16.03.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

Sætaskipun í sameinuðu þingi

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Það mun hafa tíðkazt hér á Alþ., að ekki hafi alltaf verið farið eftir þeim sætanúmerum, sem þm. hafa dregið í upphafi hvers þings. Ég veit ekki betur en að forseti Nd. hafi látið það óátalið, þó að menn kæmu sér saman um að sitja á aðra lund en gerðabók segir til. Svo hefir það einnig orðið að þessu sinni, að við nokkrir þm. í Nd. höfum tekið okkar sæti í innri skeifunni, af því að ekkert samkomulag varð milli þingflokkanna um sætaskipun; við höfum setið um nokkurt skeið í sætunum hér í innri skeifunni og talað þaðan, án þess að því væri fundið af hæstv. forseta.

Ef á annað borð á að fara að koma nýrri skipun á þessa hluti, finnst mér, að hæstv. forsetar, hvor í sinni d., ættu að heimta það, að hver þm. sæti í því sæti, sem hann hefir dregið í upphafi, og að menn tækju sér það sæti, sem þeir helzt vildu, ef þm. hefði ekki sérstaklega dregið það sæti. Það kann að vera, að það sé helmingur hv. Nd.-manna eða rösklega það, sem situr í þeim sætum, sem þeir hafa dregið, en ég ætla, að allt að því jafnmargir sitji í öðrum sætum en gerðabók segir til um.

Meðan það er talið frjálst af forseta Nd. a. m. k., höfum við tekið okkur sæti í innri skeifunni og sjáum ekki ástæðu til að víkja úr þeim sætum, þar sem enginn virðist eiga sérstakt tilkall til þeirra samkv. drætti eftir þingsköpum.