02.03.1937
Neðri deild: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (1265)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég hefi talið, frá því að þessi l. um útvarpsreksturinn voru sett, að þeim væri í ýmsu ábótavant. Því hefir ekki verið mótmælt af hæstv. ráðh., að það væru útvarpsnotendur, sem ættu að bera uppi þessa stofnun og gera það. Það er rétt, að ríkissjóður lagði fram stofnkostnaðinn. En ríkið hefir öll þau tök á útvarpinu, sem þarf til að varðveita þann rétt, sem af þessu kann að hafa skapazt. Ráðh. skipar útvarpsstjóra, og hann er formaður útvarpsins, sér um reksturinn, fjárreiður og slíkt. Öll fjármálin eru því í raun og veru undir valdi ríkisstj. En þegar rætt er um það, að geta endurbætur á tilhögun þess, sem flutt er í útvarpinu, á það að vera á valdi útvarpsráðs. Því er ætlað að vera fulltrúi hins almenna, en ekki ríkisins sérstaklega. En þetta getur ekki orðið fyllilega með því að ráðh. skipi einn manninn. Frv. skiptir sér ekki af því, hvernig hinir þrír menn eru skipaðir af Alþingi. Alþingi skipar þá eftir stjórnmálaflokkum, og er ekkert við því að gera. En almenningur, hlustendur, eiga að ráða því, hvað flutt er, og það gera þeir ekki nema þeir hafi meiri íhlutun um kosningu útvarpsráðs en nú, eins og frv. fer fram á. Útvarpsráð er ekki framkvæmdaráð í rekstrinum, heldur ráðuneytið, sem ákveður, hvernig þeim andlegu málum, sem hlustendur eiga að njóta, er fyrir komið.

Hæstv. ráðh. sagði, að sér væri ókunnugt um þá óánægju, sem hv. þm. Snæf. gat um í ræðu sinni. Það getur ekki skýrzt öðruvísi en að kvartanir hafi ekki borizt til hans. Menn vita ekki til, að ríkisstj. geti nokkuð við því gert, sem ábótavant er í þessu efni, svo að ekki er von, að þeir kvarti við hana. Mætti líka geta sér til, að almenningur af sumum tegundum sé ekki sérlega fíkinn í að kvarta fyrir hæstv. ráðh., því að óánægjan er aðallega á eina hlið. Um það hefir verið talað, að útvarpið hafi verið notað í þágu þeirra flokka, sem hæstv. ráðh. er fulltrúi fyrir. Ég skal ekki neita því, að 1–2 síðustu árin hefir verið nokkru kyrrara hér um og að þetta hefir nokkur batnað undanfarið, en þó eldir eftir af þessu, og svo verður, meðan fréttamenn og erindaflytjendur eru ekki upp úr því vaxnir að láta persónulegar skoðanir sínar koma fram í störfum sínum fyrir útvarpið. Bæði ég og aðrir hafa vonað, að þetta myndi lagast, en það er ekki enn að fullu lagað, og þykir okkur því réttast að taka upp slíkt fyrirkomulag, að útvarpsráð sé fyrst og fremst fulltrúi almennings. Hann getur þá sjálfum sér um kennt, ef ekki batnar.

Við erum óánægðir með ákvæði útvarpsl., en við höfum engu þar um ráðið. Nú viljum við gera tilraun til að kippa þessu í lag, og vænti ég, að menn sjái nú, að reynslu fenginni, að l. þarf að breyta, eins og venja er til um önnur l., að þeim er breytt, er reynsla hefir fengizt. Þetta frv. er ekki flutt af hálfu okkar flm. í neinum öðrum tilgangi en þeim að ráða bót á þeim ágöllum, sem við teljum, að sé á þessari hlið á rekstri útvarpsins. Hvort það tekst með þessu, ef frv. verður að l., skal ég láta ósagt. Það er ekki flutt sem ákúrumál á sérstaka menn, öðruvísi en að okkur er hægt að færa rök fyrir því, að þessum mönnum hefir skeikað, eftir því sem við vitum og eftir því sem almenningur telur ótvírætt. Nú reynir á það, hvort þessir menn vilja fallast á þetta, eða hvort þeir vilja gersamlega traðka þetta mál niður og þannig safna frekari glóðum elds að höfði sér.