05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

64. mál, loðdýrarækt og loðdýralánadeild

*Hannes Jónsson:

Ég vildi ekki láta þessa umr. líða hjá án þess að láta í ljós, hvernig málið horfir við mér á þeim grundvelli, sem hv. landbn. hefir lagt með till. sínum. Ég geri ráð fyrir, að þessar brtt. séu til bóta, og finn ég ekki ástæðu til að mæla móti neinu sérstaklega. Hinsvegar er á það að líta, að málið fær ekki fyrir till. n. þá afgreiðslu, sem æskileg væri. Getur engum dulizt, að hér er mál, sem hefir mikla þýðingu fyrir alla landsmenn, og þó sérstaklega sveitirnar, eins og nú háttar til, þar sem aðalstofn búskapar bænda er nú að falla frá vegna Deildartunguveikinnar. En þó að ekki væri þessi brýna nauðsyn, þá er hér samt um svo mikilsverðan atvinnurekstur að ræða, að full ástæða er til að efla hann sem mest. Eins og sést af skýrslu Rauðkunefndarinnar, þar sem saman er dreginn ýms fróðleikur um þessi efni, hafa Norðmenn stundað loðdýrarækt með góðum árangri. Ef gert er ráð fyrir hlutfallslegri framleiðslu hér, ætti að vera hægt að flytja út 8000 feldi árlega, og er það ekki lítið fé, ef gert er ráð fyrir 170 kr. meðalverði á hvern feld. Auk þess ber á það að líta, að allt, sem fer til þessarar ræktar, er innlend vinna og innlent efni, fóðurvörur og slíkt. En til þess að geta flutt út svo mikið, þyrfti verðmæti stofnsins að nema 1 millj. og 800 þús. kr. Þarf því talsvert átak til að koma upp slíkum stofni, þó að ekki væri lengra farið. Tel ég þó, að tvímælalaust mætti tvöfalda þetta útflutningsmagn. En þá væri stofnkostnaðurinn líka meiri. Og bændur hafa ekki efni á að koma þessum atvinnuvegi í slíkt horf.

Þegar sá voði vofir yfir, að atvinnuvegir vorir beri sig ekki, er ekki ástæða til að kippa að sér hendinni um fjárveitingar til þessara hluta. Hér er um atvinnuveg að ræða, sem hefir skilyrði til að gefa góðan arð og myndi taka ekki svo fáa menn í þjónustu sína. Mér sýnist því sem aðstoð sú, sem frv. ætlar þessum atvinnuvegi, sé skorin mjög við nögl. Væri til dæmis sjálfsagt að gera frekari till. um veitingu lánsfjár. Sérstaklega ber þess að gæta, að ekki er hægt að gera ráð fyrir sömu lánsfjárhæð ár eftir ár, því að þörfin vex. Eftir reynslu Norðmanna mun hún því sem næst tvöfaldast árlega. Ég vil vænta þess, að hv. n. athugi til 3. umr., hvort ekki er hægt að auka þessa lánsmöguleika frá því, sem er í till. hennar, þó að þær séu nokkur bót frá því, sem nú er. En ég tek það fram, að þetta er örðugleikum bundið. Gegnum bankana er tæplega hugsanlegt, að hægt verði að auka þessa lánastarfsemi. og sparisjóðirnir hafa, eins og kunnugt er, lítið fé til umráða og geta engan veginn uppfyllt þörfina. Meðal einstaklinga er getan engin, og sízt í þeim héruðum, þar sem þörfin er mest. En með annari löggjöf, sem sett kynni að verða, er hugsanlegt, að veitt yrði sérstakt fé til útlána í þessu skyni. Hv. landbn., sem mun fá málið til meðferðar, ætti að athuga þetta, því að sú löggjöf, sem stofnað er til með frv. því, sem hér liggur fyrir, getur engan veginn fullnægt þörfinni.

Mér sýnist sem till. n. búi ekki eins vel að þessari starfsemi og þurft hefði. Þar er að mestu gengið framhjá félagsskap þeim, sem hér hefir verið stofnaður til loðdýraræktar, og er það ekki hyggilegt, þar sem félagið er stofnað til þess að afla og dreifa reynslu um þessi efni. Reynslan fæst bezt með samstarfi, og störf félagsins undanfarin ár hafa mjög aukið þekkingu manna hér á þessum málum. T. d. eru menn engan veginn bundnir þessum félagsskap, þótt menn njóti tillagna ráðunautarins og hjálpar til þátttöku í sýningum. Gæti þetta dregið úr áhuga manna að ganga í félagið, og þar með úr starfsemi þess.

Þrátt fyrir þessar misfellur, mun ég ekki að þessu sinni leggja fram brtt. Ég legg aðaláherzluna á þá viðurkenningu Alþingis á þessari starfsemi, sem fram kemur í frv. og nál., og vænti þess, að síðar sé hægt að bæta úr ágöllunum.

Þá tel ég rétt, að 11. gr. sé felld niður. Hún fer fram á sektarákvæði gagnvart þeim mönnum, sem missa loðdýr úr vörzlu, en áður á að vera búið að framkvæma einskonar löggildingu á umbúnaði þeirra á loðdýragirðingum. Er ekki hægt að áfellast þessa menn, þó að til dæmis óveður spilli girðingum og valdi því, að dýrin sleppi. Menn gera það ekki að gamni sínu að sleppa dýrunum; það er þeirra tjón. Í Noregi sleppa menn ekki aðeins við sektir, þegar svona stendur á. heldur geta þeir jafnvel krafizt skaðabóta, ef drepin eru fyrir þeim loðdýr, er sloppið hafa úr haldi, meira að segja þótt það hafi aðeins hlotizt af slysni. Ég man eitt dæmi um þetta. Refur hafði sloppið úr girðingu og var að spássera á vegi, þar sem umferð var mikil. Varð hann fyrir bíl og drapst, og varð bílstjórinn að greiða eigandanum skaðabætur. En hér á að sekta menn, ef þeir verða fyrir tjóni, og er það hliðstætt því, að bændur væru sektaðir, ef pest kæmi upp í fjárstofni þeirra og féð dræpist, eða ef þeir misstu fé á fjöll. Ég hygg, að sá ótti, sem komið hefir þessu ákvæði inn í frv., að dýr þessi séu hættuleg fjárstofni manna, sé á litlum rökum byggður. Ég veit ekki til, að slíkt hafi komið fyrir hér eða annarsstaðar.

Læt ég svo þessi orð nægja. Ég hefði viljað bera fram nokkrar till. til umbóta á frv., en óttast, að það gæti orðið til að tefja málið. Tel ég það þó til bóta, ef tekst að fá þessa löggjöf fram á þessu þingi. Mun ég a. m. k. láta brtt. mínar bíða til 3. umr., ef mér skyldi takast þangað til að komast að samkomulagi við hv. n.