07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Jón Sigurðsson:

Það er rétt, sem síðasti ræðumaður sagði, að bankastjórnin hafi látið nægja það fé, sem fyrir hendi var, og þess vegna hefir orðið að synja mörgum lánbeiðnum, af því að fé til þess var ekki fyrir hendi, því eftirspurnin er ákaflega mikil. En til að bæta úr brýnni þörf hafa einstakir menn fengið að byggja, með því loforði, að fá lán á næsta ári af því fé, sem sjóðurinn ræður yfir. Þegar farið er að athuga þetta, þá er ekki hægt að hækka framlagið, því það tillag, sem ríkið leggur fram, fer til þess að jafna vaxtamismun, og byggingar- og landnámssjóður hefir ekki fé til að bæta úr allri þeirri þörf, sem nú er fyrir.

Þá má benda á það, að á sjóðnum hvíla nú um 500–600 þús. krónur, og ef afskriftirnar verða um og yfir 100 þús. kr., þá er ég hræddur um, að það fari að sneiðast um. Hvað koma til að verða miklar afskriftir smátt og smátt? Ég er hræddur um, að ef ekki breytist þessi verzlunarherferð, þá geti afskriftirnar orðið miklar. Og ég álít það ekki rétt að ráðast í stórar lántökur til sjóðsins, því það leiðir aðeins til þess, að ríkissjóður borgar.