02.03.1936
Neðri deild: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Jörundur Brynjólfsson:

Ég get verið stuttorður, því að hv. frsm. landbn. hefir gert mjög rækilega grein fyrir þessu máli. Það er aðeins út af einstökum atriðum, sem fram hafa komið við umr., sem ég vildi segja nokkur orð.

Mér þykir leiðinlegt, að hv. landbn. skyldi ekki geta fallizt á ákvæði 2. gr. frv. um veiði í ám fram eftir sumri. Eftir till. landbn. á ekki að heimila ádrátt lengur en til ágústloka, en ekki, eins og nú er í frv., til 15. sept. Ég get reyndar fullkomlega viðurkennt, að veiði með netum í smáám ætti helzt að hverfa. Það þyrfti að koma á þeirri tilhögun, að í þeim ám væri aðeins heimiluð stangarveiði. En nú er svo fjarri því, að sá félagsskapur, sem til þess þarf, að það sé hægt, sé til nema á mjög fáum stöðum. En samkv. þeirri löggjöf, sem nú gildir og verður áfram eftir till. hv. landbn., má heita, að menn við árnar lengra frá ósunum séu sviptir þessari veiði, því að það er búið að margsýna sig, að laxinn er ekki kominn upp í þverárnar fyrr en síðla sumars, og því um lítil hlunnindi að ræða fyrir þessa menn, og það getur ekki borgað sig að fara að byggja fyrirstöðu og stunda lagnetaveiðar í þessum ám. Til þess er það allt of kostnaðarsamt og allt of mikið ómak fyrir ekki meiri veiði en í þessum ám er, og menn mundu alls ekki stunda þá veiði frekar heldur en nú er, því að samkv. núgildandi lögum eru menn við þverárnar algerlega sviptir allri veiði, nema undir þeim kringumstæðum, að vötn séu mjög vatnsmikil eða séu í vexti framan af sumri. Laxinn gengur þá upp eftir ánum á þeim tíma, áður en farið er að stunda ádráttarveiðar neðan til í þeim. Þó að markmiðið eigi sjálfsagt að vera að hætta öllum netaveiðum í smáám, þá finnst mér, að ekki megi sýna þessum mönnum hörku langt fram yfir aðra menn; þeir hafa hvort sem er ekki nema lítil not af þessum hlunnindum, og þykir því sem eðlilegt er harðir kostir að vera sviptir því litla sem þeir hafa.

Hinsvegar er ég mjög fús til þess, hvenær sem hægt er að koma því við, að ganga svo frá þessum veiðilögum, að slík veiðiaðferð tíðkist ekki við uppárnar, en það getur ekki orðið, nema menn myndi með sér félagsskap um að leigja árnar til stangarveiði eða aðeins stunda stangarveiði. Helzt yrði það í gegnum fiskveiðifélög, en það er eins og við er að búast hjá okkur ekki síður en hjá öðrum þjóðum, að það tekur tíma að kynna mönnum gagnsemi þessarar veiðiaðferða, hvað það þýðir fyrir framtíð þessara hlunninda, að sú veiðiaðferð sé viðhöfð.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta atriði. Ég vona, að hv. d. felli þessar brtt. landbn. eins og á síðasta þingi með yfirgnæfandi meiri hl. Þingið hefir ekki skipt um skoðun í þessu efni, og þessar brtt. verða felldar, og 2. gr. frv. látin standa óhögguð.

Ég sé, að hv. 2. landsk. er ekki viðstaddur, og mun ég því ganga framhjá ræðu hans, og get ég það því fremur, sem hv. þm. A.-Húnv. hefir svarað flestu af því, sem máli skiptir. Viðvíkjandi öðrum brtt. landbn. ætla ég ekki að fjölyrða. Það er vandhæfi á því, að þessi atriði í löggjöfinni geti orðið svo, að þau eigi við á hverjum stað, því staðhættir eru í þessu efni sérstaklega ólíkir. En það er hér till. frá hv. þm. Mýr., sem hann hefir borið fram skrifl., en um hana treysti ég mér ekki til þess að segja, hvernig hún kann að verka í sumum ám hér á landi. Ég er ekki svo skyggn eða dómbær um þá hluti, að ég geti um þá dæmt, en fyrir varúður sakir treysti ég mér ekki til þess að greiða henni atkv., og vil því heldur halda því ákvæði, sem hv. landbn. eða meiri hl. hennar leggur til.

