19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

118. mál, virkjun Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

*Guðbrandur Ísberg:

Hv. fjhn. hefir afgr. þetta mál þannig, að hún mælir öll með því, að frv. verði samþ., en 3 nm. hafa áskilið sér rétt til að koma fram með brtt. Brtt. eru nú komnar fram, frá 2 þm. á þskj. 336, og eru á þá leið, að í stað þess að skylda ríkisstj. til að veita ábyrgð fyrir láni til virkjunar Laxár, er henni heimilað að veita hana. Við þessa brtt. hefi ég ekki mikið að athuga; það skiptir ekki miklu máli, þó að skyldunni sé breytt í heimild, enda samskonar till. komin fram sem till. til þál. í Sþ. Svo ber hv. 2. þm. Skagf. fram brtt. á þskj. 383. Sú brtt. gengur út á að fella niður 3. gr. frv. og breyta 6. gr. í samræmi við það. Þessi brtt. tekur að vísu mikið atriði úr frv., og í sjálfu sér er ég á móti því. En þessi ábyrgðarheimild er borin fram af mér á þskj., sem nú liggur hjá fjvn. og varla fær afgreiðslu þaðan, og full vissa er fyrir því, að frv. muni daga uppi í því formi, sem það er nú í, af því að þingi er senn lokið. Verður því að teljast vonlaust, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi með ábyrgðarheimildinni, en ég hefi hinsvegar fengið nokkra tryggingu fyrir framgangi þess, ef ábyrgðarheimildin verður felld úr. Mun ég fallast á till. hv. 2. þm. Skagf. á þskj. 383 og jafnvel neyðast til að greiða henni atkv., til þess þannig að greiða fyrir gangi málsins.

Ég tel ekki nauðsynlegt að fara mörgum orðum um frv. almennt, þetta eru fáar gr. og ég geri ráð fyrir, að menn hafi athugað þær svo sem þarf.