20.04.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

Þingrof

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég mun svara þessum fyrirspurnum hv. þm. G.-K. með þeim orðum, sem ég nú mun láta falla:

Á yfirstandandi Alþingi hefir það í afstöðu þingflokkanna til ýmsra þýðingarmikilla mála, er fyrir Alþingi liggja, og í flutningi lagafrumvarpa komið í ljós, að afstöðumunur og ágreiningur þingflokkanna, er styðja ríkisstjórnina, er um mjög þýðingarmikil þjóðmál svo mikill, að Alþfl. hefir hér á Alþingi 16. þ. m. lýst yfir því, að hann slíti samstarfi við Framsfl., ef ýms þau frv., er hann hefir lagt fram í þingi, nái ekki fram að ganga í aðalatriðum. En Framsfl. hefir hinsvegar lýst sig andvígan mikilvægum atriðum ýmsra þessara frv., er Alþfl. leggur áherzlu á.

Hinsvegar er það vitað, að þm. stjórnarflokkanna munu ekki kjósa að styðja aðra menn til stjórnarmyndunar, eins og mál liggja nú fyrir, og að þeir vilja heldur ekki veita stj., skipaðri af andstöðufl. stj., stuðning eða hlutleysi, þannig að það er með núv. skipun Alþingis ekki unnt að mynda aðra meirihlutastj. Þar sem ennfremur alllangt er liðið á kjörtímabilið og aðstaðan, einkum í atvinnulífi þjóðarinnar, þegar orðin mjög breytt frá því, er alþingiskosningar fóru síðast fram, þá þykir, að öllu þessu athuguðu, stjórnskipulega rétt að skjóta málefnum þeim, er ber á milli þingflokkanna, undir dómstól þjóðarinnar og efna til nýrra kosninga svo fljótt sem verða má.

Samkvæmt þessu hefi ég af hálfu ráðuneytisins með símskeyti í gær lagt til við konung, að Alþingi það, er nú situr, verði rofið og að almennar kosningar að nýju fari fram 20. næstkomandi júnímánaðar.

Ég hefi sem svar við þessari till. móttekið tvö bréf, sem hljóða þannig:

„Vér Christian hinn tíundi, af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg,

Gerum kunnugt: Með því að forsætisráðherra af hálfu ráðuneytis vors þegnlega hefir borið upp fyrir oss tillögu um að rjúfa Alþingi það, sem nú er, og þar sem vér höfum í dag allramildilegast fallizt á till. þessa, þá bjóðum vér og skipum fyrir á þessa leið:

Alþingi það, sem nú er, er rofið.

Eftir þessu eiga allir hlutaðeigendur sér þegnlega að hegða.

Gert á Amalíuborg, 20. apríl 1937. Undir vor konunglega hönd og innsigli.

Christian R.

(L. S.)

Hermann Jónasson. Opið bréf um að Alþingi, sem nú er, sé rofið.“

Hitt bréfið, sem er opið bréf um nýjar kosningar til Alþingis, er þannig:

„Vér Christian hinn tíundi, af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg,

Gerum kunnugt: Með því að vér höfum með opnu bréfi, dagsettu í dag, rofið Alþingi það, sem nú er, þá er það allramildilegast vilji vor, að nýjar almennar kosningar skuli fara fram 20. júní næstkomandi.

Fyrir því bjóðum vér og skipum svo fyrir, að almennar kosningar til Alþingis skuli fara fram nefndan dag.

Eftir þessu eiga allir hlutaðeigendur sér þegnlega að hegða.

Gert á Amalíuborg, 20. apríl 1937.

Undir vor konunglega hönd og innsigli.

Christian R.

(L. S.)

Hermann Jónasson.

Opið bréf um nýjar kosningar til Alþingis.“

Samkvæmt þessu lýsi ég því yfir, að þetta Alþingi Íslendinga, sem háð er eitt þúsund og sjö árum eftir að hið fyrsta Alþingi var háð á Þingvöllum, er rofið.

1262

Var síðan af þingi gengið.