08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

122. mál, veitingasala, gistihúshald o. fl.

*Jóhann Jósefsson:

Það er aðeins lítil fyrirspurn til frsm. n. Í þessu frv. stendur, að eigi megi án leyfis selja fæði eða láta í té gistingu á skipum í höfn til farþega, sem komnir eru á ákvörðunarstað, eða annara óviðkomandi. Ég veit, að þetta ákvæði mun ekki eiga að ná til hinna svokölluðu skemmtiferðaskipa, sem koma hingað á sumrin. Ennfremur tók frsm. n. það fram, að það ætti ekki að ná til íslenzku skipanna, sem færu norður um land til Akureyrar og stæðu þar við sólarhring eða svo. Mér skilst, að frv. þetta sé fram borið vegna þeirra skipa, sem hafa farið héðan og sótt farþega á útlendar hafnir og komið svo og dvalið hér í Reykjavík í nokkra daga. Er þetta fólk, sem er að ferðast sér til skemmtunar og til að sjá sig um. Það hefir verið venja, að þetta fólk hefir búið og borðað um borð í skipunum á meðan það stóð við hér. Mér virðist sem sagt, að tilgangur frv. sé að útiloka þetta, og er ég því á allan hátt samþykkur, en mér skilst, að orðalag frv. muni ekki vera nægilega skýrt. Ég vil aðeins benda n. á að athuga, hvort svo muni vera.