02.03.1937
Neðri deild: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (1268)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Hv. þm. og aðrir, sem hér eru og heyra og sjá, hafa nú getað sannfærzt nokkuð um það, hverskonar fréttamaður þetta er, sem nú hefir staðið hér upp, og bókstaflega sleppt sér, og hversu heppilegur hann muni vera við almenningsstofnun, sem allir meina, að eigi að vera hlutlaus og sem réttlátust. Hinu skal ég ekki neita, að hann geti verið nógu duglegur í flokki, þ. e. a. s. á meðan hann tollir, en reynsla undangenginna ára hefir nú sýnt okkur, að það er stundum ekki lengi. En sem sagt, hann getur verið nógu góður í Alþfl., eins og kvikindi, sem sigað er, en vissulega er hann ekki góður, þar sem hann nú þykist standa föstum fótum, sem óhlutdrægur og sanngjarn fréttaflutningsmaður í ríkisútvarpinu íslenzka. Þetta er nú ekki nýtt mál, og þess vegna svíður honum ár eftir ár, en við höfum vonað, að hann mundi átta sig á þessu og leiðrétta sjálfan sig og haga sér sæmilega sem sá maður, sem fyrir almenningi vill líta skikkanlega út. En við fullyrðum, að framkomu hans er mjög ábótavant, ekki aðeins nú, þegar hann sleppir sér, heldur líka í sjálfu útvarpinu.

Þegar útvarpsstarfsemin var sett á stofn, vakti það strax umtal og óánægju, hvernig þeim málum var skipað. Það var skipaður forstjóri útvarpsins á flokkslegan hátt, og eins aðrir starfsmenn. Þó maður geri nú ekki ráð fyrir, að óánægja hafi verið og sé frá öðrum en andstöðuflokkum stj., þá er það samt ekki minna en helmingur þjóðarinnar, svo að full ástæða er til að líta um öxl og einnig fram á við og athuga, hvernig þessum málum sé bezt háttað. Ég fullyrði, að óánægjan hafi verið mjög áberandi hjá þeim, sem eru í andstöðu við núv. hæstv. stj., og ekki einasta hjá þeim, heldur öllum þeim, sem á skikkanlegan hátt vildu halda þessu menningartæki fyrir utan flokkadeilur. — Nú er þessu þannig varið, sem enginn getur á móti mælt, að þetta er almenningsstofnun. Útvarpshlustendur eiga í raun og veru og halda uppi þessari stofnun, enda þótt ríkið hafi stofnsett hana til að byrja með, og því er það, sem almenningur getur ekki þolað, að við slíka stofnun sé beitt nokkurri hlutdrægni. Það þótti nóg, að í upphafi var til allrar ráðamennsku valið á flokkslegan hátt.

Fréttaritararnir úti um landið voru valdir á sama hátt, með örfáum undantekningum. Það hefir verið gerð gangskör að því að fiska upp þann fréttaritara, sem ekki er úr stjórnarhernum, og fyrirfannst aðeins einn og einn maður, sem fyrir utan þann hóp stóð, og hafa menn ekki skilið, hvernig á því hefir staðið, en undantekningarnar staðfesta bara regluna. Þegar svo kom að því, að hv. 9. landsk. var valinn til að annast erlendan fréttaflutning í útvarpinu, þá vakti það nokkurn beig, af því að menn þekktu feril þessa manns og vissu, að hann var ekki sem glæsilegastur. Og því miður reyndist hann ekki starfinu vaxinn að ýmsu leyti, enda þótt hann sjálfur álíti svo vera. Hann lætur það í veðri vaka, að hann sé allt í öllu, bæði upphaf og endir í starfsemi útvarpsins. Jafnvel gefur hann það í skyn, að hann hlusti á erlendar fréttir tímunum saman eingöngu fyrir útvarpið. Til þess að komast að niðurstöðu um atriði, sem mikið var rætt í London nú á dögunum, segist hann hafa tekið sig til og hlustað á Rómaborg.

