20.04.1936
Efri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

85. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég heyrði að vísu ekki alla ræðu hv. 1. þm. Eyf., en mér skildist hann vera að afsaka þann drátt, sem orðið hefir hjá hv. meiri hl. fjhn. á afgreiðslu á frv. til laga um breyt. á l. um varnir gegn berklaveiki. Þó að það frv., sem hér liggur fyrir til umr., kæmi fram, og þó að ákveðið sé, að berklavarnaskatturinn falli niður, ef frv. verður samþ., þá er ekki ástæðulaust að afgr. hitt málið fyrir því, vegna þess að eins og það frv. ber með sér, er þar ákveðið, að hverfa skuli gjaldið frá sýslusjóðunum fyrir árið 1936, og það mátti gjarnan fylgja því máli fram og ákveða, hvort það skyldi leyft eða ekki, því að frv. það, sem hér liggur fyrir, kemur ekki til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi árið 1937.