20.03.1937
Neðri deild: 23. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (1308)

43. mál, opinber ákærandi

*Jóhann Jósefsson:

Það er ekki tilætlun mín, að blanda mér í þær lögfræðilegu umr., sem hér hafa farið fram. En vegna þess að inn í umr. hefir verið dregið mál, sem snertir mitt kjördæmi og þann bæjarstjórnarmeirihluta, sem ég hefi tilheyrt nokkur ár, gat ég ekki alveg setið þegjandi hjá.

Hv. flm. þessa frv. hefir bent á það, að meðferð hæstv. stj. á kærumálum gegn bæjarstjórnarmeirihlutanum í Vestmannaeyjum og bæjarstjórnarmeirihlutanum á Ísafirði hafi borið vott um misbeitingu ákæruvaldsins. Þetta hefir nú að vísu verið dálítið hártogað af andmælendum hv. flm. T. d. hefir hæstv. forsætisrh. bent á, að hið opinbera ákæruvald hafi hér ekki komið til greina, af því að það hafi ekki verið dómsmrn., sem fyrirskipaði rannsókn á Vestmannaeyjabæ, heldur atvmrn. Síðan gaf hæstv. atvmrh. hér einskonar skýrslu — ég veit ekki, hvort hann er hér svo nærri, að hann heyri mál mitt, en ég vil sérstaklega gera hans ræðu að umtalsefni —. Hann gat um það, hæstv. atvmrh., að árið 1935 hefði sér borizt vitneskja um það frá fjmrn., að auglýstar hefðu verið til uppboðs eignir Vestmannaeyjakaupstaðar, sem sumpart hefðu verið veðsettar fyrir því láni, sem Vestmannaeyjakaupstaður, eins og fleiri kaupstaðir, höfðu fengið árið 1934 í Englandi. Út af þessu hefði fjmrn. farið fram á, að athugað væri, hvernig á þessu stæði. Þetta kann að vera rétt, að fjmrn. hafi gert þessa aths. En ég get bætt því við, að þetta sama sumar var ég erindreki fyrir ríkisstj. utanlands og kom einmitt hingað til Reykjavíkur daginn áður, ef ekki sama daginn, sem blað hæstv. ráðh. birti mjög gleiðletraða árásargrein um Vestmannaeyjabæ og mig persónulega út af þessu máli. Mér vitaskuld brá dálítið við þessa árás, þar sem mér var ekki svo kunnugt um, hvað hafði farið fram síðustu mánuðina í kaupstaðnum, vegna fjarveru minnar. Ég mæltist þá til þess við þennan ráðh., að hann gæfi bæjarstjóra Vestmannaeyja tækifæri til að gefa skýrslu til rn. um, hvernig á þessu stæði, áður en frekar væri aðhafzt í málinu. Þessu svaraði hæstv. ráðh. þannig, að sér væri þetta ómögulegt. Það yrði að fara fram rannsókn. Og samkvæmt ráðstöfun hans var svo hinn reglulegi endurskoðandi ríkisstj., Jón Guðmundsson, sendur til Vestmannaeyja.

