þar er um að ræða, að einum undanteknum. hafa verið ræddir í fjvn., og niðurstaðan í n. orðið sú, sem till. hennar bera með sér, því geri ég ráð fyrir, að fjvn. í heild muni ekki vilja mæla með neinni af þessum till. Vitanlega getur verið, að einhverjir af nm. greiði atkv. með einhverju af þessum vegatill., en meiri hl. n. mun ekki gera það.

Hv. þm. V.-Húnv. var í dag að mæla fyrir till. sinni um brúargerðir, og vildi ég beina því til hans að ég teldi rétt, að hann tæki þessa till. aftur, því það er ætlun fjvn. að ákveða skiptingu á brúafénu fyrir 3. umr., eins og vant er, að fjvn. geri í samráði við vegamálastjóra, þeim 70 þús., sem á frv. standa, og meira, ef fært þykir að bæta við þennan lið. Kemur þá til álita eins og annað það, sem brtt. hv. þm. fjallar um.

Hvað viðvíkur VII. brtt., um dragferju á Eldvatni þá lá fyrir n. erindi um þetta, og geri ég ráð fyrir, að n. í heild mundi vera með því, að þetta sé samþ., og býst ég því við, að það ætti að mega vænta þess, að það geti gengið í gegnum þingið.

Um VIII. brtt., frá hv. þm. N.-Ísf., um Súðavíkurbryggju, er það að segja, að framlag til þessarar bryggju kom til atkv. í n., að ég ætla, og var fellt þar af þeirri ástæðu, að einmitt í þessa sýslu er veitt hvað mest til bryggjugerða og lendingarbóta. 30 þús. kr. eru veittar til brimbrjótsins í Bolungavík og 5000 kr. til bryggju í Hnífsdal. Ég get því hiklaust sagt, að fjvn. mundi leggja á móti þessari brtt., ef hún ætti að fjalla um hana fyrir 3. umr. Sama er að segja um IX. till. frá hv. þm. Snæf., að það, sem samkomulag fékkst um í n., var 5000 kr. framlag, í stað 7500 kr., sem áður var.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja um þetta frekar, en vil taka undir það, sem hæstv. fjmrh. sagði út af till. hv. 10. landsk. og hv. þm. V.-Húnv. við 22. gr., um 100 þús. kr. framlag til útbýtingar á norðausturlandi. Ég tel, að eins og nú er ástatt, þá sé beinlínis ekki hægt að gera upp á milli í því efni, hvar mest þörf er á hjálp á landinu. Það er svo í sumum verstöðvum, að afli hefir brugðizt í fleiri ár, jafnvel þrjú undanfarin ár, svo gersamlega, að fólkið hefir ekkert að lifa á annað en þennan styrkpíning, sem kemur frá því opinbera, til þess að það beinlínis svelti ekki. Og að taka upp í fjárlögin svona ákvæði um upphæð til útbýtingar á ákveðnu svæði, þó þar hafi orðið talsvert harðæri, það er ekki hægt að réttlæta á neinn veg, þegar svo margir staðir á landinu eiga um sárt að binda eftir aflaleysi og óáran allskonar. Ég er sannfærður um, að bezta lausnin á þessu er, að ríkisstj. hafi eitthvert fé til umráða og reyni í hverju einstöku tilfelli að hlaupa undir bagga eftir því, sem nauðsyn krefur. Ef farið er út á þá braut að taka upp á fjárlög stórar upphæðir í þessu skyni, yrði það til þess, að umsóknunum rigndi niður hvaðanæva þaðan, sem ástandið er erfitt, sem er í rauninni allstaðar, jafnvel hér í Reykjavík er ástandið mjög slæmt, þó annarsstaðar á landinu sé það ennþá verra og hafi verið lengi. Svo mundi þetta auk þess, sem það mundi auka útgjöld hins opinbera stórkostlega, jafnvel blátt áfram verða til þess að svipta fólkið á viðkomandi stöðum þeirri sjálfsbjargarviðleitni, sem það ennþá hefir til þess að komast af án verulegrar hjálpar frá hinn opinbera. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Ég geri ráð fyrir, að þessari umr. verði lokið eftir fáeinar mínútur og atkvgr. fari fram á morgun.