16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

130. mál, friðun hreindýra

*Frsm. (Pétur Ottesen):

Eins og nál. ber með sér, leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Það eru nú liðin 2 ár síðan l. um friðun hreindýra féllu úr gildi, og hafa hreindýrin því nú verið ófriðuð í 2 ár. Að kunnugra manna dómi þykir ekki fært að treysta á það, að stofninn líði ekki undir lok, ef friðun hreindýranna verður ekki á ný upp tekin. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er að ég ætla nærri shlj. þeirri löggjöf, sem gilti síðast um þetta efni. Samtímis því, sem þessu frv. var vísað til n., var einnig vísað til hennar öðru frv. um friðun hreindýra, þar sem ákvæði um friðun þeirra voru ekki eins víðtæk og í þessu frv. N. þótti varhugavert að fara inn á þá braut, sem þar er lagt til að fara, þó að þær ástæður, sem færðar eru þar fram, hafi við einhver rök að styðjast.

Tillögur um þetta efni hafa áður legið fyrir Alþ., en ekki náð samþykki þingsins. En þar sem nú er, að dómi þeirra manna, sem bezt þekkja til á þeim svæðum, þar sem hreindýrin haldast við, nauðsynlegt að friða þau að nýju, og þar sem breyt. á þessu frv. mundu að sjálfsögðu valda töfum á framgangi málsins í þinginu, en tími þingsins hér eftir að þessu sinni takmarkaður, eftir því sem sagt er, þá er það álit n., að líklegast sé, til þess að koma þessu nauðsynlega máli fram nú á Alþ., að frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ. óbreytt.