07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Það er að því leyti lík aðstaða mín og hv. síðasta ræðumanns, að ég sá ekki ástæðu til að taka til máls við þá umr., sem hér var verið að ljúka, þar sem þessi tvö mál eru svo vafin saman, að það er ekki hægt að sneiða hjá öðru, þegar talað er um hitt.

Það hefir nú komið fram í umr., að enginn ágreiningur er um það, að brýn þörf er á að gera einhverjar frekari ráðstafanir til tryggingar því, að jarðir fari ekki í eyði í sveitum landsins vegna vöntunar á viðunandi byggingum. Um þetta held ég, að allir þeir, sem hér eiga hlut að máli í sambandi við þau frv., sem fyrir liggja, séu sammála, enda er hluturinn sá, að undir öllum kringumstæðum er það til stórtjóns, ekki aðeins einstaklingunum og sveitunum, heldur einnig landinu í heild, ef jarðir fara í eyði vegna fátæktar og skulda þeirra, sem á þeim hafa búið. En þetta er yfirvofandi, og sú hætta er ekki einasta sprottin af því, hvað byggingarnar hafa hrörnað á undanförnum árum, heldur sérstaklega af hinu, hvað fjárhagur bænda hefir yfirleitt farið versnandi og skuldir þeirra aukizt, svo að þar af leiðandi er ekki um neitt veð að ræða hjá mörgum til þess að setja fyrir þeim lánum, sem þeim eru nauðsynleg. Ég tel, að þó frv. það, sem hér er flutt á þskj. 72, gangi að mínu áliti of skammt, þá sé það spor í rétta átt, og betra en ekki neitt að það nái fram að ganga. En þegar um það er að ræða að taka mál eins og þetta til afgreiðslu, þá finnst mér sjálfsagt að taka sporið það fullt strax, að ekki sé þörf á að breyta til aftur með nýjum lagaákvæðum á næsta ári. Þess vegna finnst mér það bera of mikinn keim af viðkvæmni í sambandi við flokksafstöðu, ef hv. flm. þessa frv. geta ekki gengið inn á frv. okkar á þskj. 144.

Um röksemdir hv. þm. Mýr. þarf ég að fara nokkrum orðum. Hann vildi í fyrsta lagi véfengja það, að nokkurt gagn væri í að ákveða með lögum, að ríkissjóður skuli leggja fram sérstaklega 100 þús. kr. á ári í 10 ár sem óafturkræfan styrk til bygginga í sveitum, í stað þess að flm. frv. á þskj. 72 ætlast til, að í þessu skyni sé aðeins varið 50 þús. kr. af fé byggingar- og landnámssjóðs. Um þetta er það að segja, að ef réttmætar ástæður eru til þess að nota lánsheimild byggingar- og landnámssjóðs, eins og þessir hv. þm. fara fram á, þá eru ekki síður fyrir hendi skilyrði til þess, að ríkissjóður geti útvegað fé til þessara framlaga með lántöku, vilji menn á annað borð ganga frá þessu máli á þann hátt, sem við leggjum til. Þær röksemdir, sem hv. þm. bar fram í sambandi við þetta, eru því í mínum augum harla lítils virði. En að því er lánsheimildina snertir að öðru leyti, þá er mjög hæpið frá sjónarmiði okkar í minni hl. að fara fram á miklar lántökur í þessu skyni eins og nú standa sakir, þar sem að sjálfsögðu yrði aðeins um erlend lán að ræða. Og það er af þeim ástæðum, að ef útvegað væri fé með þeim hætti, sem mundi verða miklu dýrara heldur en með þeirri aðferð, sem við gerum ráð fyrir í okkar frv., þá mundi sjóðurinn tapa að miklu eða öllu leyti sínum eðlilegu vaxtarmöguleikum, því þá þyrfti hann að leggja fram svo mikið af sínu fé upp í vaxtamismun. Þetta er þýðingarmikið atriði, sem verður að athuga nákvæmlega í þessu sambandi.

