04.03.1937
Neðri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (1283)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Sigurðar Kristjánsson:

Ég verð víst að taka að mér að svara hæstv. atvmrh. nokkru fyrir hönd hv. 4. þm. Reykv., því mér skildist svo, að því, sem ráðh. talaði til hans, væri stefnt til mín. Ég býst við, að hæstv. ráðh. hafi hér misgripið sig á tölum, sem stafar sjálfsagt af því, sem berlega kom fram, er hann flutti sína ræðu, að honum var nokkuð órótt. Það skakkar nú ekki nema um þriðjung á tölunum, en það munaði aftur miklu meiru á því, sem hann sagði, og sannleikanum. Hæstv. ráðh. gerði aths. við það, sem ég sagði um, að blað hans flokks hefði brotið reglur útvarpsins um notkun frétta frá því með þeim afleiðingum, að stöðva varð birtingu útvarpsfrétta í blaðinu. Ég gat þess, að vel gæti slíkt komið fyrir eitt blað aðeins í ógáti. Í mínum orðum fólst engin ádeila, enda hóf ég ekki þá deilu, en ég gat um þetta sem svar við því, að einn hv. þm., flokksmaður hæstv. ráðh., sakaði Morgunbl. um slíkt með nokkuð óviðurkvæmilegum orðum, hafandi á bak við sig blað, sem féll í bann gagnvart útvarpsfréttum. Það eina, sem Morgunbl. hafði gert, og umræddur hv. þm. réðist á það fyrir, var, að blaðið blandaði fréttum frá útvarpinu saman við fréttir frá sínum fréttariturum í þeim tilgangi að gera fréttirnar aðgengilegri fyrir lesendurna, og gat heimildanna. Ritstjórar Morgunbl. hafa tjáð mér, að útvarpið krefðist þess nú, að fréttir þess væru birtar út af fyrir sig, og held ég, að um það sé enginn ágreiningur. Það er því miður gáfuleg ályktun hjá hæstv. ráðh., að blöðin steli fréttum útvarpsins af því þeim þyki þær svo góðar, því það hefir ekki sannazt á neitt annað blað en Alþýðubl. að hafa stolið fréttum útvarpsins.

Þá sagði hæstv. ráðh., að frv. væri flutt til þess að vekja tortryggni, sem ekki hefði verið til áður. Það er náttúrlega ekkert til, sem getur hindrað það, að slíkar endemis fjarstæður séu sagðar úr ráðherrastóli, en hér er fjöldi manna staddur í þingsölunum fyrir utan mikinn hluta þm., sem er sáróánægður með útvarpið og telur það pólitískt hlutdrægt í fréttaflutningi, enda veit hæstv. ráðh. það eins vel og ég, að kvartanir eru tíðar utan af landi um það, að útvarpið sé pólitískt ósvífið og ósæmilegt í fréttaflutningi.

Það sást á ýmsu, að hæstv. ráðh. var því óviðbúinn að herma rétt það, sem ég hafði sagt. Hann sagði, að ég hefði sagt, að útvarpið væri flokksútvarp. Ég sagði, að útvarpið væri flokksútvarp öðrum þræði, og það er nokkuð annað en að segja, að það sé afdráttarlaust flokksútvarp. Ég hygg, að hæstv. ráðh. hafi skrifað upp eftir mér þessi orð, svo hann hefði átt að geta farið rétt með þau, og ég færði fram dæmi, sem sönnuðu áþreifanlega, að það, sem ég sagði, var rétt.

Þá sagði hann, að ég hefði sagt, að Alþfl. fengi útvarpið heilan dag á ári í sína þjónustu, sem sé 1. maí. Þessu mótmælti hann. Það er rangt, að ég hafi sagt, að flokkurinn fengi útvarpið heilan dag, heldur sagði ég hluta úr degi, og án þess að aðrir flokkar fengju að koma þar nærri. Hann mótmælti því, að Alþfl. fengi útvarpið, heldur væru það verkalýðsfélögin. Það er næsta skoplegt að sjá, hvernig þessi persóna blæs sig út af rosta yfir því, sem hann sjálfur veit, að er rangt. Það gengur blygðunarleysi næst að halda því fram, að þessi samtök, Alþýðusambandið, sem hefir útvarpið til afnota 1. maí, séu ópólitísk, hafandi í höndum lög þess félagsskapar, sem sýna það og sanna, að félagsskapurinn er strangpólitískur. Mér dettur í hug í þessu sambandi atvik, sem fyrir hefir komið við útvarpið nýlega. Hér í Reykjavík er staddur viðkunnur maður, landfrægt skáld. Einn af þeim mönnum, sem mest hafa lagt til þjóðmálanna, og sá maður úr bændastétt landsins, sem fyrr og síðar einna mest hefir lagt til bókmenntanna. Þessi maður hefir ekkert á móti því fremur en margir þeir, sem eitthvað nokkuð hafa til brunns að bera andlega, að láta til sín heyra í útvarpinu, og hann gerðist svo djarfur að vekja máls á þessu við útvarpið og taldi nokkra ástæðu til, að hann fengi þar áheyrn til móts við meðalmennina og minni en það, sem við fáum svo títt að hlusta á í útvarpinu. En þegar sú sama stofnun, útvarpsráð, sem þessum mönnum veitir slíkt frjálsræði í útvarpinu sem raun er á, fer að skammta skáldinu frá Sandi, þá gefur það honum kost á 15 mínútum til þess að lesa upp kvæði, — erindi má hann ekki flytja þar. Skáldið fór fram á að flytja 3 erindi. Um það var ekki að tala, þó ritskoðun væri boðin, sem ekki er þó beitt við aðra. En útvarpið færði sig meira upp á skaftið við þennan mann. Ef hann fengi þessar 15 mínútur til að lesa upp kvæði, þá þyrfti fyrst að lesa kvæðin yfir. Ég býst við, að Sigurði Einarssyni, eða einhverjum slíkum manni, hafi átt að fela að lesa kvæðin yfir, og sennilega að yrkja þau upp, eða kannske hæstv. atvmrh. hafi ætlað að gera það. Þetta er það hlutlausa útvarp, sem hæstv. ráðh. segir, að engum manni detti í hug að tortryggja fyrr en þessir glæframenn, sem að frv. standa, flytji frv. til þess að vekja tortryggni gegn útvarpinu. Ég get meira að segja bent á það, að hæstv. atvmrh. sjálfur hefir gróflega misnotað pólitískt hlutleysi útvarpsins á þeim vettvangi, þar sem enginn var til andsvara. Ég get t. d. nefnt það, að það getur haft óþægileg áhrif, þegar hæstv. ráðh. er að fræða menn gegnum útvarpið um fiskverð í Suðurlöndum og fer skakkt með á þann hátt, sem gerir fullyrðingar hans flokksmanna um það, að fisksalarnir steli alltaf af sjómönnunum, sennilegri en ella. Ég býst við, að hæstv. ráðh. hafi orðið þetta á óviljandi, en slíkt getur haft sín áhrif í útvarpi, ekki sízt á þá menn, sem haldnir eru pólitískri einsýni.