02.03.1936
Neðri deild: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Eiríkur Einarsson:

Ég geri ráð fyrir því, að núgildandi lög um lax- og silungsveiði séu samin í því skyni að auka veiðigengd í ánum og auka ræktun þessara nytjafiska, sem landsmönnum hafa fyrr og síðar verið svo dýrmætir til veiða, og að það hafi vakað fyrir löggjafanum að líta á hag almennings. En þar sem þessu fylgir það, að ýmsar breytingar koma fram um veiðiaðferðir, og slíkt á að framkvæma langt frá því, sem áður var, þá er ekki undarlegt, þó að ýmsir verði til þess að kveinka sér, sem léku meir lausum hala en nú er orðið. Um það er ekkert að segja. En það kemur til greina, hvort við þessa endurskipun á laxveiðilöggjöfinni koma fram breytingar, sem raska fornum rétti, sem fyrir hendi var, annaðhvort lagalegum rétti eða venjum, sem skapazt hafa um veiðina. Jafnframt því hljóta að koma fram bótakröfur á hendur þeim, sem skerða, en af hálfu þeirra, sem lögverndaður réttur er skertur fyrri. — Það er dálítið einkennilegt að sjá það í frv., sem hér liggur fyrir, og brtt. við það, og að hlýða á umr. hér í deildinni, hvað sagt er um þessi málefni. Það er eitt, sem slær mann, og það er, hvað skoðun manna er mikið á reiki um það, hver rétturinn sé, hver eigi réttinn og í hverju hann sé fólginn. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að þrátt fyrir þessar skiptu skoðanir, sem hafa komið fram, þá hlýtur þessi réttur að vera ákvarðanlegur, því að laxveiðin er ekki ný hér á landi, og það eru til bæði forn og ný lög og laxveiðivenjur, sem menn eru mjög næmir fyrir. Þess vegna er það, þó að hv. þdm. deili um það hér, hvað megi veita og leyfa samkv. þessum breytingum, sem liggja fyrir, þá geri ég ekki ráð fyrir, að það verði gildandi orð frá sjónarmiði þeirra, sem sviptir eru réttinum, heldur að það sé lögmætt, sem þeir áttu áður, og að þeirra rétti verði fullnægt þannig, að þeir fái eftir almennum skaðabótareglum fullbættan þann skaða, sem af þessu skipulagi leiðir á einn eða annan hátt.

Ég held einmitt, að ef hv. þm. hefðu það nægilega hugfast, að sá, sem á réttinn, verði að fá sína réttarskerðingu bætta, þá þurfi þetta ekki að vera eins mikið tilfinningamál eins og mér virðist það vera fyrir mörgum hv. þm.

Tökum til dæmis, ef þarf að taka af einhverja lögn í einhverri mikilli laxá, til þess að laxinn fái nægilegt hlauprúm, og ef lögnin hefir verið lögmæt áður, þá á að greiða fullar bætur fyrir. Eins má segja um þessa margumtöluðu ósveiði, ef hún er lögleg eftir landslögum og nauðsynlegt að taka hana af til þess, að laxinn hafi svigrúm, þá á að greiða fullar bætur fyrir.

Einmitt á síðasta þingi, þegar þetta mál var til umr., þá bar ég fram brtt., sem lutu að því, að greiddar yrðu skaðabætur fyrir slíka réttarskerðingu, því að mér þótti n., sem fjallaði um þetta mál, fara of skammt í því efni í sínum till. og ekki á fullnægjandi hátt. M. ö. o., þar var lagt til, að sá, sem missti þennan rétt „með öllu“, fengi skaðabætur, en ég vildi segja, að „ef skerðing yrði á löglegum eignarrétti“, þá skyldu vitanlega koma fullar bætur fyrir. Þó að þetta eigi að gera í þarfir almennings og til þess að auka fiskigengdina í ánum, þá þýðir það ekki það, að ganga megi á ákvarðaðan og skýlausan rétt einstaklinganna. — Ég gat ekki á mér setið að minna á þetta hér út af því, sem fram hefir komið í málinu. Ég álít, að þetta sé óljóst, hver rétturinn er, og þrátt fyrir þann ágreining, sem er um það, ætti hann að vera ákvarðanlegur eftir íslenzkum lögum, og að sá, sem verður fyrir skerðingu á þeim rétti, ætti að fá fullar bætur fyrir. Þó að þetta sé mín ákveðna skoðun, og mér þyki leiðinlegt, úr því að verið er að breyta lögunum, að þessi skaðabótaréttur skuli ekki vera nánar ákvarðanir en till. liggja fyrir, þá ætla ég ekki að endurtaka brtt. mínar því að þær voru felldar á þinginu í vetur vegna ákveðinna mótmæla af hálfu landbn. Ætla ég henni ekki að mæla með þeim nú. Þess vegna ætla ég ekki að hætta þeim í opinn dauðann með reynsluna svona ferska fyrir mér, en þykir það leiðinlegt, því að þær till. voru réttar, og að sú leiðrétting verður að komast á einn eða annan hátt inn í lögin seinna, þó að hún sé kæfð nú vegna misskilnings ýmissa hv. þm.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta. En mér finnst bara leiðinlegt, og svo veit ég, að er um ýmsa aðra hv. dm., að þetta mál skuli liggja fyrir eins og það gerir. Þar er vísað til sérfræðinga og fróðra manna, og finnst mér, að hin formlega fræðimennska ráði þar helzt til miklu, en hin rannverulega reynsla komi ekki ávallt að sama leyti til greina, og því er sem er í þessu máli.

Brtt. sem komnar eru um stórstraumsfjöruborð og smástraumsfjöruborð sýna, að reikular skoðanir eru upp í þessu máli, og fyrir mér og mínum líkum, sem ekki erum neinir laxveiðifræðimenn, er ekki tiltökumál, þó að þetta sé nokkuð óljóst, þegar hinir fróðustu eru ekki sterkari á svellinu en raun ber vitni. Samt verður maður að halda því fram, sem maður hyggur réttast vera.