16.03.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

Sætaskipun í sameinuðu þingi

*Magnús Jónsson:

Ég vil eindregið ítreka tilmæli forseta okkar Ed.-manna um það, að okkur verði tafarlaust séð fyrir sætum, þegar við komum hingað, ekki í neina heimsókn til hv. Nd.-manna, heldur á fundi í Sþ. í þessum sal, sem hv. Nd. heldur fundi sína í. Eftir 7. gr. þingskapa á að hluta um sæti; það er því augljóst, að dm. geta ekki átt rétt til annara sæta en þeirra, sem númeruð eru. Það hefir tíðkazt, að þm. hafi verzlað með sæti sín. Látum það vera, en þar fyrir er það óhæfilegt, að menn geti „selt“ sæti, sem þeir hafa ekki dregið. Það hefir enginn maður hér í hv. Nd. getað dregið sætin í innri skeifunni, þar sem þau eru ónúmeruð.

Mér finnst eðlilega lausnin á þessu máli vera sú, að hæstv. forseti láti hlutast til um það, að sett verði númer á þessi sæti í innri skeifunni, sem svari til númera í sal Ed., og hver þm. eigi sæti hér við tilsvarandi númer, sem hann situr við í Ed. — Hitt mun öllum vera ljóst, að það nær engri átt, að þegar komið er á fund í Sþ., þá hafi þeir, sem af hendingu koma úr öðrum sal, engin föst sæti til að hafast við í. — Það verður að komast að friðsamlegri lausn á málinu; það er óviðunandi, ef við þm. verðum hér að hafa þann hátt landnámsmanna að þurfa að berjast til landa.