Þá er sá ágreiningur, sem risið hefir út af vaxtabréfasölu þeirri, sem við gerum ráð fyrir. Ég get ekki komizt hjá, úr því hv. þm. Mýr. fór út í það atriði, að víkja nokkuð að því líka, þó tveir af mínum flokksbræðrum hafi nýlega gert því skil. Hv. þm. Mýr. véfengdi ekki, að það mundu vera miklar líkur fyrir því, að svona verðbréf seldust, og þær líkur byggjast vitanlega því, að skattaþunginn er orðinn svo gífurlegur, að það borgar sig jafnvel betur fyrir þá, sem geta safnað peningum, að liggja með þá heima hjá sér og telja þá ekki fram til skatts, heldur en að ávaxta þá og greiða þá skatta og útsvör, sem á þá er lagt. Þegar málið er komið á þetta stig, álitum við hættu á, að menn fari að geyma fé sitt heima vaxtalaust, til þess að koma því undan skatti, og þá er betra að opna mönnum leið til þess að selja vaxtalág verðbréf sveitunum til bjargar heldur en láta féð liggja ónotað hjá einstaklingum.

Hvað hitt snertir, sem hv. þm. Mýr. og fleiri hafa vikið að, að hér mundu fleiri koma á eftir, sem vildu afla sér lánsfjár á sama hátt, t. d. fiskveiðasjóður, iðnlánasjóður o, fl., þá er því til að svara, að Alþingi hefir í hendi sinni á hverjum tíma að takmarka, hvað leyfilegt er að selja mikið af vaxtabréfum með þessum skilmálum, sem hér er farið fram á.

Viðvíkjandi því, að fullkomlega sé ráðið fram úr þessu máli með því að samþ. frv. á þskj. 72 ásamt till. til þál. um að nota lánsheimild byggingar- og landnámssjóðs, þá er frá okkar sjónarmiði fjarri því, að svo sé. Og ég verð að segja, að það ætti, a. m. k. í augum hv. þm. Mýr., að vera í því nokkur styrkur, að við höfum búnaðarþingið óskipt á bak við okkar frv. Þar sem búnaðarþing er óskipt með þessari till., ættu menn að verða sammála um að afgreiða málið og láta ekki óeðlilega flokkakeppni og þrætur verða því til tálmunar. En höfuðgrundvöllur þessa máls er sá, að það er mikill eðlismunur á því að leggja fé til bygginga í sveitum, þar sem fólk hefir góð skilyrði til að framleiða þarfir sínar úr skauti náttúrunnar, og að leggja það til bygginga í hinum stærri kaupstöðum, eins og verið hefir um mest af þessu fé hingað til, þar sem það, sem þannig er lagt fram, verður til þess að auka atvinnuleysið hjá öðrum. Þetta taka menn ekki nægilega til greina og eru því of einsýnir á þá nauðsyn, sem hér er fyrir hendi.

Þá er eitt atriði, sem vert er að taka með og veldur því, að við viljum vísa þessu frv. frá með rökst. dagskrá, en það er, að með þessu myndi skapast óeðlilegur glundroði. Hv. flm. ætlast til, að l. um byggingar- og landnámssjóð standi óbreytt, en það er auðvitað ekki unnt, þegar búið er að setja önnur l. um ýms atriðin. Þá skora þeir á ríkisstj, að nota lánsheimild, sem er í l. um byggingar- og landnámssjóð. Nú veit ég ekki, hvort þeir hafa borið það undir hæstv. fjmrh., hvort hann sé samþykkur því, að þessi lánsheimild sé notuð, en það þýðir milljónalán.

Ég held, að betra sé að snúa inn á þá braut, sem búnaðarþing er á, og vona ég, að flokkarígur verði ekki til að koma í veg fyrir það, að þetta mál fái heppilega afgreiðslu, en það getur ekki orðið nema með því að samþ. frv. það, sem hér liggur fyrir um byggingarsjóð sveitanna.