Hæstv. ráðh. las upp kafla úr því bréfi, sem fjmrn. sendi honum, en hann las ekki umsögn endurskoðandans, eftir að hann kom frá Vestmannaeyjum. Ég fullyrði, að sú umsögn var í alla staði á þann veg, að hún sýndi, að hér voru ekki neinar stórar sakir á ferðinni. Ég skal bæta því við, að einmitt þessi endurskoðandi benti á það í sinni umsögn, og það tók hæstv. ráðh. fram, að bókhaldið væri komið í miklu betra horf en áður, af því að nýr og efnilegur maður hefði tekið við bæjargjaldkerastöðunni. Sem sagt, athugun endurskoðandans gaf ekki tilefni til neinna sérstakra aðgerða í þessu máli, enda voru þær ekki gerðar. En tilefnið til þessarar rannsóknar var það, að bæjarfógetinn hafði, ég vil leyfa mér að segja af hrekk, ef ekki við bæjarstjórann, þá við bæjarfélagið, rokið til og auglýst fasteignir bæjarins til sölu fyrir ógreiddum gjöldum, sem ég ímynda mér, að komi fyrir víðar en í Vestmannaeyjum, að dragist fram yfir gjalddaga að greiða, án þess að yfirvöldin sjái sig tilknúð að auglýsa slíkar eignir til uppboðs. Enda er það þýðingarlaust embættisverk að auglýsa skóla, spítala og aðrar slíkar opinberar eignir til sölu. Þetta var aðeins gert í þeim tilgangi að hnekkja bæjarfélaginu eða þeim, sem því stjórna, enda játaði bæjarfógetinn í blaði hæstv. ráðh. nokkru síðar, að hann teldi hvert það verk, er hann gæti hnekkt með Sjálfstfl., vel unnið. Í þeim anda mun hann hafa auglýst eignir Vestmannaeyjabæjar. Nú féll þetta niður, gjöldin voru greidd. Leið svo til vorsins 1936. Þá fór kommúnistiska samfylkingin í Vestmannaeyjum af stað með kæru á hendur bæjarstjórninni. Fundir voru haldnir og talað var um óreiðu í fjármálum bæjarins og því um líkt. En þrátt fyrir alla viðleitni flokksmanna hæstv. ráðh. í Vestmannaeyjum og kommúnista, sem vitað er að standa í staðfastri samfylkingu, leyfðu þeir sér ekki að bera á neinn okkar bæjarfulltrúanna, að við hefðum notað atkv. okkar í bæjarstjórninni okkur sjálfum í hag. Samt voru kröfurnar geipilegar. Það átti að reka bæjarstjórann og bæjargjaldkerann frá stöðum sínum þegar í stað, og bæjarfulltrúarnir áttu að leggja niður umboð sitt. Hæstv. ráðh. segir, að hann hafi svo falið manni að rannsaka þetta. Sá maður hét Ingólfur Jónsson, fyrrv. bæjarstjóri á Ísafirði. Telur hæstv. ráðh., að það hafi verið dálítið hentugt að fela honum þessa rannsókn, því að hann hafi haft nokkra reynslu í stjórn bæjarmálefna, þar sem hann hefði áður verið bæjarstjóri. Í öðru lagi hafi hann ætlað til Vestmannaeyja hvort sem var, í lyfjabúðarrannsókn, að mér skildist. Það getur nú náttúrlega verið rétt, að maður, sem verið hefir bæjarstjóri, hafi betri aðstöðu til þess að skilja ýmislegt, sem snertir stjórn og fjárreiður bæjarfélaga, en aðrir, en annars virðist mér nú, að það hafi e. t. v. verið eitthvað annað en beinlínis þetta, sem kom hæstv. ráðh. til þess að skipa einmitt þennan mann. Hæstv. ráðh. gat um tvær ástæður, sem fyrir sér hefðu vakað, en hann gat ekki um þá þriðju; hana skal ég upplýsa. Þegar kæruskjöl samfylkingarmanna voru send til Vestmannaeyja til umsagnar, fylgdi þeim bréf frá einum kærandanum, alþekktum kommúnista, til hæstv. atvmrh., þar sem hann fer fram á, að hann sendi þennan umgetna mann, Ingólf Jónsson, til Vestmannaeyja til þess að rannsaka kæruatriðin. Þetta hljóp hæstvirtur ráðherra yfir, en þetta er einmitt það svartasta í aðferð hans gagnvart þessu bæjarfélagi, að hann lætur kærendurna ráða, hvern hann sendir til þess að rannsaka málið.

Það var minnzt á það í þessu sambandi, að þessi sami ráðh. hefði hummað fram af sér kærur, sem fram komu á annan bæjarstjórnar meirihluta, nefnilega á Ísafirði. Þau kæruatriði, sem þar var um að ræða, hafa verið dregin hér fram í dagsljósið, og þarf ekki að endurtaka það. En ég vil leyfa mér að halda því fram, að þau hafi verið ólíkt alvarlegri heldur en þessi sparðatíningur, sem samfylkingin í Vestmannaeyjum sendi hæstv. ráðh.

