04.03.1937
Neðri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (1287)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Sigurður Kristjánsson:

Ég mótmæli því, sem hæstv. atvmrh. var að hafa eftir mér. Hann sagði, að ég hefði sagt, að hann hefði af ásettu ráði farið rangt með fiskverðið, til þess að styrkja þann orðróm, að fisksölustjórnin stæli af fiskverðinu. Ég ætla, að þingskrifararnir sanni það á sínum tíma, að það er langt frá, að ég hafi sagt þetta. Ég sagði, að sjálfsagt hefði hann farið óafvitandi skakkt með, en orð hans hefðu orðið til þess að styrkja þann rógburð, sem flokksblað hæstv. ráðh. hefði haft um fisksöluna.

En það sannast á hæstv. ráðh., að sjaldan launa kálfar ofeldið. Af því að ég bar hann undan sökum, þá launar hann það á þennan hátt. Sannleikurinn er sá, að það hefir sjálfsagt snert hæstv. ráðh. þannig, að hann væri fundinn sekur, og ég get bætt því við, að hann er fundinn sekur fyrir þetta erindi. Ég hlustaði á það. Hann flutti það í tilefni af því, að hans flokkur og sambandsflokkur hans voru búnir að koma nýrri skipun eftir sínu höfði á fisksöluna. Ræða hans var öll frá upphafi til enda mjög flokkslituð áróðursræða til þess að bera í bætifláka fyrir þetta skipulag og láta það sjást í hagstæðara ljósi heldur en það skipulag, sem sjálfstæðismenn vilja á þessum málum hafa.

Hitt skal ég endurtaka, að ég hygg, að hæstv. ráðh. hafi óafvitandi farið rangt með þessar tölur. En þær urðu til þess, að menn hneigðust til þess að trúa þeim dylgjum, sem blað hæstv. ráðh. flutti um þá, sem fóru með fisksöluna. En ef hæstv. ráðh. treystir sér til þess að birta þetta erindi, þá mun það sannast, að það var pólitískur áróður, sem ég varð ekki var við, að neinn ætti kost á að svara, og sama bragð virtist mér að ræðu hans eftir áramótin nú. Það getur verið, að það sé ósjálfrátt, af því að ákveðnum flokksmanni verður það oft á að láta það, sem hann segir, sjást í sem hagstæðustu ljósi fyrir sinn flokk. En ég held, að það hafi verið misráðið af hæstv. ráðh. að fara að tala um þetta, einkum af því, að hann fór með ósannindi.

Ef hann vill afsanna þetta, á hann að birta ræðuna. Hafi hann ekki kjark til þess, þá finnur hann sig sekan.