20.04.1937
Efri deild: 49. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

159. mál, borgfirzka sauðfjárveikin

*Pétur Magnússon:

Það er náttúrlega heldur leiðinlegt, hvernig þetta mál ber að hér í þessari hv. d.; það kemur hingað fyrst síðustu daga þingsins, og það er því ekkert tækifæri til þess að láta nokkra athugun, sem gagn er í, fara fram á frv. Landbn.menn hafa mætt á fundi og rætt málið nokkuð, en um sum atriðin voru nokkuð skiptar skoðanir. Hinsvegar orkar það naumast tvímælis, að þetta er svo mikið alvörumál, að það er nauðsynlegt, að það sé gaumgæfilega athugað í báðum deildum.

Ég hefi nú ekki kvatt mér hljóðs til þess að gagnrýna þetta frv. Það er þýðingarlaust á því stigi, sem málið stendur nú á, enda þótt ég játi, að það eru nokkur ákvæði í frv., sem ég tel orka nokkurs tvímælis um; en ég skal ekki fara nánar út í það hér. En það, sem gerði það að verkum, að ég kvaddi mér hljóðs áður en endanlega yrði frá málinu gengið, var það, að ég vil beina því til hæstv. ríkisstj., hvort ekki mundi nú þegar ástæða til þess að gera frekari ráðstafanir út af þessu máli heldur en enn er búið að gera. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, varðar eingöngu ráðstafanir til þess að hefta útbreiðslu veikinnar, og vissulega er það ein af nauðsynlegustu ráðstöfununum, sem gera þarf í þessu sambandi, en það eru vitanlega fleiri hliðar á þessu máli, sem eru fullkomlega þess verðar, að þeim sé einnig gaumur gefinn. Annarsvegar er viðhorfið til þeirra manna, sem misst hafa lífsframfæri sitt við það, að veikin hefir lagt bú þeirra í rústir, en ef til vill má segja, að það líði ekki svo langur tími þangað til þing kemur aftur saman, svo að það skipti kannske ekki svo verulegu máli, þó að þetta þing láti þá hlið málsins ekki til sín taka. Hinsvegar er svo viðhorf þess opinbera gagnvart þessum mönnum, sem hafa misst búpening sinn að miklu leyti, hvort þeir eiga að hrekjast frá búum sínum og bætast við atvinnuleysishópinn í kaupstöðunum. Atvinnuleysið vex ár frá ári, og þá kastar fyrst tólfunum, ef bændur ættu í hundraðatali að bætast við í hóp atvinnuleysingjanna.

En svo er þriðja hlið málsins, sem ég álít, að orki mjög tvímælis um, hvort þorandi sé að fresta þangað til þing kemur saman aftur, enda þótt það verði vafalaust á þessu ári, en það er sú hlið, sem að útflutningi íslenzks kjöts snýr. Það hefir heyrzt, og það með góðum rökum, að nokkur ótti hafi gripið nágrannaþjóðir okkar um það, að kjöt af þessu sýkta fé geti verið hættulegt til manneldis, og mér er sagt, að það sé nú þegar óheimill innflutningur á íslenzku kjöti a. m. k. til eins lands.

Nú liggur það í augum uppi, að ef í Englandi kviknaði ótti út af þessu, þá yrði það til þess að leggja sauðfjárrækt Íslendinga algerlega í rústir, eða a. m. k. færa hana svo gífurlega saman, að af því stafaði beinlínis þjóðarvoði. Ég held þess vegna, að full ástæða sé til, nú þegar áður en þessu þingi lýkur, að athuga, hvort ekki þyrfti að breyta kjötmatslögunum eða gera einhverjar ráðstafanir, sem kæmu í veg fyrir, að ótti kviknaði meðal þeirra þjóða, sem kaupa okkar kjötframleiðslu, um það, að til þeirra væri flutt kjöt af sýktu fé. Ég get ekki hugsað mér, að þetta yrði neitt ágreiningsmál hér í þinginu. Það hljóta allir að vera sammála um, að skylt sé að gera það, sem auðið er, til þess að koma í veg fyrir þann háska, sem okkur stafar af þessu, og þó að komið sé að þinglausnum, er full ástæða til að athuga, hvort ekki er samt sem áður kostur á því að koma frv. þess efnis gegnum þingið, því að málið þarf ekki mjög mikinn undirbúning. Þetta er einfalt mál; það eru ekki nema 2–3 gr., sem hér kæmi til greina, að breyta þyrfti og bæta við, svo að ég vil eindregið beina því til hæstv. stj., hvort hún teldi ekki fært að taka málið upp áður en þingið verður rofið, og jafnvel þótt þingrofinu yrði með því frestað um einn dag, sýnist mér ekki í það horfandi. Þetta er svo alvarlegt mál, að það dugir ekki að sýna neina vanrækslu á neinn hátt í því.