Hvaða þýðingu hefir það fyrir hann að hlusta á Rómaborg? Hann skilur auðvitað ekkert í málinu! Þetta er bara eins og hver önnur vitleysa. En maðurinn getur verið nógu góður fyrir því, þó hann hlusti ekki á Rómaborg. — Upphaflega var annar maður með þessum hv. þm. við fréttastarfsemi útvarpsins, maður, sem ég veit ekki, hvar er í pólitík. En sá maður fór aldrei út í pólitík, dró aldrei eins hlut fremur en annars. En hvað skeður? Þessi maður, sem enginn hreyfði hönd né fót á móti, var látinn fara. Það hefir víst ekki þótt hæfa, að við útvarpið væri maður, sem enginn hefði neitt við að athuga. En nú hefir þessi hv. þm., þessi fréttaþulur, verið látinn sigla til þess að mennta sig frekar, ég heyri sagt til þess að kenna prestum. Og menn geta séð manninn — ecce homo! Hann á að kenna prestum þessa lands að lifa fagurlega og koma siðsamlega fram. En þessi hv. þm. virðist ekki hafa mikið lært í þessu efni. Hann hefir vitanlega stundað ýmislegt annað, en hann hefði þó átt að læra ofurlítið í framkomu, þannig að honum skildist, að þegar talað er um slíka stofnun sem útvarpið, þá er ekki fyrst og fremst verið að tala um hann einn. Útvarpið er ekki Sigurður Einarsson. — Þessi fréttamaður virðist heldur ekki hafa lært neitt í fréttaflutningi í þessari utanför. Hann hefir að vísu með talsverðum belgingi talað um og látið fréttir berast heim um það, að hann hefði verið mjög í hávegum hafður á Norðurlöndum. Hafði einn blaðamaður, sem að vísu var kommúnisti, látið þau ummæli falla, að Sigurður Einarsson hefði lagt drjúgan skerf til menningaruppfræðslu í landinu. Hvaðan hafði hann þetta? Þetta var símað hingað upp og látið koma í útvarpinu, og síðan gekk á skeytum um það, að þessi þm. hefði flutt erindi í Stokkhólmi og Danmörku. Og þegar hann kemur heim, þá er það hans fyrsta að segja sjálfur frá þessu, og ekki nóg með það, heldur fer hann að þýða og lesa upp þetta erindi sitt, sem hann flutti í Danmörku, þar sem hann þóttist hafa getað frætt Dani um það, hvað Englendingar mundu gera, — ekki hvað þeir hefðu gert, heldur hvað

þeir mundu gera. Um þetta erindi hv. þm. var sagt í Politiken, að það hafi verið furðu karlmannlegt, en annað blað veit ég ekki til, að hafi getið um þetta í Danmörku. En í þessu erindi sínu fór hv. þm. að dæma um höfuðmál þau, sem á dagskrá eru hjá stórþjóðunum. Hann fór að dæma um það, hvernig á því hefði staðið, að Játvarður VIII. fór frá völdum, og sagðist honum eitthvað á þessa leið: Öll blöðin þögðu yfir því í Bretlandi, en ég veit það samt. Ég veit, hvað býr í brjósti hvers einasta Englendings, og það er það, að Játvarður konungur fór ekki frá af þeim sökum, sem upp voru gefnar, heldur af því, að hann er eyðilagður skotgrafarmaður, hann var í þeirri fylkingu, sem leiðir til glæframennsku, og af því að hann er nazisti. — Nú skal ég skjóta því inn, að nýlega hefir kunnur blaðamaður í Englandi látið þess getið, að ef Játvarður VIII. hefði verið við völd, þegar Ribbentrop heilsaði á þjóðernissinna vísu Georgi Vl., þá hefði hann rekið hann úr landi. Ekki hefir þessi blaðamaður verið þeirrar skoðunar, að Játvarður VIII. fyrrv. Englandskonungur hafi orðið að fara úr landi vegna þess, að hann væri nazisti og eyðilagður glæframaður úr skotgröfunum. Ég tek þetta fram hér, þó það sé þannig vaxið, að það eigi ekki erindi inn á þing. Það á ekki erindi til manna, sem eru með fullu ráði. Dæmi um það, hvernig málið er lagað, er það, að talið er, að komið hafi fjöldi blaðadóma frá útlöndum, og því haldið fram, að þar hafi verið tekið mark á þessu. En ég held, að það sé tæplega hægt að telja manni trú um, að frændur vorir á Norðurlöndum hafi tekið mark á þessu. Hann getur alls ekki fært sönnur á það. Menn yppta öxlum við slíku og brosa að því.