Hæstv. dómsmrh. sagði í ræðu sinni í gær, þar sem hann minntist á rannsóknina út af kaupum Þórsfiskjarins hjá Skipaútgerðinni, að það hefði sérstaklega verið óviðfelldið, að til þeirrar rannsóknar hefði verið settur maður, sem hann lýsti yfir, að hefði komizt í bein fjárhagsvandræði. Það var í hans augum óviðeigandi, að setja til slíkrar rannsóknar mann, sem ekki hafði sjálfur hreinan skjöld í þessu efni. En hæstv. atvmrh. hikaði ekki við að skipa þann mann til rannsóknarinnar í Vestmannaeyjum, sem ákæra lá á hjá ráðh., miklu alvarlegri heldur en svæsnustu andstæðingar bæjarstjórnarinnar í Vestmanneyjum báru á hana. Það er dálítið eftirtektarvert, sem hæstv. ráðh. segir um kæruna á bæjarstjórn Ísafjarðar, að honum hafi fyrst og fremst verið kunnugt um tilefni hennar, og í öðru lagi hafi hann fengið skýrslu frá bæjarstjóranum, og það nægði honum. En þegar ég fór fram á út af auglýsingu bæjarfógetans í Vestmannaeyjum á eignum bæjarins, að bæjarstjórinn þar fengi að gefa skýrslu, áður en frekar væri gert í málinu, neitaði hann því. Þegar kommúnistasamfylkingin ber ósannar sakir á bæjargjaldkerann, sem endurskoðandi ríkisins hafði lokið lofsorði á árið áður, þá er sjálfsagt að skipa rannsókn að dómi hæstv. ráðh. Ég vil undirstrika það, að endurskoðandi ríkisstj. hafði í álitsskjali sínu árið 1935 einmitt borið lofsorð á bæjargjaldkerann, sem samfylkingarmenn ætluðu helzt að gera að glæpamanni árið eftir. Hæstv. ráðh. vill láta líta svo út, að aðferð hans í þessum tveimur málum hafi verið að öllu leyti sjálfsögð og eðlileg. En ég vil halda því fram, að þótt hæstv. ráðh. sendi áminningar til Vestmannaeyja, t. d. um að bæjarstjórnin skyldi hafa það í huga, að það ætti að greiða öll laun í peningum, að bókfærsla bæjarins þyrfti að vera eitthvað öðruvísi en hún væri, og hitt og þetta væri vítavert, þá hafi það verið rétt til þess að láta líta svo út, að þarna væri um alvarlegri misfellur að ræða heldur en var. Sannleikurinn er sá, að rannsókn Ingólfs Jónssonar leiddi í ljós, að flest kæruatriðin voru tilbúningur einn, sennilega ekki ætluð til annars af þeim, sem að þeim stóðu, heldur en að vera blaðamatur í nokkra daga. Þetta gátu samfylkingarmenn leyft sér; það er alveg eftir þeirra kokkabók að gera slíkar fígúrur.

En ráðh. landsins á ekki að taka þátt í þess háttar skollaleik. Það hefir hæstv. atvmrh. gert vísvitandi; það sannar bezt, að hann skipaði mann til rannsóknarinnar, sem einn af kærendunum bað um, að skipaður yrði. Ég ímynda mér, að það sé leitun á því í íslenzku réttarfari, að maður í ábyrgðarmikilli stöðu fari þannig að, að taka við kæru og láta kærandann skipa dómarann. En þetta hefir hæstv. ráðh. látið sér sæma.

Það er því svo fjarri því, að hæstv. atvmrh. hafi aðeins gert einfalda skyldu sína í þessum tveimur málum, að í málinu, sem snertir Vestmannaeyjar, hefir hann komið fram eins og vikapiltur hinnar kommúnistisku samfylkingar í Vestmannaeyjum og annað ekki. Um hitt málið er öðrum kunnugra en mér, og skal ég því ekki leggja dóm á það, hvort þeir á Ísafirði hafa farið að ráði sínu eins og í kæruskjalinu stendur. En mér er sagt, að með því kæruskjali hafi fylgt útdráttur úr gerðabókum og aðrar slíkar sannanir, en ekkert þessháttar fylgdi kærunni úr Vestmannaeyjum, og þurfti hæstv. ráðh. þó að sinna henni út í æsar á þann hátt, sem kærandinn vildi, af pólitískum ástæðum.