18.03.1937
Neðri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

64. mál, loðdýrarækt og loðdýralánadeild

*Þorbergur Þorleifsson:

Ég get í öllum höfuðatriðum vísað til framsöguræðu minnar í fyrra um þetta mál. Ég kvaddi mér að þessu sinni hljóðs aðeins til þess að taka undir tvö atriði í ræðu hv. þm. V.-Húnv. Fyrra atriðið er það, að ég tel eins og hann sjálfsagt, að loðdýr megi keppa á sýningu hvar sem er á landinu. Þetta var svo í frv. upphaflega, en var breytt síðar. Það er alveg gagnstætt tilgangi frv., að loðdýr megi ekki keppa hvar á landinu sem er.

Þá er það alveg rétt hjá hv. þm. V.-Húnv., að lánastarfsemin er samkv. frv. alls ekki fullnægjandi. Hér er aðeins vísir að henni, en ef til vill er eðlilegt, að ekki sé farið hraðar af stað í fyrstu. En í frv. felst þó virðingarverð viðleitni. Markmiðið á að vera að koma hér upp miklum loðdýrastofni, einkum af silfurrefum, og þetta á að geta hjálpað þeim, sem erfiðast eiga, þótt í litlum mæli sé. En þess er líka full þörf, því að hér er um svo arðvænlega atvinnugrein að ræða, að hún hlýtur að draga að sér athygli þeirra, sem ráða yfir fjármagni. Hinir myndu því alveg verða útundan, ef þeim kæmi ekkert opinbert liðsinni.

Ég álít, að á næstu fimm árum eigum við að koma upp silfurrefastofni, sem gefur af sér 5 millj. króna árlega. Norðmenn flytja nú út silfurrefaskinn fyrir um 30 millj. árlega og komu sér upp þessum stofni á fáum árum. En til þess, að þessu marki verði náð, þarf að auka stofninn um miklu meira en 300 pör á ári. Mér telst svo til, að til þess þurfi aukningin að nema 2000 pörum á ári, svo að stofninn verði 10000 pör alls. Ef hvert par eignast þrjá hvolpa og meðalverðið á skinni verður 170 kr., ætti þetta að nema 5 millj.

Ég myndi telja það mjög æskilegt, að Alþingi sæi sér fært að auka framlag ríkissjóðs eitthvað frá því, sem er í frv., þótt ég telji það hinsvegar stórt spor í rétta átt.