04.03.1937
Neðri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (1282)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég hefi lítinn þátt tekið í þessum umr. til þessa, enda virðist mér, að þær hafi snúizt allmjög á annan veg en frv. gefur tilefni til.

Meginefni frv. er tvennskonar. Fyrst það, að fréttaflutningurinn, sem nú heyrir undir eftirlit útvarpsstjóra, sé lagður undir útvarpsráð. Í öðru lagi er farið fram á, að í útvarpsráðið skuli fjórir menn kosnir hlutbundnum kosningum af útvarpsnotendum, auk þeirra þriggja, sem Alþingi kýs. Með þessu á að svipta ráðherra valdi til þess að skipa einn mann í ráðið, eins og nú er ákveðið í lögum. Rökstuðningur fyrir þessari breytingu er sá, að fréttaflutningurinn í útvarpinu sé svo hlutdrægur, að nauðsyn beri til að breyta útvarpslögunum á þennan veg. En svo skeður það undarlega undir umr. málsins, að aðaládeilumennirnir hverfa frá því, að nokkuð verulegt sé við fréttaflutninginn að athuga, heldur halda þeir því fram, að nokkurrar hlutdrægni hafi gætt í ýmsum yfirlitserindum, sem flutt hafa verið í útvarpið. Og einn hv. þm., þm. V.-Sk., gekk meira að segja svo langt, að hann taldi fréttaflutninginn hafa batnað nú síðari árin, — sennilega síðan að núverandi atvmrh. tók við yfirstjórn útvarpsins. Ég þakka hvað mig snertir.

Af allri framkomu hv. stjórnarandstæðinga má því fullkomlega sjá, að tilgangurinn með frv. hefir ekki verið neinn annar en sá, að reyna að fá tækifæri til þess að vekja andúð gegn útvarpinu. Fréttaflutningurinn aðeins hafður sem átylla, sem gleggst má og sjá á því, hversu öll blöð keppast um að fá fréttir útvarpsins. Já, meira að segja svo mjög, að sum þeirra gleyma að geta um, hvaðan þær séu, eins og bent hefir verið á undir þessum umr.

Eitt af því, sem bent hefir verið á sem dæmi um hlutdrægan fréttaflutning útvarpsins, er það, að ekki hafi verið getið um bruggið í svínastíu alþýðubrauðgerðarinnar. Ég hefi nú kynnt mér, hvernig á þessu stendur. Þegar birtar eru fregnir um lögreglumál, ræður lögreglustjóri, hvort fregnir skuli birtar, tekur þær jafnan til sjálfur, en nú mun hann ekki hafa sent til birtingar fréttina um þetta svínastíubrugg, sem hv. þm. V.-Sk. var að kvarta um, að ekki hefði verið birt. Má vera, að það megi telja vangá af honum, en um það er ekki hægt að saka útvarpið. Annars minnir mig, að ég læsi í einu dagblaði bæjarins, sem ekki hefir til þessa verið talið of velviljað alþýðubrauðgerðinni, að í svínastíunni hefði aðeins fundizt einn brúsi, sem líkur væru fyrir, að brugg hefði verið í. Getur það því verið af skiljanlegum ástæðum, að ekki hafi þótt ástæða til þess að láta geta um þetta svínastíumál í útvarpinu.

Þá breiddi einn hv. þm. sig mjög út yfir það, að hinn 1. maí undanfarið hefði Alþfl. fengið útvarpið til sinna nota. En þetta er ekki rétt. Sannleikurinn er sá, að verkalýðsfélögin, sem staðið hafa fyrir hátíðahöldum þennan dag, hafa fengið aðgang að útvarpinu með sín hugðarefni dálitla stund að kvöldinu. Að leyfa ekki slíkt hefði verið langt fyrir neðan alla sanngirni og fjarri því, sem tíðkast hjá nágrannaþjóðum okkar. Ég hefi hér fyrir mér t. d. norsk, dönsk og sænsk blöð, frá 1. maí síðastl., sem öll geta þess, að verkalýðsfélögin, sem stóðu að hátíðahöldum dagsins, hafi fengið rúm í útvarpinu til þess að láta tala um sín hugðarefni. Það er meira að segja tilgreint, hverjir hafi talað í hverju landi og um hvað. M. ö. o., útvörp allra Norðurlandanna stóðu verkalýðsfélögunum opin þennan dag, til þess að ræða þar áhugamál sín. Það hefði því verið hreint og beint til skammar, ef farið hefði verið að neita íslenzku verkalýðsfélögunum um að komast í útvarpið þennan dag. Það má og gjarnan minna á í þessu sambandi, að innan skamms á að leyfa fulltrúum frá sambandi iðnfélaganna að tala hér í útvarpið um sín áhugamál. — Nei, allt þetta skraf stjórnarandstæðinganna um hlutleysisbrot útvarpsins er ekkert annað en bending um það, hvernig þeir myndu sjálfir nota útvarpið, ef þeir réðu yfir því.

Þá var hv. 6. þm. Reykv. mjög hneykslaður yfir því, að einhverjum kommúnista hefði verið leyft að tala í útvarpið um afstöðu kommúnistaflokksins til trúmálanna. Mér virðist þetta alveg sama og ef Sjálfstfl. hefði verið leyft að tala í útvarpið um t. d. afstöðu sína til mannúðarmálanna yfirleitt. Ég býst ekki við, að hv. þm. hefði fundizt það hneykslanlegt.

