08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

118. mál, virkjun Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Til þess að flýta fyrir þessu máli til 2. umr. og n. hefi ég samið svo um við hæstv. forseta að stytta mjög mál mitt við þessa umr., til þess að tefja ekki fyrir öðrum eldri málum, sem eru á dagskrá. Ég mun því í höfuðatriðunum vísa til grg. fyrir frv., sem er allýtarleg. En ég vil jafnframt benda á, að hér er um að ræða eitt hið mesta hagsmunamál fyrir Akureyri, sem borið hefir verið fram á alþingi, og ég hygg, að svipað megi segja um þau héruð, sem þar eiga mestra hagsmuna að gæta, Suður-Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu.

Að því er virkjun Laxár snertir, er þar um virkjun að ræða fyrst og fremst fyrir Akureyri og í öðru lagi fyrir nærliggjandi héruð, og er hún hliðstæð Sogsvirkjuninni fyrir Reykjavík og Suðurlandsundirlendið, og mætti segja, að það sé ennþá ríkari nauðsyn orðin fyrir Akureyri að koma sér upp raforkustöð við Laxá, því að úr raforkuþörf Akureyrar verður ekki bætt nema með miklu stærri virkjun en unnt er að framkvæma í nágrenni hennar.

Ég vil benda á, að þegar rafstöð Akureyrar var byggð 1922, kostaði hvert hestafl í þeirri stöð yfir 2000 kr., en gert er ráð fyrir, að í væntanlegri orkustöð við Laxá kosti hestaflið ekki nema 400 kr. Svo miklu er aflið ódýrara þar.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta mál við þessa umr., en legg til, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og fjhn.