04.03.1937
Neðri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (1281)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Jóhann Jósefsson:

Ég lagði tvær spurningar fyrir hæstv. fjmrh. við fyrri hluta þessarar umr., að gefnu tilefni vegna ummæla hans um þær ástæður, sem lægju fyrir flutningi þessa frv., og af því upplýst hafði verið, að tíðindamaður útvarpsins hefði yfirleitt í fyrirlestrum sínum farið niðrandi orðum um tvær af viðskiptaþjóðum okkar Íslendinga. Ég spurði hæstv. fjmrh., hvort hann liti svo á, að þetta væri viðeigandi, og í öðru lagi, hvort hann teldi það heppilegt. Hvorugri þessari spurningu hefir ráðh. svarað beinlínis, en af orðum hans mátti samt ráða það, að hann — og þá líklega hæstv. stj. í heild — væri ófús á að taka ábyrgð á svona ummælum, því hann sagði, að þau væru vitaskuld á ábyrgð þess manns, er segði þau, — í þessu tilfelli tíðindamanns útvarpsins. Nú er tíðindamaður ríkisútvarpsins fastur starfsmaður hjá þessari stofnun, og mér þykir því illa farið, að þegar hæstv. ráðh. er spurður um álit hans á þessu atviki, sem sé að fastur starfsmaður við opinbera stofnun fer í yfirlitsskýrslu um heimsviðburði niðrandi orðum um tvær vinveittar, mikilsverðar viðskiptaþjóðir okkar, þá skuli hann taka þannig í það, að vísa aðeins til ábyrgðar þess manns, er ummælin viðhafði. Þessi ummæli voru ekki aðeins um þessar þjóðir almennt, heldur var í þeim einnig, eftir því sem frá hefir verið skýrt, vikið að viðskiptum þessara þjóða við okkur Íslendinga. Sá tími nálgast nú óðum, að við eigum sjálfir að taka öll utanríkismál okkar í eigin hendur, og mér finnst það heldur óefnilegur undirbúningur af okkar hálfu, ef tíðindamaður ríkisútvarpsins notar aðstöðu sína til þess að óvirða þær af viðskiptaþjóðum okkar, sem ekki eru af sama sauðahúsi og hann sjálfur í pólitík. Og þó það sé leitt, að slíkt komi fyrir af hálfu manns í opinberri stöðu, þá tekur þó út yfir, ef ríkisstj. hefir ekki betur opin augu fyrir, hvað slíkt er óviðeigandi og hvað það getur verið óheppilegt fyrir þjóðina, heldur en fram kemur af svari hæstv. ráðh., er hann vísar einvörðungu til þess manns, sem þetta gerði og vitaskuld getur enga ábyrgð tekið á framkomu sinni eða afleiðingum hennar. Ég býst ekki við, að hæstv. ráðherra mundi vilja verða þess valdandi, að starfsmaður ríkisútvarpsins færi með þau ummæli í garð viðskiptaþjóða okkar, að þær mættu firtast af þeim á þann veg, að það ylli okkur óþægindum á viðskiptasviðinu. Ég bið því hæstv. ráðh. að athuga það, að ef hann ekki með því að svara opinberlega fyrirspurn á þann hátt, sem hann nú gerði, með því að vísa aðeins til ábyrgðar þess manns, sem hin óviðeigandi ummæli viðhafði, beinlínis ýtir undir, að slík óþægileg atvik endurtaki sig, þá verður a. m. k. ekki af orðum hans dregið á neinn hátt, að hann átelji það, þó starfsmaður hins íslenzka ríkisútvarps noti aðstöðu sína, er hann á að gefa yfirlit um heimsviðburðina, til þess að fara óviðeigandi og meiðandi orðum um viðskiptaþjóðir Íslendinga, og spilli þar með sambúð þessara viðskiptaþjóða við okkar þjóð. Ég hefði kosið, að hæstv. ráðh. svaraði þessu á annan veg, að hann léti í ljós óánægju sína yfir því, að slík atvik, sem hér um ræðir, skuli koma fyrir. Það vildi nú svo einkennilega til, að þessi ummæli frá hinu íslenzka ríkisútvarpi, eða föstum starfsmanni þess, í garð Þjóðverja sérstaklega, komu hér fram hér um bil á sama tíma og milli hinna Norðurlandaþjóðanna og Þjóðverja fóru sérstök vinarorð í sambandi við viðskiptamál þessara þjóða. Ég hefi í höndum útlend blöð, sem skýra orðrétt frá, hvað fjmrh. Dana lét frá sér fara í garð Þjóðverja snertandi viðskipti sinnar þjóðar við þá, og einnig hvað ráðandi menn hinna Norðurlandaþjóðanna létu frá sér fara um viðskipti sinna þjóða við Þjóðverja um þetta leyti. Íslands er þar að engu getið, en í þessum umr. hefir verið bent á, að það var á allt annan hátt talað um viðskipti Íslendinga og Þjóðverja af hálfu íslenzka ríkisútvarpsins um þetta leyti heldur en fram kemur í þessum útlendu blöðum, að gert hefir verið af hálfu hinna Norðurlandaþjóðanna.

Ég gæti bent á fleiri ummæli, sem fallið hafa hjá þessum sama tíðindamanni útvarpsins, ákaflega hlutdræg í garð Þjóðverja. En ég ætla ekki að fjölyrða um það, því mér finnst þetta atriði, sem hér hefir verið dregið fram, nægja til þess að sýna, hversu langt það getur gengið, ef tíðindamaður ríkisútvarpsins eiginlega gleymir alveg af flokksákafa sínum, hvaða ummæli eru viðeigandi og heppileg, þegar hann talar um aðrar þjóðir, og hver ekki. Þegar slíkt og þvílíkt kemur fyrir eins og það, sem hér var skýrt frá og ég hefi nú minnzt nokkuð á, þá virðist manni tíðindamaðurinn gleyma því í raun og veru, að hann er ekki þarna settur til þess að boða sérstaka stjórnmálastefnu, heldur til þess að skýra hlutlaust frá því, sem gerist í heiminum.

Ég vil svo að síðustu endurtaka það og leggja áherzlu á, að ef styrkur okkar Íslendinga í viðskiptum við aðrar þjóðir er ekki fólginn í því, að við komum prúðmannlega fram í þeirra garð í ræðu og riti, þá er hann áreiðanlega ekki fólginn í því, að við tölum illa um þær, sendum þeim tóninn í sambandi við þær þjóðmálastefnur, sem uppi eru á hverjum tíma. Það, sem okkur ber að hafa hugfast í þessu sambandi, er það, að gæta allrar varúðar og óhlutdrægni í allri framkomu okkar gagnvart vinsamlegum viðskiptaþjóðum, því að það getur aldrei orðið okkur nema blábert tap að fara gálausum orðum um þær, því að eins og kunnugt er, grundvallast viðskiptin afarmikið á vinsamlegri sambúð þjóðanna. Og beri út af því, að sambúð þjóðanna sé vinsamleg, er afarerfitt að halda uppi viðskiptum á milli þeirra, a. m. k. á heilbrigðum grundvelli. Á þetta atriði virðast frændþjóðir okkar, Norðurlandaþjóðirnar, líka leggja mikla áherzlu, því að þær kosta mjög kapps um að halda sem allra vinsamlegustu samkomulagi við viðskiptaþjóðir sínar. Um það sem margt annað ættum við því að taka okkur þær til fyrirmyndar.