Ef þessi fréttaþulur, sem við höfum nú við að búa, er hlutdrægur og fer rangt með, þá viljum við hafa leyfi til að gera athugasemdir við fréttaflutninginn. Hinn daglegi fréttaflutningur hefir þó lagazt upp á síðkastið, og ég fullyrði, að það er eingöngu vegna þeirrar óánægju, sem menn hafa látið í ljós. En það er eitt, sem er mjög ábótavant ennþá, og kemur það af eðlisfari eða lundarfari þess, sem fréttirnar flytur. Þar sem honum eru lagðar fréttirnar upp í hendurnar, þá á hann ekki og þarf ekki að vera að burðast með sína eigin dóma. Hann á ekki og þarf ekki að láta á því bera, að hann sé ákveðinn flokksmaður, eins og t. d. þegar hann er að tala um styrjöldina á Spáni. Þegar hann talar um hana, þá heldur hann því fram, að stjórnarliðar séu hinir réttlátu, en hinir þeir ranglátu. Hann má náttúrlega fyrir mér hafa þessa skoðun. En er það rétt, að ríkisútvarpið eða nokkur slík stofnun taki að sér að gera upp á milli flokka og stefna og baráttumála úti um lönd? Er það tilgangur og hlutverk þessarar fræðslu að ala upp í mönnum ákveðnar hugmyndir um það, hvernig viðhorfið er úti um lönd? Við höfum álitið, að það ætti að skýra frá þessu, en ekki leggja dóma á það. Við höfum haldið því fram, að ríkisútvarpið megi ekki vera alþjóðadómstóll í alþjóðamálefnum. En þessi fréttamaður hefir ekki dregið dulur á, að svo er það nú samt. Hann hefir farið hörðum orðum um uppreisnarmenn í útvarpið, en afsakað stjórn rauðliða á Spáni eindregið. Hann hefir talið, að stjórn rauðliða á Spáni sé hin eina löglega og hin ágætasta. Fram eftir öllu sumri, og allt þangað til uppreisnarmenn höfðu tekið hálfan Spán, kallaði hann þetta tilraun til uppreisnar. Það var auðvitað sama, hvað hann kallaði þetta, en það var gagnslaust fyrir hann. Hvaða leyfi hafa menn til þess, fyrir utan það, hvað það er vitlaust, þegar annar aðilinn hefir nærri helming af öllu landinu, að kalla það tilraun til uppreisnar? Það er villa. En við vissum, hvernig á þessu stóð. Honum var pólitískt illa við uppreisnarmenn. En hann mátti ekki láta þetta koma áberandi fram í útvarpinu, því það var hugsanlegt, að menn skiptust í flokka um þetta, og hann átti að láta hvern fá sitt, hvort sem það var gott eða illt. Hann sagði um stjórn rauðliða á Spáni, að þeir hefðu ekki einusinni drepið einn biskup. Hann átti við, að það komu fréttir um, að einn biskup hefði verið margdrepinn, en myndi vera á lífi. Af þessu dró hann þá ályktun, að stjórnin hefði ekki einusinni drepið einn biskup. En þessi biskup situr svo í heilanum á honum, að þegar hann er kominn til Danmerkur, þá er hann enn með þennan biskup, dauðan eða lifandi. Líklega er hann enn í honum. Ef til vill er þetta ekki alveg tilgangslaust, því enginn verður óbarinn biskup. Hann hefir talið, að öldur óánægjunnar á Spáni væru fasistum að kenna. En hann nefndi ekki stjórnarsinna og kommúnistana, sem allur heimurinn veit, að áttu upptökin að styrjöldinni. Það er viðurkennt og skrifað um það enn í dag, að þeir hafi sérstaklega gert sér að atvinnu að ráðast á kirkjur og brenna þær og myrða presta, munka og nunnur. Það er skrítið að segja, að þeir, sem með verkum sínum voru upphafsmenn að styrjöldinni, séu saklausir, en hinir sekir. Frjálslynd blöð svokölluð, og jafnvel Politiken, sem annars styður rauðliða, hafa játað, að þessir menn hafi sleppt tökunum á sjálfum sér og tekið stjórnina af hinni svokölluðu löglegu stjórn og framið morð og rán. Þegar svo er, þá er skikkanlegra fyrir okkur að kasta okkur ekki út í dóma um þessi mál, og þessi maður ætti sízt að gera það. Hann hefir engin skilyrði til þess, og honum er vafalaust ekki falið það af þessari stofnun. Til marks um það má taka, að útvarpsstjórinn hefir ekki séð sér annað fært en að reyna að fá á sig það orð, að hann ætli sér sem forstjóri ríkisútvarpsins að vera í framtíðinni flokkslaus. Hann sagði sig úr Framsfl. Einn hv. þm., sem situr hér gegnt mér, hefir skýrt þetta öðruvísi. En hvað sem því líður, þá hefir því verið opinberlega yfirlýst af þessum forstjóra, að hann ætli sér að vera fyrir utan alla flokka. Af þessu ræð ég, að það sé ekki með hans vilja, að fréttamenn séu að þvælast með dóma sína um viðburði, menn og málefni úti um heim.