Þá hefir hv. þm Borgf. flutt brtt. á þskj. 84. Ég get sagt fyrir mig, að ég efast um, að svona till. eigi fullkomlega rétt á sér. Það er mjög gott og gagnlegt að geta greitt fyrir þessu máli og komið því í réttara horf. En það er allt öðru máli að gegna með skoðun mína á 1. brtt. hv. þm., enda kannast hv. þm. Borgf. við það, því við höfum átt tala um þessa hluti áður. Ég vil vona, að hv. d. fallist alls ekki á þessa brtt. Það er ekki af því, að það geti ekki skert atvinnu einstakra manna, sem búa við árósa. Það getur vel staðið þannig á. En það er komið inn í l. ákvæði um að bæta mönnum slíkt eignatjón, og ég er á þeirri skoðun, sem fram hefir komið hjá ræðumönnum, að það beri að bæta það, og ég álít það ofmælt hjá hv. 2. landsk., að það myndi kosta ríkissjóð mikla fjármuni. Það verður ekki. En þeim einstaklingum, sem missa þarna réttindi, er sjálfsagt að bæta það upp, og er það heppilegri leið heldur en að opna þessa veiðiaðferð hjá okkur, sem getur leitt til skaðsemda. Mér finnst, að við ættum að nota þá reynslu, sem fengizt hefir hjá öðrum þjóðum í þessu efni. Það er þannig ástatt með nágrannaþjóðir okkar, að veiði í sjó hefir spillt þessum hlunnindum. Í Danmörku eru þeir búnir að gefast upp við að bjarga laxveiðinni, og er það fyrst og fremst vegna veiðiskapar í sjó. Um Norðmenn er það að segja, að undanfarin ár hefir það verið upp undir 85% af þeim laxi, sem þar hefir fengizt, sem hefir verið veiddur í sjó. Og í sumum ám í Noregi er laxinn mikið til genginn til þurrðar, svo að sum árin hefir ekki fengizt nóg í klakhúsin, en þar hefir verið stundað klak mjög lengi. Um Svíþjóð er það að segja, að laxveiði í sjó hefir gert þar mikil veiðispjöll, og að þessi þjóð hefir ekki bannað laxveiði í sjó stafar af því, að þessi hlunnindi eru metin þar til verðs og eru komin þar í fasteignamat, og þeir treysta sér ekki til þess að leysa þau út, ef menn sleppa hlunnindunum, meðan þau eru opin. Hjá okkur eru þessi hlunnindi ekki komin í fasteignamat, enda hefir þessi veiði verið lítið stunduð. En allvíða hagar svo til, að hægt er með mjög góðum árangri að stunda laxveiði í sjó, en sá veiðiskapur gengur út yfir veiðina í ánum. Og þá gæti það borið að eins og erlendis, og það meira að segja mjög fljótlega, að þessi hlunnindi hjá mönnum, sem búa uppi í landi og hafa þeirra not, gætu spillzt eða ef til vill eyðilagzt, eins og komið hefir fyrir með árnar, þar sem veiði hefir lengi verið stunduð frá árósum, en laxveiði hefir svo að segja verið upprætt í þeim. Ber margt til þess. Ef til vill er það að kenna óskynsamlegri veiði í smáám, og líka því, hversu nærri er gengið veiði í stóránum. Ég vona því fastlega, að menn fallist ekki á þessa brtt., því ég kvíði þeim afleiðingum, sem hún hefir í för með sér. Mér finnst við ættum að gera það, sem við getum, til þess að auka veiðiskapinn uppi í ánum. Við höfum ágæt veiðivötn, og það er sjálfsagt svo, að það mætti með skynsamlegum veiðiaðferðum hafa óhemjutekjur af þessum veiðiskap og auka veiðina mikið með klaki. Það er þýðingarmeira heldur en það, að einstakir menn geti um stundarsakir hagnazt á því að breyta til um veiðiaðferð og stundað laxveiði í sjó. Mér fyndist það ánægjuleg tilhugsun, ef þeir, sem búa uppi í landi hjá ánum, gætu átt von á því að hafa hlunnindi fyrir sig og sína af þessum nytjafiski, sem er svo að segja hjá túnfætinum. Og að það megi auka fiskigönguna, hefir reynslan sýnt hjá þeim fáu mönnum, sem hafa friðað sínar ár. Það er t. d. veiðiá vestur á Snæfellsnesi, sem maður hefir keypt veiðirétt i, og hefir hann friðað hana fyrir vondri meðferð, og er mér sagt, að fiskigangan í þetta vatn sé orðin ákaflega mikil. Þetta sýnir, eins og vita mátti, að með skynsamlegri aðferð er hægt að auka þessi hlunnindi stórkostlega í framtíðinni með því að koma á félagsveiði, það er það, sem ber að stefna að, og kemst það sjálfsagt í framkvæmd áður en mjög langur tími líður. En þar til slíkt má verða, þá vil ég, að mönnum sé sýnd eins mikil sanngirni eins og frekast er hægt að koma við við þessa atvinnu.