20.04.1937
Efri deild: 49. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

159. mál, borgfirzka sauðfjárveikin

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. 2. þm. Rang. minntist á þrjú atriði í sambandi við þetta frv.; eitt var það, að málið kæmi seint í hv. d., en það stafar af því, að áður en þetta frv. var gert, þurfti að fara fram rannsókn á því sem allra síðast, hvar veikin væri, því að það reið mikið á því, að komast að því sem bezt áður en ákveðið væri, hvar girðingarnar ætti að setja, og eru þau vinnubrögð, sem þar hafa verið höfð, að mínu áliti eðlileg og skynsamleg og eftir vilja þeirrar n., sem starfað hefir í þessu máli. — Um annað atriðið, að gerðar verði ráðstafanir til aðstoðar þeim mönnum, sem hafa orðið fyrir tjóni af völdum þessarar veiki, er það að segja, að stj. hefir ekki talið eðlilegt, þar sem fjárlög verða sennilega ekki afgr. á þessu þingi, að afgreiða stórkostleg fjármál áður en næsta þing kemur saman, ef þetta verður rofið. — Um síðasta atriðið, útflutning kjöts og lögin um það, er það að segja, að það er rétt hjá hv. þm., og það hefir verið nokkuð um þetta rætt; ég hefi átt tal um þetta við nokkra hv. þm., og það eru til tvær leiðir í þessu máli. Önnur er sú, að bíða með þingið, þangað til hægt er að afgr. lög um þetta. og leita þá áður umsagnar kjötútflytjenda, sem mun vera auðvelt að fá, en hin leiðin er sú, ef þingfl. geta fallizt á, að lög séu sett um þetta, að gefin verði út bráðabirgðalög eftir að búið er að rjúfa þingið, ef það liggur fyrir, að þingfl. séu sammála um þetta, svo framarlega sem umsögn kjötútflytjenda hnígur í þá átt, og mér virðist það engin frágangssök að ganga þannig frá málinu, ef það sýnir sig, sem ég er fús til að leita eftir, að þingfl. væru sammála um að gera þessa ráðstöfun.