Vegna þeirra fullyrðinga, sem stjórnarandstæðingar hafa haft hér um það, að búið væri að gera útvarpið að flokksútvarpi fyrir stjórnarflokkana, vil ég leyfa mér að lesa bréf, sem hv. 11. landsk. var sent frá útvarpinu með það fyrir augum, að hann læsi það upp, en hann hefir ekki fundið ástæðu til að gera það. Í bréfi þessu segir m. a., að þann 16. febr. þ. á. hafi eftirfarandi klausa verið birt í fréttum útvarpsins: „Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, varð 10 ára í dag. — Félagið minnist afmælisins með félagsfundi í kvöld, útbreiðslufundi á fimmtudaginn og samsæti á hótel Borg á laugardagskvöldið. Þann dag kemur út afmælisrit félagsins, sem hefir að geyma sögu þess frá byrjun og greinar eftir ýmsa unga sjálfstæðismenn. Verður ritsins getið síðar.“ Þannig hljóðar nú þetta plagg, sem ég fæ ekki betur séð en hefði öllu frekar heyrt undir auglýsingar en fréttir. Eftir að búið er að auglýsa þessa veglegu bók, kemur svo í fréttum útvarpsins 20. s. m. eftirfarandi: „Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, minntist 10 ára afmælis síns meðal annars með Afmælisriti, sem út kom í dag. Ritið hefst með minningarorðum um Jón heitinn Þorláksson, fyrrv. ráðherra, er var kjörinn heiðursfélagi Heimdallar 20. febrúar 1935, en því næst taka við 20 stuttar ritgerðir eftir ýmsa þá menn, er verið hafa forvígismenn félagsins á undanförnum 10 árum. — Aðalritgerðin er saga Heimdallar frá byrjun. Var hann stofnaður 16. febrúar 1927 og er talinn fyrsta stjórnmálafélag ungra manna í landinu. Stofnendur voru 37 og fyrsti formaður Pétur Hafstein, sem nú er dáinn.

Auk stjórnmálanna, sem hafa verið aðalviðfangsefni Heimdallar frá byrjun, hefir félagið við og við gengizt fyrir mannfagnaði, einkum á fullveldisdaginn og um áramót. Félagið hefir og gengizt fyrir námskeiðum í mælskulist, undir leiðsögn kennara eða leiðbeinanda, og nú nýlega stofnað sérstakan karlakór.

Afmælisblaðið er 100 blaðsíður í 8 blaða broti, með fjölda mynda af forystumönnum félagsins og hið vandaðasta að öllum búningi.

Heimdallur telur nú 1000 félaga. Stjórn Heimdallar skipa nú: Gunnar Thoroddsen, Gunnar Björgvinsson, Ólafur Sigurðsson, Ragnar Lárusson og Sveinn Zoëga. Í kvöld hefir félagið afmælisfagnað að hótel Borg.“

Ég verð nú að segja, að það sé fullkomlega undarlegt athæfi af flokksútvarpi að flytja slíkar fréttir sem þessar fyrir andstöðuflokk sinn. En þeim mun undarlegra finnst mér, að þeir sömu menn, sem þessar fréttir eru fluttar fyrir, skuli koma emjandi og skrækjandi til Alþingis og heimta, að verkalýðsfélögunum skuli bannað að fá aðgang að útvarpinu eina kvöldstund, til þess að skýra fyrir alþjóð manna hugðarefni sín.

Þá hefir hv. þm. Vestm. fundið ástæðu til þess að flytja hér langt spjall og brýna fyrir starfsfólki útvarpsins og ríkisstjórninni að gæta alls velsæmis gagnvart öðrum þjóðum. Ég get verið hv. þm. sammála um það, að gæta beri allrar kurteisi í sambúðinni við aðrar þjóðir, en hvort hann hefir haft sérstaka ástæðu til þess að áminna um þetta nú, er annað mál. Tilefnið til þessara áminninga hv. þm. mun vera það, að Sigurður Einarsson hefir átt að viðhafa einhver óviðeigandi orð um eina viðskiptaþjóð okkar í erindi, sem hann flutti í vetur. Ég hefi nú spurt Sigurð um þetta, en hann neitar mjög ákveðið að hafa sagt þau orð, sem eftir honum eru höfð og úlfaþyturinn er gerður út af. Annars verður erindi þetta prentað, og þá gefst tækifæri til þess að ganga alveg úr skugga um sannleiksgildi þessara ásakana á Sigurð. — Um yfirlitserindin er það annars að segja, að þau eru alveg óviðkomandi fréttaflutningi útvarpsins. Þau eru flutt á ábyrgð þeirra, sem flytja.

Hvað snertir umvöndun hv. þm. Vestm. fyrir þjóð þá eða þjóðir, sem hann hefir nefnt, verð ég að segja það, að mér kemur hún mjög undarlega fyrir. Ég veit nfl. ekki betur en að þær hafi hér sína umboðsmenn, sem ræða nær daglega við stjórnina um verzlunarmál o. fl. fyrir þeirra hönd, og veit ég ekki til, að þeir hafi talið sig hafa undan neinu að kvarta í framkomu okkar gagnvart þeim.

Þar sem það verður nú, samkv. framansögðu, að teljast fullvíst, að þessi umdeildu ummæli hafi aldrei fallið hjá S. E., eða neinum öðrum, þá verður það að teljast mjög vafasamur þegnskapur gagnvart þjóð sinni að breiða út um samlanda sína slík ummæli sem þessi, ummæli, sem talin eru geta varðað þjóðina miklu. (GSv: Ég fullyrði, að S. E. sagði þetta). Ja, það sannast á sínum tíma.

Ég held svo, að það hafi ekki verið fleira, sem ég tel ástæðu til þess að taka fram undir þessum umr. Ég held, að ég hafi drepið á allt, sem máli skiptir.