09.03.1937
Neðri deild: 17. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal fara um þetta frv. nokkrum orðum til viðbótar því, sem stendur í grg. fyrir frv. og tekur nú fram meginhluta þess, sem þarf að skýra þetta mál. Eins og kunnugt er og hefir verið rætt hér á Alþingi í sambandi við nýbýlafrv., þá er nú svo ástatt um margar jarðir, að það er undarlega lítill munur á aðstöðu manna til þess að byggja jarðir upp af nýju eða hinna, sem þurfa að reisa nýbýli frá grunni. Þegar það er athugað, hvað það er mikill fjöldi jarða á landinu, sem húsaverð er innan við 1000 kr., þá er það skiljanlegt, að á þeim jörðum muni ekki vera mikill munur á kostnaði við endurbyggingu og kostnaði við byggingu nýbýlis frá grunni. Það var rætt nokkuð í landbn. Nd. í fyrra, hvort ekki væri rétt að setja ákvæði í nýbýlalögin um að veita einhvern beinan styrk til þeirra manna, sem svo væri ástatt fyrir, en við nánari athugun töldum við réttara, að þetta kæmi fram í sérstakri löggjöf. Nú er þetta gert í þessu frv., og höfum við í því gert það að till. okkar, að nokkrum hluta þess fjár, sem ríkið veitir árlega til byggingar- og landnámssjóðs, verði varið til að veita beinan styrk, óafturkræfan, til þeirra manna, sem svo er ástatt um sem segir í 2. gr., og skal nýbýlastjórn ákveða, hverjir styrksins verða aðnjótandi. Aðalbankastjóri Búnaðarb. mæltist undan því, að bankinn hefði þetta með höndum, af því að hann áleit þetta að ýmsu leyti óskylt starfsemi hans, en starfsemi bankans væri eingöngu lánsstarfsemi og því óeðlilegt að fara að blanda styrktarstarfsemi inn í þau mál. Hann áleit réttara, að þessi mál væru í höndum nýbýlastjórnar, og féllumst við á það, meðfram af því, að reynslan hefir sýnt, að það er oft erfitt að greina á milli, hvort um nýbýli er að ræða eða endurbyggingu, og því réttast, að þessar styrkveitingar séu í höndum sömu manna.

Þetta frv. er borið fram til þess að reyna að bæta úr hinum miklu húsavandræðum í sveitunum. Þó að sá styrkur, sem hér er gert ráð fyrir, verði ekki hár, þá getur hann samt orðið til þess að gera bændum kleift að koma sér upp viðunandi húsum á jörðum sínum, og sú er hugmyndin með þessu frv. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. þm. taki þessu máli með skilningi og velvilja, og legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til landbn.