Ég skal geta þess, að þessi fréttamaður, sem ég er hér að tala um, sagði í erindi, sem hann flutti í útvarpið, heimkominn frá Danmörku, að hann ætlaði sér að koma upp um þessa menn og átti hann þá við Þjóðverja og Ítali — sem fölsuðu staðreyndir og heimildir. Svo bætti hann við — og var hann þá kominn í slíkan ham innan luktra dyra, að það var eins og hann sæi framan í okkur hér —, að þessi ríki, einræðisríkin, ætluðu sér að ráða niðurlögum smáþjóða, ekki með vopnum, heldur með viðskiptasamningum. Þetta sýnir, að það getur verið ábyrgðarhluti að hleypa vissri tegund af fólki í ríkisútvarpið, sem jafnvel berst til útlanda. Þetta sýnir, að þetta er ekki aðeins bundið við það, sem menn segja og tala hér, því þetta er þannig vaxið, að það fer út fyrir það svið, sem maður hélt að þessum manni væri falið að vera á. Það getur verið varhugavert á sama tíma, sem við erum að leita samninga við þessar þjóðir, að hleypa þá ábyrgðarlausum manni í ríkisútvarpið og láta hann básúna, að hann ætli sér að sanna á þessi ríki og fullyrði, að þessi ríki falsi staðreyndir og heimildir, og þau ætli sér að koma okkur á kné með viðskiptasamningum, sem við erum að reyna að koma á með veikum mætti. Ég fullyrði, að þetta getur ekki verið rétt af hálfu ríkisútvarpsins.

Það má auðvitað lengi um þetta ræða. En ég vil geta eins, sem sýnir, að þessi maður getur sleppt sér, þó hann sjái engan kringum sig. Þegar hann las erindið, sem hann flutti í Danmörku, talaði hann um, að þeir menn, sem væru á móti þeirri stefnu, sem spánska stjórnin fylgir, hefðu á sér þennan kjaftshögga- og kylfublæ, sem væri upprunninn í föðurlandi fangabúðanna. Ég get skilið það, að honum þyki þetta gómsætt.

