04.03.1937
Neðri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (1289)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Flm. (Thor Thors):

Þessar umr. eru orðnar nokkuð langar. Þær hafa snúizt í það að verða nokkurskonar eldhúsumræður yfir starfsemi útvarpsins. Enda þótt svo væri ekki til ætlazt af hálfu okkar flm., verð ég samt að telja vel farið, að þessar ýmsu raddir um starfsemi útvarpsins hafi komið fram hér á þingi.

Það var nauðsynlegt eftir að hæstv. kennslumála-, atvinnumála- og flugmálaráðh. hafði látið þau ummæli falla, að hann hefði aldrei heyrt neinar óánægjuraddir út af starfsemi útvarpsins. Ég verð að segja, að þessi hæstv. ráðh. virðist hafa lítil mök við þjóð sína, ef það hefir getað farið framhjá honum, að óánægju gætti hjá miklum þorra landsmanna yfir starfsemi útvarpsins. Einmitt vegna þessarar fávizku hæstv. ráðh. var það nauðsynlegt, að þessar umr. færu fram. Hæstv. kennslumálaráðh. ætti að vera það kunnara en öðrum, hvern hug mikill hluti þjóðarinnar ber til útvarpsins og starfsemi þess í einstökum atriðum. Annars ætti hæstv. atvmrh. að vera það kunnugt, að á Alþingi í fyrra kom fram óánægja út af þeim fréttaflutningi frá Alþingi, sem fram fór í útvarpinu. Þá var þetta mál rætt á þingi, og meiri hl. Sþ. samþ., að nauðsynlegt væri að breyta til með þingfréttaflutninginn. Þar stóðu saman sjálfstæðismenn og flokksmenn hæstv. atvmrh., en nú er það mál leiðrétt, sem betur fer.

Það þarf ekki að endurtaka þær ýmsu ásakanir, sem fram hafa komið um hlutdrægni útvarpsins í einstökum atriðum. Enginn úr stjórnarliðinu hefir þó treyst sér til að andmæla því, að erindi Ragnars Kvarans um kosningarnar á Norðurlöndum, er flutt voru sem fræðsluerindi, hafi verið mjög ákveðin áróðurserindi um sósíalistastefnuna. Það var langt frá því, að þar væri um hlutlausan fréttaburð eða fræðslu að ræða, heldur voru það hálfpólitísk áróðurserindi, sem svo voru launuð af „hlutlausa“ íslenzka ríkisútvarpinu. Slík erindi eiga aðeins heima í útvarpinu á þeim stundum, er andstæðingarnir hafa rétt til andsvara.

Það hefir lítið verið vikið að því, sem fram hefir komið í hinum — mér liggur við að segja pólitíska snakktíma Framsfl., sem nefndur er: um daginn og veginn. Þess hefir verið getið sem dæmis um hlutleysi eða gætni, að þessi fréttamaður hafi farið með ummæli bæði úr greinum Jónasar Jónssonar og Ólafs Thors um síðustu áramót. En hann var víst sjálfráður um, hvaða ummæli hann valdi; a. m. k. valdi hann ekki þau ummæli úr grein Ólafs Thors, sem mestu máli skiptu. Í þeim fréttaflutningi var hallað á Sjálfstfl. bæði hvað snerti val á efni og eins hvernig efnið var flutt. Það vita allir, að fyllstu hlutdrægni má við koma í útvarpinu einmitt með því, hvernig efni er flutt. Það er eins þýðingarmikill þáttur í flutningi mála í útvarpinu, hvernig flutt er eins og hvað flutt er.

Ég ætla ekki að fara út í almennar umr. um þetta mál, en ég vil aðeins láta í ljós undrun mína yfir því, að stjórnarliðar skuli berja sér á brjóst og verða alveg hissa á því, að rætt sé um pólitík í sambandi við útvarpið.

Ég vil leyfa mér að minna á, að eitt af fyrstu verkum hæstv. ríkisstj. var að setja ný lög um útvarpsrekstur ríkisins. Þau lög voru eingöngu sett í pólitískum tilgangi. Þau fóru fram á stórfellda breytingu á skipun útvarpsráðs frá því, sem verið hafði, í þeim einum tilgangi að skapa núv. stjórnarflokkum öruggan meiri hl. í útvarpsráði.

