17.04.1937
Neðri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

159. mál, borgfirzka sauðfjárveikin

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég benti á í framsöguræðu minni í gær, að það gæti verið erfitt fyrir Húnvetninga og Mýramenn vestan Norðurár að framkvæma ákvæðin í 5. gr. frv. Ég vil nú mælast til þess við þá hv. þm., sem hér eiga hlut að máli, að þeir athugi þetta frv. vel og láti landbn. í té upplýsingar um það, sem þeir kunna að vilja hafa öðruvísi heldur en er í frv. eins og það er nú. Ég hefi sjálfur tilhneigingu til þess að láta þetta vera meira óbundið heldur en er í frv., sérstaklega hvað Húnavatnssýslur og Mýrasýslu snertir, þar sem veikin er minna útbreidd, og hafa ákvæði 7. gr. þannig, að framkvæmdarstjóri hafi meira óbundnar hendur um allt það, sem kemur í ljós, að gera þurfi, þegar til framkvæmdanna kemur, utan við aðal-sýkingarsvæðið.

Ég vil benda á, hvernig ástandið er alltaf að breytast. Nú í dag er vitað um 2 ný sýkt heimili austan Blöndu, sem ekki var vitað um í gær, og eitt nýtt heimili austur í Grímsnesi, svo að þetta þarf að vera dálítið rúmt.

Ég ætla svo ekki að orðlengja um þetta, en ég vil mjög ákveðið mælast til, að þeir menn, sem telja sig umboðsmenn fyrir þau héruð, sem þetta snertir sérstaklega, láti okkur landbnm. í té það, sem þeim finnst mega betur fara, svo ekki verði við 3. umr. um brtt. að ræða sitt úr hverri áttinni, sem mundu tefja mjög fyrir framgangi málsins, ef þær kæmu fram. Þetta mál er þannig vaxið, að það má til að leysast á þessu þingi, og eins fljótt og hægt er.