En það eru fleiri en þessi maður, sem hafa orðið fyrir því, að þeim hefir skjátlazt. En þar hefir fordæmi þessa manns sjálfsagt villt, því að þegar þetta er komið í gang, þá er eins og aðrir læri af því og haldi, að sér sé óhætt að gera þetta. Menn héldu, að millibilsfréttamanninum myndi ekki skeika. En hvernig fór? Þegar hann fór að lesa yfirlitserindi, þá valdi hann Spán og talaði um morð, sem uppreisnarmenn á Spáni hefðu staðið fyrir. Hann valdi sér þá heldur rótarlega grein, sem Andreas Vinding skrifaði, þegar hann varð að flýja frá Madrid, en það var hrottaleg ádeila á þjóðernissinna á Spáni, en vörn fyrir stjórnina. Ég vil ekki áfella þennan mann, sem ef til vill hefir gripið til þess að flytja þetta, af því hann hefir vantað gögn. En hitt er verra, að útvarpið er jafnvel komið svo langt í þessu, að í barnatíma útvarpsins hefir það komið fyrir, að flutt hefir verið algerlega óhæf saga. Hún var auðsjáanlega flutt til þess að níða vissa stétt hér innanlands. Sagan var flutt af konu, sem ég þekki ekki. Ég hlustaði ekki á hana, en það vildi svo til, að ég heyrði þetta. Það var sagt frá lítilli telpu, sem var ráðin sem vikastelpa til togaraskipstjórafrúar, og þar var hún kvalin og kramin og illa með hana farið, af því að þetta var togaraskipstjórafrú, sem drakk og fór illa með börn. Nú mátti auðvitað taka dæmisögu um svipað efni, en það var ekki nauðsynlegt, að hafa þetta togaraskipstjórafrú. Allir vita, að þetta er sérstaklega gert til þess að níða vissa stétt. Þetta var mjög óviðeigandi, og menn urðu alveg hissa á þessu og ætluðu varla að trúa því, að farið væri að beita þessari aðferð við saklaus börnin. Ef á að gera það, þá er komið nokkuð langt.

Ég man svo langt, að það þóttu miklar fréttir, ef bruggað var á einhverjum stað í landinu, og löggæzlumaðurinn var boðinn og búinn til þess að láta greina frá því í útvarpið, og hefir þetta sjálfsagt átt að vera til aðvörunar fyrir alla. En svo heyrði ég aldrei í útvarpinu eina frétt um bruggun. Ég held, að ég hafi borið saman blöð og útvarpið, þegar talað var um bruggun, og ég held, að allar fréttir um bruggun, sem komið hafa í blöðunum, hafi yfirleitt komið í útvarpinu. Það var aðeins ein bruggun í blöðunum, sem ég hefi ekki heyrt í útvarpinu. Sú bruggun átti sér stað í svínastíu alþýðubrauðgerðarinnar. Það var ekki getið um hana í útvarpinu. Það er að vísu lítilfjörlegt atriði, hvort þarna hefir verið bruggað eða ekki. En þetta sýnir, að þessi svínastía virðist vera friðhelg. Það er nú svo, að það er ekki alltaf gott að greina milli þessa, en það má ekki verða svo, að ríkið stefni að þessu, og þó að einum manni hafi brugðizt bogalistin, þá má þetta ekki verða að stefnu í innlendum eða erlendum fréttum, að taka þetta sjónarmið. Við verðum að keppa að því, að gert sé það, sem hægt er, til þess að halda þessari almennu stofnun upp úr skítnum og halda henni hreinni.

