05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

64. mál, loðdýrarækt og loðdýralánadeild

*Jón Sigurðsson:

Ég vildi beina fáeinum aths. til n., sem mun fá málið til meðferðar milli 2. og 3. umr. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er nokkuð undirbúið, en mér finnst, að það sé mikil spurning, hvort ekki hefði verið rétt að bera það fram í nokkuð öðru formi, svo að minni áherzla hefði verið á það lögð, að ríkið taki að sér ýmislegt, sem þarna er ætlazt til, að gert verði, en í stað þess væri félagsskapur loðdýraeigenda styrktur og honum falið að inna þessi störf af hendi. Loðdýraeigendur hafa myndað með sér félagsskap, og þessi félagsskapur hefir beitt sér fyrir nýjungum á þessu sviði og tekið á sig kvaðir, eins og t. d. sýningarnar í haust. Þeir hafa hér mestra hagsmuna að gæta og bezta þekkingu á því, að hvaða verkefnum beri að snúa sér á þessu sviði. Ég tel þess vegna, að það beri að styrkja þennan félagsskap, og í frv. því, sem borið var fram í fyrra, var beinlínis gert ráð fyrir, að þessi félagsskapur væri óbeint styrktur þannig, að þeir eigendur loðdýra, sem á annað borð vildu eitthvað hugsa um umbætur á stofninum, yrðu að vera meðlimir í slíkum félagsskap. Ég álít þess vegna, að það sé fyllilega réttmætt að setja loðdýraeigendum einhver skilyrði, eins og t. d. á þá leið, að þeir fengju ekki merkt dýr nema þeir séu í slíkum félagsskap. Í löggjöfinni þekkjum við slík ákvæði, þar sem menn t. d. fá ekki jarðræktarstyrk nema þeir séu í búnaðarfélagi. Ég hygg því, að það hefði verið betra, sérstaklega fyrir ríkissjóðinn, því að með því að styrkja þennan félagsskap, þá er það sýnilegt, að hann mundi innan fárra ára geta staðið undir þeim útgjöldum, sem hljóta að verða vegna starfseminnar. Ríkissjóður hefði því losnað við þau útgjöld, sem verið er að binda honum með þessari löggjöf. Ég held því, að það sé ástæða til, þó að þetta frv. verði nú að l., sem ég fyrir mitt leyti mun styðja að, úr því sem komið er, að það sé tekið til athugunar að treysta þann félagsskap, sem fyrir er, þannig, að hann verði þess betur megandi að taka að sér þau störf, sem ríkissjóði er ætlað að inna af hendi, eða eiga að komast í framkvæmd fyrir atbeina ríkissjóðs, svo hann losni við útgjöld á þessu sviði. Ég geri ráð fyrir, að hann hafi nóg samt.

Ég vil aðeins beina því til n., að hún athugi þetta, og sýnist mér, að vel geti komið til mála breyt. á þessu í sambandi við 16. gr.