30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Ólafur Thors:

Ég vil leyfa mér að skora á form. sjútvn. að hlutast til um, að hæstv. atvmrh. tali við n. um þetta mál. Ég skýrði frá því, þegar málið var hér síðast á dagskrá og hæstv. forseti skv. beiðni hæstv. atvmrh. tók það út af dagskrá, að ráðh. hefði haft marga mánuði til að athuga, hvaða leiðir væru færastar.

Ég veit ekki, hvað hæft er í þeim orðum, sem nú heyrast innan og utan sala Alþ., að þingið muni eiga skemmri setu en til var ætlazt, þegar það kom saman, en ef eitthvað væri hæft í því, þá væri náttúrlega bezt að fá þau mál afgr., sem menn eru fyllilega sammála um; og ég held, að það sé engum vafa undirorpið, að það sé nægilegur þingvilji til að afgreiða þetta mál. En ef hæstv. atvmrh. ætlar að tefja þetta mál von úr viti, þá vil ég beina því til hæstv. forseta, að hann sjái um, að það verði ekki, og að sett verði einhver takmörk fyrir því, hve langt má líða þar til hæstv. ráðh. hafi talað við n.