19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

118. mál, virkjun Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Við umr. á laugardaginn í Sþ. um till. til þál. um virkjun Laxár í Þingeyjarsýslu gat ég um, að ég og hv. þm. V.-Ísf. myndum flytja brtt. við þetta frv. Þessi brtt. er fram komin á þskj. 336, og þarf ég ekki að skýra hana mikið. Þar er lagt til, að ríkisstj. sé heimilað að ábyrgjast þetta lán fyrir Akureyrarkaupstað, en ekki skylduð til þess, eins og stendur í frv. En flm. þessa máls hefir lýst því yfir, að hann muni frekar kjósa, að samþ. verði brtt. hv. 2. þm. Skagf., þar sem lagt er til að fella niður úr frv. gr., sem fjallar um ábyrgð ríkisins fyrir væntanlegu láni. Virðist frv. verða lítils virði fyrir Akureyri, ef aðalatriðið er tekið úr því. Ég vil fyrir mitt leyti mæla með því, að brtt. okkar hv. þm. V.-Ísf. verði samþ., þó að ég viti, að það er þá á valdi ríkisstj., hvort hún vill veita ábyrgðina eða ekki, en ef hún hefði heimild Alþ. fyrir því, gæti hún að afstöðnum kosningum leitað til þingfl. á ný um stuðning til þess, að ábyrgðin verði veitt. Tel ég því eðlilegast, að ef frv. fær afgreiðslu á annað borð, verði það afgr. með þeirri brtt., sem er á þskj. 336. Meðan ekki liggja fyrir aðrar upplýsingar, mun ég greiða atkv. á móti till. hv. 2. þm. Skagf., en með þeirri till., sem við höfum borið fram. Ef hægt er að fá málinu framgengt, fyndist mér eðlilegt, að það yrði afgr. á þann hátt, sem við leggjum til. Ef þessi heimild yrði notuð, væri að vísu tryggara fyrir Akureyri að hafa lög um hana en þál. þá, sem nú liggur fyrir Sþ., því sumstaðar mundi slík heimild fyrir ríkissjóð til að taka á sig ábyrgðina ekki vera fullnægjandi, heldur mundu verða heimtuð lög um hana.