03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (1292)

43. mál, opinber ákærandi

*Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Þetta frv. fer í fám orðum sagt fram á það, að ákæruvaldið sé tekið úr höndum dómsmrh. og fengið í hendur manni, sem stendur utan stjórnmálabaráttunnar.

Frv. þetta hefir verið borið fram tvisvar sinnum áður hér á þingi, 1934 og 1935. Í annað skiptið var það afgr. með dagskrá, en í hitt skiptið svæft í nefnd.

Eins og þessum málum er nú háttað, liggur ákæruvaldið hjá dómsmrh. En svo heit sem stjórnmálabaráttan er nú orðin og flokkadrættir miklir, fylgir slíku mikil hætta. Þessi hætta er því augljósari, þar sem sannanlegt er, að þessu valdi hefir verið misbeitt stórlega hin síðari ár.

Nú á samkv. frv. að taka þetta vald úr höndum hins pólitíska ráðh. Fyrir síðustu kosningar virtist eindrægni um þetta meðal flokkanna. Ákvæði um þetta var tekið upp í starfsskrá Alþfl., og hæstv. núv. forsrh. lýsti þá yfir hinu sama. En á næsta þingi á eftir blés vindurinn úr annari átt. Þá var áhuginn fyrir málinu dofnaður, þegar þeir höfðu sjálfir náð ákæruvaldinu í sínar hendur, til þess að beita því og misbeita eftir eigin geðþótta.

Mér þykir rétt að taka þetta fram nú og minnast um leið á mótbárur andstæðinganna gegn frv., þegar það kom fram. Hin helzta, eða jafnvel sú eina var sú, að endurskoðun réttarfarslöggjafarinnar stæði yfir og því væri ekki rétt að taka einn þátt hennar út úr, eins og frv. ætlaðist til. En sjálfir hafa þeir síðan tekið út úr einkamál í héraði og gert breytingar á hæstarétti. Þeir héldu því líka fram, að þessi endurskoðun ætti aðeins að standa yfir örskamma stund og yrði lokið fyrir árslok 1936. En þetta hefir verið með öllu vanrækt, og enn er ekki komið fram frv. um meðferð opinberra mála, sem það atriði, er hér ræðir um, fellur undir.

Því eru báðar þessar röksemdir, er andstæðingar báru fram gegn frv., fallnar burtu. Af þeim ástæðum er frv. nú borið fram á ný. Því er enn borin fram hér á þingi ákveðin krafa um tryggingu fyrir því, að opinberri málsókn sé ekki lengur misbeitt. Þetta er krafa þjóðarinnar, og hún nær fram að ganga, hversu lengi sem hlutdrægir og hefnigjarnir valdhafar stympast á móti henni.