02.03.1937
Neðri deild: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (1276)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Jóhann Jósefsson:

Ég býst við, að flestir hv. þm. hafi tekið eftir því, að það er farið að verða nokkuð áberandi, hvað hv. 2. þm. Reykv. notar öll möguleg tækifæri til þess að kalla aðra flokka nasistiska flokka og undirstrika það, að andstæðingar hans séu yfirleitt einræðissinnaðir. Þetta vekur grun um, að hv. þm. sé nokkuð annt um að leiða athyglina frá sjálfum sér, enda er það ekkert undarlegt, því samkv. lundarfari sínu og skapgerð og yfirleitt allri opinberri framkomu, er áreiðanlega enginn innan þessara veggja, sem hefir í sér eins mikið af einræðisherranum eins og einmitt þessi hv. þm. Er ekki einmitt hv. 2. þm. Reykv. að skipuleggja það félag, sem hann er valdamestur í, á þann veg, að valdið færist yfir höfuð í mjög fárra manna hendur, og að því er sagt er að miklu leyti í hendur þessa hv. þm.? Það getur vel verið, að hv. þm. meini allt gott með einræði sínu yfir þessu fjölmenna verkalýðsfélagi, en það er vissara fyrir hann að tala varlega um einræðiskenndir og einræðistilhneigingar hjá öðrum flokkum, þegar það er opinbert, að hann stefnir beint í einræðisáttina með þann félagsskap, sem hann ræður mestu í.

Það hafa gengið hér miklar umr., og er sízt á sumt af því bætandi. Ég hélt satt að segja, að það þyrfti ekki að færa eins mörg rök að því opinberlega hér í d. eins og gert hefir verið, að útvarpið er hlutdrægt. En það er nú búið að því, svo að þar þarf ekki við að bæta. Það er á meðvitund allra landsmanna, að útvarpið er ákaflega hlutdrægt og sleitulaust notað í þarfir núv. stjórnarflokka.

Annars stóð ég upp vegna ræðu hæstv. fjmrh. Hann taldi frv. það, sem hér liggur fyrir, fram komið til þess að skapa tækifæri til að ræða hér um útvarpið og rekstur þess. Meðal annars viðhafði hann þau orð, að hér virtist helzt móðursýki eða eitthvert þesskonar „hysteri“ á ferðinni hjá þeim, sem tala um það, sem aflaga fer hjá útvarpinu. Ég vil í þessu sambandi beina einni fyrirspurn til hæstv. fjmrh. Það hefir verið sannað hér af einum flm. frv., án nokkurra mótmæla frá þeim, sem í hlut á, að m. a. hafi hlutdrægnin hjá tíðindamanni útvarpsins í yfirlitserindum um erlenda viðburði gengið svo langt, að hann hafi borið upp á tvær viðskiptaþjóðir okkar Íslendinga, að þeir fölsuðu staðreyndir og mundu helzt ætla sér að ráða niðurlögum viðskiptaþjóða sinna, þar á meðal Íslendinga, með viðskiptasamningum. Ég vil nú beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort hann finni enga ástæðu til að gera aths. við svona gálaus ummæli ríkisútvarpsins í garð vinveittra þjóða. Hér er um tvær þjóðir að ræða, sem taka á móti vörum frá okkur fyrir fleiri millj. króna, að miklu leyti vörutegundum, sem við getum ekki selt annarstaðar. Ef sá hæstv. ráðh., sem viðhefir þau orð, að hér sé aðeins um „hysteri“ að ræða, er þeirrar skoðunar, að þetta sé algerlega hættulaust fyrir almenning, þá lítur hann vissulega öðruvísi á það, hvernig koma eigi fram við vinveitta þjóð, heldur en yfirleitt er gert af ríkisstjórna hálfu. Ég fullyrði það, að ríkisstjórnir annara landa, t. d. hinna Norðurlandanna, hafa ólíkt betri gætur á, að blöð — svo ég tali nú ekki um útvarp —, þeirra landa séu ekki notuð á þann veg, að það stefni beint til þess að spilla fyrir góðu samkomulagi við viðskiptaþjóðirnar, heldur en hér er gert. Það er svo þýðingarmikið fyrir okkar afkomu, hvernig sambúðin er við aðrar þjóðir, að ég tel það furðulegt í hæsta máta, ef ábyrgur ráðh. hér á Íslandi telur það ekkert annað en „hysteri“ og óþarfa aðfinningar, að slíkt og þvílíkt framferði ríkisútvarpsins og manns í opinberri þjónustu er dregið hér fram í dagsljósið. Ég óska, að hæstv. ráðh. gefi skýr svör við því, hvort honum og ríkisstj. þykir þetta viðeigandi framferði, og í öðru lagi, hvort hann álítur það heppilegt fyrir þjóðina.