03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (1294)

43. mál, opinber ákærandi

*Stefán Jóh. Stefánsson:

því er haldið fram í frv., að stjórnarflokkarnir séu andvígir frv. eða a. m. k. daufir í málinu. Þetta eru ekki annað en rakalausar fullyrðingar. Frá því að málið kom fyrst fram, var lýst yfir því af flokkstjórnunum, að flokkarnir væru því hlynntir, að ákæruvaldið væri í höndum sérstaks embættismanns. Síðan var skipuð n. til þess að athuga alla réttarfarslöggjöfina. Aðalþátturinn af starfi n., löggjöf um meðferð einkamála, er þegar kominn fram, og voru þau lög samþ. á síðasta Alþingi. En hér hefir verið farið að sem víðar, að þegar samin er sérstök lögbók, er þessum málum skipt í flokka, og slíkt þótti n. eðlilegt að gera hér. Nú hefir n. haft með höndum löggjöf um meðferð opinberra mála. Í frv. n. um þetta efni er gert ráð fyrir saksóknara ríkisins, en þó með öðrum hætti en í frv. því, er hér liggur fyrir. Það væri því að minni hyggju barnaskapur að afgreiða nú á þingi sérstaklega þetta frv., þar sem heildarlöggjöf um þetta efni er nú í undirbúningi, og getur verið, að frv. til þeirrar löggjafar verði lögð fyrir þetta þing. Það getur verið, eins og oft er um víðtæk mál, að það frv. nái ekki fram að ganga þegar á þessu þingi, en mönnum gefst þá alltaf tækifæri til að athuga málið nánar til næsta þings.

Það, sem hv. flm. segir í grg., að gert hafi verið ráð fyrir, að lögfræðingan. lyki störfum sínum, fyrr en orðið hefir, getur verið rétt, en dráttur sá, sem orðið hefir á þessu, mun stafa af því, að einn lögfræðingurinn var sjúkur, svo að störf féllu niður um skeið, og mun því ekki vera hægt að segja, að störf hafi tafizt meira en eðlilegt er, að þessu athuguðu.

Hv. þm. hélt því fram, að stjórnarflokkarnir væru orðnir því fráhverfir að setja opinberan ákæranda, og mótmæli ég því hér með og vísa því heim til föðurhúsanna, að ákæruvaldinu hafi verið beitt harkalega af núverandi stj. Þessi ákæra er ekki sönnuð í grg. frv., og hér hafa ekki heldur verið lagðar fram nýtar sannanir fyrir henni. Ég vil spyrja hv. flm., hvort hann hafi kynnt sér kæru þá, sem fram kom á Ísafirði gegn bæjarstj. þar, og hvort kæran hafi að hans áliti verið þannig, að hneyksli hafi verið, að hún var ekki tekin til greina. Kæran kom raunar ekki til dómsmrh., heldur atvmrh. Hann mun hafa gert ráðstafanir út af þessu. En hinsvegar höfðu kærendur aldrei kvartað til dómsmrh., svo að ekki er hægt að segja, að hér hafi ákæruvaldinu verið misbeitt. Þá er það einnig rangt, að rannsóknardómari hafi verið skipaður til að rannsaka framkvæmdir bæjarstj. Vestmannaeyja. Það var aðeins umboðsleg athugun, sem fram fór, framkvæmd af lögfræðingi, sem mikið hefir fengizt við bæjarmál. Þessar fullyrðingar eru því út í bláinn. Það er fjarri því, að stjórnarflokkarnir séu horfnir frá þeirri ákvörðun, að hafður sé saksóknari ríkisins, og er þess að vænta, að á þessu þingi eða næsta gefist mönnum á að líta, að svo sé ekki. En ég álít, að ákvæði þar um eigi að vera fyllri en í þessu frv., og því tel ég betra að bíða og athuga málið til hlítar, svo að ekki sé farið að setja l. út í loftið og án nokkurs rökstuðnings.