Það var á vitorði allra manna, enda greinilega haldið fram á þingi af stjórnarandstæðingum, að Helgi Hjörvar væri orðinn þyrnir í augum stjórnarliða og honum þyrfti að koma burt frá formennsku. Þess vegna var frv. fram borið um það að skapa stjórnarfl. öruggan meiri hl. í útvarpsráði. Ef hæstv. stjórnarliðar vilja sakast um, að nú sé rætt um pólitík í sambandi við útvarpið, þá verða þeir fyrst að líta í sinn eiginn barm, og þeir munu ekki komast hjá að viðurkenna, að það voru þeir, sem áttu upptökin að því, að pólitík komst á eins hátt stig í útvarpinu eins og nú er orðið.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir og báðir þeir ráðh., sem talað hafa, hafa andmælt, hefir í raun og veru þrennt í sér fólgið. Í fyrsta lagi, að útvarpsráðið skuli ráða yfir þeim mönnum, sem fræðslu- og fréttastarfsemi útvarpsins hafa með höndum. Við teljum, að þegar búið er að breyta útvarpsráði samkv. þessu frv., og útvarpsnotendur — þ. e. þeir, sem halda útvarpinu uppi með afnotagjöldum af tækjum sínum og eiga mest við útvarpið að búa — hafa fengið meiri hl. í útvarpsráði, þá sé eðlilegt, að valdsvið útvarpsráðs sé aukið. Þá verður svo komið, að umboðsmenn útvarpsnotenda í landinu ráða mestu um rekstur útvarpsins og útvarpsnotendur eiga greiðan aðgang að meiri hl. útvarpsráðs.

Önnur breytingin er sú, eins og ég vék að áðan, að útvarpsnotendur kjósa meiri hl. í útvarpsráð. Þriðja breytingin er í því fólgin að skerpa valdsvið útvarpsráðs frá því, sem nú er, og kveða greinilega á um valdatakmörkin milli útvarpsstjóra og útvarpsráðs. Þetta atriði er í raun og veru ekki nýtt; það var ágreiningsmál á Alþingi 1934. Þá leituðum við hv. 8. landsk. umsagnar þáv. útvarpsráðs um þetta mál, og höfðum við einnig umsögn Sambands íslenzkra útvarpsnotenda. Um það atriði, að skerpa valdsvið útvarpsráðs, var allt útvarpsráðið sammála og sendi þinginu sína umsögn. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Útvarpsráðið er á einu máli um það, að í greininni komi alls ekki nógu skýrt fram, hvernig valdsviðið skiptist eða hvar ábyrgðin skuli raunverulega vera um starfsemi útvarpsins yfirleitt.“

Þetta var sú grein, sem fjallaði um starfsemi útvarpsins, en hún var samþ. óbreytt. Allt útvarpsráðið var þó sammála um, að skýrt yrði ákveðið um þetta. — Undir þetta skrifuðu þáv. meðlimir útvarpsráðs, þeir Helgi Hjörvar, Friðrik Hallgrímsson, Bjarni Benediktsson, Guðjón Guðjónsson og Pálmi Hannesson.

Um hitt atriðið, kosningu í útvarpsráðið, sagði Samband íslenzkra útvarpsnotenda, með leyfi hæstv. forseta:

„En minna geta rekendur stofnunarinnar, útvarpsnotendur, ekki gert sér að góðu en að hafa meiri hl. í útvarpsráði, svo að þeir hafi fullan ákvörðunarrétt um, hvernig fé því, er þeir einir leggja fram, er varið.“

Stjórn sambandsins, sem í eru menn af öllum flokkum, var einnig einhuga um að heimta þennan rétt. Mér þykir það því koma úr hörðustu átt, að þeir, sem sérstaklega telja sig verjendur lýðræðisins í orði, eins og hv. 2. þm. Reykv., skuli geta verið á móti því, að útvarpsnotendum sé veitt það lýðræði að mega ráða yfir þeirri stofnun, sem þeir bera uppi.

Stjórnarliðið hefir mjög haft það á orði, að hér gætti móðursýki hjá okkur sjálfstæðismönnum. Ég hefi ekki séð eða heyrt móðursýki koma fram í þessum umr., en ég hefi orðið þess var, að hér gætti að nokkru í málflutningi stjórnarliða samskonar tilfinninga og hjá móðurinni, þegar hún er að reyna að verja óknytti barnsins síns. Það hefir fallið Salómonsdómur um það, hverjir eigi útvarpið og í hverra þjónustu það er rekið. Það ætti að vera nægilegt til þess að sýna það, að gagnrýni okkar sjálfstæðismanna hefir við rök að styðjast.

Ég skal viðurkenna, að þetta frv. er vafasamt að því leyti, hvort það nær þeim tilgangi sínum að draga verulega úr þeirri óánægju, sem ríkir í garð útvarpsins. En ég hygg, að það sé spor í rétta átt, þar sem það veitir útvarpsnotendum yfirráð yfir þeirri stofnun, sem á að vera stofnun þeirra allra í heild. Vil ég því leyfa mér að vona, að þrátt fyrir þau andmæli, sem komið hafa fram, fái þetta mál þinglega og hæfilega meðferð og nái lögfestingu.