04.03.1937
Neðri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (1284)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég lít nú raunar svo á, að síðasta ræða hæstv. atvmrh. sé í rauninni næg umsögn til þess að koma frv. fyrir kattarnef. En út af ræðu hv. þm. Vestm. vildi ég þó segja nokkur orð, og úr því ég tek til máls, einnig víkja nokkrum orðum að hv. 11. landsk. í tilefni af ræðu hans, er átti að vera svar við ræðu minni hér um daginn.

Hann sagði, að það hefði átt að afsanna hlutdrægan fréttaflutning útvarpsins með því að halda því fram, að Mbl. væri óráðvant í fréttaflutningi. Þetta er fullkominn útúrsnúningur og því vægast sagt nokkuð hæpin rök. En það eftirtektarverðasta er, eins og greinilega hefir verið sýnt fram á, að öll þau dæmi, sem tilfærð hafa verið til þess að sýna hlutdrægni útvarpsins, hafa reynzt ástæðulaus. Þannig var og dæmi það, sem hv. þm. Vestm. kom með og bæði ég og aðrir höfum sannað, að var ástæðulaus gagnrýni. En það, sem eftirtektarverðast er og hæstv. atvmrh. benti á, er það, að ekki hefir með einu orði verið reynt að færa líkur fyrir, að fréttaflutningurinn gæti orðið betri við þá breytingu að komast undir umsjón útvarpsráðs. Eða gera þessir menn sér von um það, að sú eina breyting, sem þeir leggja til, að gerð verði á kosningu útvarpsráðs, að útvarpsnotendur kjósi þann eina mann, sem ráðh. skipar nú, verði til þess, að stjórnmálaskoðanir þekkist ekki meðal fulltrúanna í útvarpsráði? Er það ekki svo, að þeir, sem kosnir eru nú; séu að meira eða minna leyti kosnir pólitískt? Ég hygg því verði vart neitað. Þess vegna álít ég, að skilyrðin fyrir því, að fréttaflutningur útvarpsins verði ópólitískur, verði minni en nú eru við þá breytingu, að setja fréttaflutninginn undir útvarpsráð, enda hefir hinu gagnstæða ekki verið haldið fram með einu orði. (ÓTh: Er fulltrúi stj. í útvarpsráði ópólitískur?). Ég geri ráð fyrir, að svo sé ekki; þess vegna álít ég betra, að fréttaflutningurinn heyri ekki undir útvarpsráð, heldur eins og nú er undir stjórn útvarpsins, því ég held því fram, að reynslan hafi sýnt, að með því er þessari starfsgrein útvarpsins, fréttaflutningnum, vel borgið, enda hefir í öllum þessum umr. ekkert dæmi komið fram, er sýni, að fréttaflutningurinn sé pólitískur. Gagnrýni hefir eingöngu verið beitt gegn útvarpserindunum, sem heyra undir útvarpsráð, sömu stofnunina, sem frv. vill láta taka við umsjón fréttastarfseminnar. Gagnrýnendurnir hafa ekkert dæmi getað fært fram til stuðnings þeirri skoðun, að fréttaflutningur útvarpsins eins og hann er sé pólitískur. Samt vilja þeir koma fréttaflutningnum undir útvarpsráð, sem þeir leggja mest kapp á að sýna, að starfi pólitískt. Kennir hér óneitanlega nokkurrar mótsagnar.

Hæstv. atvmrh. var í raun og veru búinn að gera hv. þm. Vestm. full skil, en af því þessi hv. þm. beindi fyrirspurn til mín, sem ég að vísu hefi svarað, en svo var að heyra sem það svar mitt hefði farið framhjá honum, þá skal ég endurtaka það. Hv. þm. spurði, hvort ég teldi ekki hættuleg fyrir okkur Íslendinga ummæli, sem Sigurður Einarsson hefði haft um erlenda viðskiptaþjóð okkar. Ég svaraði því, að í fyrsta lagi lægi ekkert fyrir, er sannaði það, að Sigurður Einarsson hefði nokkurntíma viðhaft téð ummæli í útvarpinu. Í öðru lagi, þó ummælin hefðu fallið, þá væru þau hvorki á ábyrgð útvarpsins eða ríkisstj., heldur á ábyrgð Sigurðar Einarssonar sjálfs. Ég get ekki hugsað mér, að hv. þm. álíti, að ríkisstj. geti borið ábyrgð á öllu því, sem sagt er í ræðu og riti, hvar sem er, þó það snerti eitthvað þær þjóðir, sem við höfum viðskipti við. Þetta vil ég vona, að hv. þm. Vestm. skilji nú, þó hann skildi það ekki áðan.