02.03.1937
Neðri deild: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (1274)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Héðinn Valdimarsson:

Mér virðist af þeim dæmum, sem þeir hafa tekið hér, hv. þm. V.-Sk., hv. 11. landsk. og hv. 6. þm. Reykv., að það sé í raun og veru ekki mjög mikið við útvarpsstarfsemina að athuga. Hv. þm. hafa að vísu viðhaft mörg orð og stór, en þegar dæmin eru tekin og athuguð, verður furðu lítið úr þeim. Ég ætla þó að minnast á fáein atriði til viðbótar því, sem sagt hefir verið. Hv. 11. landsk. minntist á, að það kæmi sérstaklega fram hlutdrægni hjá Jóni Eyþórssyni, er hann talaði um daginn og veginn, eins og t. d. þegar hann minntist á stofnun stjórnmálafélags kvenna innan Sjálfstfl.; hefði hann farið um það eitthvað niðrandi orðum og ekki talið slíkan félagsskap viðeigandi. Ég veit ekki betur en þetta sé alrangt. Það, sem Jón Eyþórsson gerði í erindi sínu, var ekki annað en það, að leggja þá spurningu fyrir útvarpsnotendur, hvort þeir teldu rétt að hafa sérstök stjórnmálafélög fyrir kvenfólk. Þetta er atriði, sem vel er fallið til þess að fólk geri sér grein fyrir því og láti skoðun sína í ljós. Það getur fleirum komið til hugar en sjálfstæðismönnum að stofna kvenfélög til fylgis við ákveðna stjórnmálaflokka; þetta er aðeins skipulagsatriði, eða ef til vill að nokkru leyti mannréttindaatriði, hvort rétt er að hafa sérstök stjórnmálakvenfélög, eða hvort kvenfólkið á að vera jafnrétthátt innan hinna almennu stjórnmálafélaga. Jón Eyþórsson gat þess í útvarpinu við umrætt tækifæri, að það væri á engan hátt tilætlunin að leggja dóm á, hvort þetta væri rétt eða rangt, heldur aðeins að fá útvarpsnotendur til þess að láta í ljós skoðun sína um það, eins og margt annað, sem vel er til þess fallið að vekja umhugsun manna. Umkvörtun hv. þm. ber því aðeins vott um, hvað hörundssárir sjálfstæðismenn eru. Það getur vel verið, að þeim sjálfum finnist eitthvað undarlegt við það að stofna sérstök stjórnmálafélög kvenna.

Hvað snertir umræður æskulýðsfélaganna í útvarpinu, þá hygg ég, að menn úr flestum eða öllum flokkum hafi verið óánægðir með þær. Hvað þýðir að vera að hafa sérstakar stjórnmálaumræður fyrir æskulýðsfélögin, nema þá um þau mál, sem sérstaklega snerta æskulýðinn eða um starfsemi æskulýðsfélaganna? Hvers vegna á frekar að hafa sérstakar stjórnmálaumræður um almenn mál fyrir fólk á aldrinum 20–30 ára, heldur en t. d. aldrinum 40–50 ára. Eins og þessar umræður fóru fram síðast voru þær aðeins léleg eftirmynd almennra stjórnmálaumræðna. Ég býst ekki við að það hafi neitt bætt til um skipun þessa máls afskipti „Heimdallar“, sem kallar sig félag ungra manna, en nær allt að 35 ára aldri. Hvaða æskumenn eru þeir hv. 11. landsk. og hv. þm. Snæf., sem tróðu upp fyrir Sjálfstæðisflokkinn við umræður æskulýðsfélaganna? Eða hæstv. fjmrh. Ég held að þessir menn þurfi ekki neinn sérstakan vettvang fyrir æsku sakir. Séu sérstakar umræður hafðar fyrir æskulýðsfélögin eiga þær að vera um þeirra sérstöku mál, en ekki til þess að láta hálfgamla menn tala um almenn stjórnmál?

Þá var það held ég hv. 6. þm. Reykv., sem talaði um, að Alþfl. fengi einn dag á ári að koma fram í útvarpinu. Það er nú mín skoðun, að stjórnmálaflokkarnir ættu að geta komið meira fram hver út af fyrir sig í útvarpinu, til þess að gera ýtarlega grein fyrir stefnu sinni og starfsemi. En það er ekki rétt, að Alþfl. hafi fengið sérstakan dag í því skyni, heldur eru það verkalýðssamtökin í landinu, sem 1. maí hafa til umráða að nokkru leyti, og það, sem talað er um stéttarmál verkalýðsins, er nokkuð annað en umr. um hin pólitísku dægurmál, sem uppi eru á hverjum tíma. Mér finnst, að ójöfnuðurinn keyrði úr hófi, ef verkalýðsfélögin mættu ekki hafa einn einasta dag á ári til þess að skýra frá sinni starfsemi, þegar önnur stéttarsamtök í landinu fá tíma í útvarpinu jafnvel í hverri viku, eins og til dæmis Búnaðarfélagið. 1. maí er eini dagur ársins, sem verkalýðssamtökin hafa umráð yfir að nokkru leyti.

Það, sem mér þykir að fréttaflutningi útvarpsins, er það, að mér finnst stundum innlendu fréttirnar verða ranglátar á þann hátt, að útilokað er ýmislegt, sem koma ætti fram, fremur heldur en hitt, að rangt sé sagt frá. Mér finnst útvarpið ganga of langt í því að hindra pólitíska flokka frá að skýra frá sínum málum á eigin ábyrgð. Þeir geta frá mörgu skýrt, án þess í því þurfi að felast beinn áróður.

Það er vitanlegt, að ef Alþfl. réði þessum málum, þá yrði margt öðruvísi heldur en Morgunblaðsliðið vill hafa. Það þarf ekki annað en sjá, hvernig Morgunbl. tekur þeim fréttum, sem teknar eru frá hinum nasistiska heimi; þar er eins og það hafi himin höndum tekið. Enda er það vitanlegt, að þó Sjálfstfl. kalli sig lýðræðisflokk, þá er hann ekki annað en nasistiskur flokkur í sterku sambandi við þýzka nasista, og ef hann ætti að ráða, sem auðvitað aldrei verður, mundi hann auðvitað nota útvarpið til samskonar fréttaflutnings eins og blöð flokksins nú.