05.04.1937
Efri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Jón Baldvinsson:

Þær breyt., sem gerðar voru á frv. í Nd., miðuðu að því, að ekki skuli vera einn einasti eyrir eftir í þessum sjóði. Það má eftir þeim breyt. engu vera óeytt af því fé, sem tekið var að láni í þessu skyni, jafnvel þó að búið sé að halda sjóðnum opnum í heilt ár og að það þurfi að ljúka við lánveitingar eftir beiðnum, sem komið hafa til sjóðsins fyrir síðustu áramót frá línuveiðaskipum. Ég er á móti því, að farið sé að veita frekari kreppulán handa vélbátaútveginum. Ég er algerlega á móti því, að farið sé að eyða í þetta meira fé en búið er. Ég þykist vita, að hæstv. atvmrh. hafi til samkomulags við sjútvn. Nd., sem kom með þessa till., gengið inn á þetta. Ég býst ekki við að koma með brtt., en ég vildi láta þetta álit í ljós, að ég vil alls ekki, að veitt verði frekar fé til lánveitinga eða styrktarlána, sem er fyrir ríkissjóð hið sama sem að kasta fé í sjóinn, því að mikill hluti þess kemur aldrei aftur. Hinsvegar vildi ég, að þessu fé yrði varið til sjávarútvegsins og lagt í fiskveiðasjóð. Teldi ég rétt, að þau skip, sem ekki hafa komið til greina um að fá lán úr fiskveiðasjóði hingað til, komi til greina um að fá lán af þessum eftirstöðvum. Það má ekki lána út á síldveiðiskip eða stærri línuveiðagufuskip úr fiskveiðasjóði eftir reglum sjóðsins, nema í samráði við ráðh. Fá slík lán hafa verið veitt og geta aldrei verið neitt að ráði úr fiskveiðasjóði, enda er starfsfé hans ekki meira en svo, að smærri mótorbátum veitir ekki af því. Ég vil því, að þessari fjárhæð, sem er á annað hundrað þús. kr., verði varið sérstaklega til að lána út á línuveiðagufuskip, og einnig til þeirra, sem vildu flytja inn skip til fiskveiða eða síldveiða, sem ekki fengjust lán til úr fiskveiðasjóði. Ég býst við, að nauðsyn sé á að flytja inn skip til síldveiða, svo að ekki skorti stærri skip til síldveiða, því að þau skip, sem fyrir hendi eru, munu varla vera nógu mörg til þess að veiða nóga síld fyrir þær síldarverksmiðjur, sem til eru og verða reistar. Mér þykir það óeðlileg tilhögun, að senda litla báta langar leiðir með síld til síldarverksmiðjanna á Siglufirði, heldur eigi að nota stærri skip til þess. Hinsvegar væri sjálfsagt heppilegt verkefni fyrir mótorbátana, sem farið hafa á síldveiðar hingað til, að reyna þá veiðiaðferð, sem nú virðist gefast vel, sem sé dragnótaveiðarnar, ef löggjöfin leyfir þær, og ég vona, að ekki líði langt þangað til. Ég hefði því viljað nota þessar eftirstöðvar til lánveitinga til þess að styrkja menn til að eignast skip eða geta haldið þeim skipum, sem menn eiga í erfiðleikum með að halda, af hinum stærri skipum, og hefi ég þar síldarútveginn sérstaklega í huga. Hitt fyndist mér sorglegt, ef ætti að verja þessum peningum til þess að borga með tapaðar og dauðar skuldir eins og átt hefir sér stað í þessum kreppulánum yfirleitt, sem eru sennilega stærsta vitleysan, sem Alþ. hefir nokkurntíma gert, að fara í svo stórfelldar kreppulánveitingar sem það hefir gert. (MG: Sjóðstjórnin ræður, hvaða lán hún veitir). Já, það er rétt. En ef slík l. eru samþ. eins og kreppulöggjöfin er, þá er þó með setningu þeirrar löggjafar gert ráð fyrir, að sjóðstjórnin fari eftir löggjöfinni. Ég teldi, að annað væri ekki forsvaranlegt en að sjóðstjórnin færi að vilja Alþ., sem eins greinilega hefir verið yfirlýstur eins og vilji Alþ. í þessu efni hefir verið.