20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

159. mál, borgfirzka sauðfjárveikin

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Landbn. hefir orðið sammála um nokkrar brtt. við frv., sem ég skal gera nokkra grein fyrir.

Brtt. 1.a, við 4. gr., er fram borin samkv. ósk Hákonar Bjarnasonar, að í stað orðanna „fimmþættri gaddavírsgirðingu eða jafngildri girðingu úr öðru efni“ komi: „öruggri fjárheldri girðingu“. Brtt. 1.b. er um að e- og f-liður 4. gr. falli niður, en þeir eru um girðingar, sem áttu að varna því, að heilbrigt fé kæmist saman við sjúkt fé. En á þessum slóðum er veikin orðin svo útbreidd, að vafi er á, að hægt sé að einangra féð. Þá er brtt. 1.c, að í stað þeirra liða, er niður eru felldir, komi nýr e-liður, svo hljóðandi: „Milli Hofsjökuls og Langjökuls“.

Samkv. 2. brtt. er 5. gr. frv. sett fram með alveg nýju orðalagi. Í frv. er hreppsnefndum á því svæði, sem tiltekið er, gert að skyldu að koma upp girðingum fyrir sjúkt og grunað fé, en við leggjum til að hafa þetta óbundið og heimila framkvæmdarstjóra að gera slíkar ráðstafanir í samráði við hlutaðeigandi sýslufulltrúa. T. d. eru vestan Oks og í Mýrasýslu um 23 þúsundir fjár sjúkar eða grunaðar, og er það svo mikið, að naumast er hægt að skylda menn til að einangra það allt. Ég vil benda hæstv. forseta á, að í 2. málsgr. þessarar brtt. hefir slæðzt inn orðið „slíkra“ sem á að falla burt, og vona ég, að hann taki það til athugunar.

Þá er 3. brtt., a-liður, við 6. gr. frv., og er hún sett með tilliti til þess, að enn er mjög lítil sýking austan Blöndu í Húnavatnssýslu, svo að rétt þótti að láta þetta ákvæði ná alla leið vestur að Blöndu, en b-liður þessarar brtt. fer fram á, að á eftir orðunum: „eftir fjártölu“, þar sem talað er um, hvernig sýslun. eða bæjarstj. skuli jafna kostnaði niður á sauðfjáreigendur, komi orðin: „eða með öðrum sýslusjóðsgjöldum“.

4. brtt., við 9. gr., sem ræðir um styrk, 25 aura á metra, til að koma upp einangrunargirðingum, fer fram á, að aftan við gr. bætist nýr málsl.: Verði ekki settar upp aðalvarnargirðingar þær, sem um getur í 5. gr., er heimilt að veita einstökum bændum á því svæði styrk samkv. þessari grein.“

Þá er 5. brtt. við 11. gr. Hún fer fram á, að framkvæmdarstjóra sé heimilt að fyrirskipa merkingu á sauðfé á sýktum og grunuðum svæðum, svo að auðvelt sé að þekkja fé þeirra svæða frá öðru fé.

6. brtt., við 19. gr., er um heimild til landbrh. til að ráðstafa sjúku og grunuðu fé, og ef þarf að drepa fé til að hindra útbreiðslu veikinnar, þá að greiða eigendum bætur fyrir.

Ein aðalbreytingin er viðvíkjandi Mýrasýslu vestanverðri og Vestur-Húnavatnssýslu. Það liggur fyrir símskeyti frá sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu, þar sem hún telur, að sýkingin þar í sýslunni sé orðin það mikil, að ekki sé kleift að einangra sjúkt fé frá hinu, og þeir muni því ekki geta fullnægt þeirri skyldu, ef frv. yrði samþ. eins og það er nú. Þetta er eitt af því, sem gerir það að verkum, að við leggjum til, að horfið verði að þeirri breytingu, sem um getur í 2. brtt. Ég vona, að menn geti orðið sammála um hana. Framkvæmdarstjóra er þar falið, í samráði við hlutaðeigandi sýslufulltrúa, að reyna að finna þær leiðir á þessum mikið sýktu svæðum, sem heppilegastar eru til að fyrirbyggja útbreiðslu veikinnar. Um brtt. ætla ég svo ekki að segja fleira.

Ég býst við, að kostnaðurinn við þessar ráðstafanir verði töluvert mikill, eða 400–500 þús. kr. Það kemur ekki allt á ríkissjóðinn, en mikið af því. En ég vona, að menn geri sér það ljóst, að hér er um svo mikilsvert atriði að ræða fyrir íslenzka sauðfjárrækt, að ef ekki er lagt út í þennan kostnað, þá má búast við, að ekki líði mörg ár þangað til komið verður eins á mörgum heimilum þessa lands eins og komið er á þeim heimilum, þar sem veikin hefir verið lengst, eða 3 vetur. Á öðru þessara heimila eru eftir 90 kindur af 750 fyrir 3 árum, en á hinu 26 af rúmum 200 fyrir 3 árum. Eigi hið sama að liggja fyrir öðrum sauðfjárheimilum landsins, þá sjá allir, hvílíkur voði það er, og að nauðsynlegt er að fyrirbyggja slíkt, og það er reynt að gera það með þessu frv. Ég vona, að það takist, ef vörnunum er vel beitt.