20.04.1936
Efri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

85. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Bernharð Stefánsson:

Ég er hissa á því, hvað hv. þm. Dal. sér mikið eftir frv. um berklavarnalögin, sem hann flutti hér. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er svo ákveðið, að ákvæðin um berklavarnagjald sýslusjóða falli niður, og það sama er farið fram á í hans frv. Ef bæði þessi frv. hefðu verið samþ., þá hefðu verið sett tvenn lög um sama hlutinn. Nú bendir hann á það eina atriði, sem hann getur borið fram í þessu efni, sem sé það, að samkv. hans frv. og hv. þm. N.-Ísf. hefði berklavarnagjaldið átt að falla niður á þessu ári, en samkv. þessu frv. fellur það ekki niður fyrr en á næsta ári. Þetta er að vísu rétt, en ég hygg, að þó að menn að öðru leyti fallist á að afnema berklavarnagjald sýslusjóða, þá hefði verið varhugavert að láta þetta ákvæði frv. standa, að fella niður gjaldið á þessu ári, þar sem allar áætlanir eru miðaðar við, að þetta gjald haldist í ár, eins og t. d. þegar fjárlögin voru sett, Berklakostnaður ríkisins er miðaður við það. (ÞÞ: Hvað gerum við nú, þegar sett eru fjárlög fyrir árið 1937?). Jafnvel þótt hv. þm. vildi fella niður berklavarnagreiðsluna á þessu ári, þá sé ég ekki, að til þess þyrfti sérstök lög, þegar með öðrum lögum er verið að fella þetta gjald niður; til þess þyrfti hv. þm. ekki annað en að bera fram brtt., t. d. við 13. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, um það, að þau ákvæði, sem þar að lúta, skyldu koma til framkvæmda strax. Þetta frv. hv. þm. er því undir öllum kringumstæðum óþarft, ef þetta frv., sem hér er til umr., verður samþ.