Nú viljum við flm. þessa frv. setja fréttamanninn undir útvarpsráð. Það má auðvitað um þetta deila, en við teljum, að það mundi betur fara á því, og þess vegna er málið flutt á þeim grundvelli. Það fer væntanlega í n., ef óttinn verður ekki of mikill við það. En hvað sem þessari till. líður, þá tel ég, að útvarpsráði hafi nokkuð skakkað upp á síðkastið.

Það er þannig, að útvarpsráðið fann upp á því að stofna til sérstaks tíma á mánudagskvöldum, sem það kallar um daginn og veginn. Til þessa starfs var fenginn einn af meðlimum útvarpsráðs. Nú er það svo í útvarpslögunum, að bannað er, að útvarpsráðsmeðlimur sé fastur starfsmaður útvarpsins. Ég tel, að gengið sé á þetta ákvæði með þessu. En hvað um það, ef þessum manni færi þetta svo vel úr hendi, að allir mættu vel við una, þá mætti kannske sætta sig við það. En mönnum hefir fundizt það einkennilegt rabb um daginn og veginn, sem þarf endilega að vera dómar um mál og menn. Ég leyfði mér að spyrja útvarpsráðið að því, hvort þessi maður væri ekki í útvarpsráði, og hvort hann væri samt ráðinn til þess, og hver bæri ábyrgð á þessu. Ég fór fram á, að þessi þulur væri látinn segja frá því, á hvers vegum hann talaði, og hvort það væri á ábyrgð útvarpsráðs. En útvarpsráð sá sér ekki fært að láta hann gera það, eða hann hefir kannske ekki viljað það. Mér var skrifað bréf um það, að þessi maður væri í útvarpsráði, og því var slegið föstu, að útvarpsráðið bæri ábyrgð á þessu. Þar sem útvarpsráðið er opinber stofnun, vil ég bera það fram sem upplýsingar í málinu, að það ber ábyrgð á því, sem þessi maður segir, og það er ekki hægt að skoða þetta öðruvísi en að þessi maður tali í umboði útvarpsráðs. Nú er það vitanlegt, að margt hefir komið frá þessum manni, sem útvarpsráðið getur ekki borið ábyrgð á. Hann leyfði sér að dæma hlutdrægt um ýmislegt, sem ekki á við. Menn vilja gjarnan fá rabb um daginn og veginn, ef það er ekki kjánaskapur um manninn sjálfan eða auðvirðileg kvæði, sem berast, heldur um það, sem gerist, eða ef maðurinn segði blátt áfram frá því, sem er í dagblöðunum. Hann hefir gert tilraun til þess stundum, en einu sinni var það þannig, að ekki mátti tæpara standa. Hann sagði aldrei frá rimmunni á Laugarvatni, sem fréttir bárust af út um landið á annan hátt. Sú frétt var þannig, að það mátti segja frá henni í tímanum um daginn og veginn. Hann talaði um bankahneyksli, og það helzta, sem hann hafði að segja um það, var, að Jónas Jónsson væri farinn að skrifa um það í Nýja dagblaðið, og á móti honum væri Alþýðublaðið. En hvað skrifaði Alþýðublaðið? Hann gat þess, að það ávítaði bankastjórnina út af lánunum til Kveldúlfs. Það gleymdist að geta þess, að þeir hafa líka veitt lán til S. Í. S.

Ef aðeins væri um smáatriði að ræða, sem hvorki gerðu til eða frá, þá myndu menn láta það kyrrt liggja. En þegar útvarpsráðið stendur fyrir þessu, þá fullyrði ég, að það eigi að hafa eftirlit með þessu.

Ég mun hér láta staðar numið um sinn, enda er mér nokkuð markaður bás, þar sem ég er ekki aðalflm. að frv. En ef því er að skipta, að þetta mál fái að fara eitthvað lengra, þá má líka gefa frekari upplýsingar, því það er svo, að hverju máli er bezt borgið með því, að óyggjandi upplýsingar komi fram um það, hvort með því, sem lagt er til, sé ráðin bót á ástandi, sem menn eru óánægðir með.