20.03.1937
Neðri deild: 23. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (1309)

43. mál, opinber ákærandi

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það hefir ekki komið margt fram í þessum umræðum, sem ég þarf að svara. — Það var að vísu haldin hér alllöng ræða af hv. 8. landsk. Hann óskaði eftir því um daginn þegar hann lá í inflúenzunni, að þessu máli væri frestað. Hefir hann sýnilega verið að unga út þessari ræðu, sem mun vera einhver fyrsta ræða hans á þessu þingi, en á undanförnum þingum hefir hann talað mjög mikið, eins og menn muna.

Hv. þm. kvartaði um, hvað seint gengi endurskoðun réttarfarslöggjafarinnar og hegningarlaganna; ég hefði búizt við, að það yrði miklu fyrr lokið undirbúningi þeirra mála heldur en raun hefði orðið á. Las hann upp ummæli eftir mér og sér, er áttu að sýna, að hann hefði reynzt miklu meiri spámaður um það, hvaða dráttur mundi á þessu verða. Ég skal gefa honum rétt í því, að ef hann hefir lesið ummælin rétt upp, þá virðist svo vera. Ég gat ekki séð það fyrir, að sumir þeirra manna, sem unnið hafa að undirbúningi réttarfarslöggjafarinnar, mundu verða veikir og yrðu að hætta störfum langan tíma, og ýmislegt fleira, sem fyrir hefir komið. En ég vil vekja athygli á því, að núna í fyrra gengum við frá breytingum á einkamálalöggjöfinni, þeirri löggjöf, sem ég fæ sérstakar ákúrur fyrir að hafa ekki lagt fram ári áður, í stað þess að láta athuga hana eitt ár, eftir að Einar Arnórsson gekk frá henni. Á þessu ári var bætt úr ýmsum ágöllum á frv., sem eðlilegt er, að á því væru, þótt Einar Arnórsson sé mjög fær maður. Þegar einn maður gengur frá slíku máli getur honum alltaf sézt yfir ýmsa hluti. En þetta frv. var lagt fram til athugunar m. a. fyrir hv. 8. landsk. og 2 aðra lögfræðinga, ásamt öðrum hv. dm. En hvernig fór? Þegar á að fara að framkvæma lögin í vetur, varð nærri því að stöðva öll víxilmál, af því að það hafði gleymzt eitt ákvæði þar að lútandi, og samkvæmt beiðni bankanna varð að gefa út bráðabirgðalög til að kippa þessu í lag. Og nú erum við að detta ofan á fleiri atriði, sem eru talin lítt framkvæmanleg. Þetta sýnir aðeins, hvað þarf að athuga það mál vel, þegar verið er að byggja upp nýtt réttarfarskerfi í landinu, og ættum við að læra nægilega af því, til þess að þurfa ekki að flaustra af þeim þáttum þessa verks, sem eftir eru. Sama hefir reynslan orðið annarsstaðar. T. d. tók undirbúningur þessara mála í Danmörku 10–20 ár. Það er rétt, að tilbúið er frv. um meðferð opinberra mála. En ég get þegar gefið þær upplýsingar, að sá maður, sem mest fæst við rekstur opinberra mála í þessu landi sem stendur, hefir bent á, að á þessu frv. væru svo verulegir gallar, að það mundi lítt framkvæmanlegt, ef það yrði að lögum eins og það er. Nú er verið að athuga þetta mál mjög gaumgæfilega af þeim, sem fyrst og fremst hafa fengizt við þessi mál í framkvæmdinni. Það mun þess vegna vera aðallega gert til gamans, svona til þess að segja eitthvað, að deila á mig fyrir, að ég standi í vegi fyrir þessum málum. Þetta er ekki annað en eðlileg afgreiðsla á þeim, eins og mönnum ætti að vera ljóst, þótt við hefðum ekki fengið þennan árekstur í einkamálalöggjöfinni, sem þó var haldið fram, að hefði verið athuguð einu ári lengur en átti að vera.

Hvað snertir hegningarlöggjöfina, þá er nú að henni unnið af Þórði Eyjólfssyni hæstaréttardómara. Það var dregið í efa, að hann gæti að henni unnið nú, ég veit ekki af hverju, því sjálfsagt er hv. þm. ljóst, að honum er leyfilegt að sinna því verki, eins og Einari Arnórssyni að vinna að einkamálalöggjöfinni, eftir að hann varð hæstaréttardómari, og vera nú í nefnd til að endurskoða lögin um meðferð opinberra mála. Ég hefi hvað eftir annað beðið um, að því máli væri hraðað, en ég held, að ekki sé hægt að krefjast þess af þeim, sem að svona verki starfa, að þeir vinni fljótar en þeir telja hentugt, til þess að málin geti orðið vel undirbúin. Mér er því óhætt að vísa þessum aðfinnslum algerlega á bug, enda býst ég við, að þær séu ekki alvarlega meintar, heldur meira svona til að slá um sig, þegar menn hafa lítið annað til að tala um.

Þá minntist hv. þm. á mál, sem ég talaði um síðast, mál Einars á Ægi. Menn muna eftir, hvernig það mál var „handterað“. Hv. þm. lýsti nokkuð rannsókn þess, sem stóð yfir lengri tíma. Einar var settur í land, af því að upplýst þótti eftir skrifum andstæðinga hans, að hann væri afbrotamaður. En málið endaði á þann hátt, að sjálfur hv. 8. landsk. sá sér ekki fært að dæma Einar sekan, og dæmdi hann aðeins í 500 kr. sekt, af því að hann átti að passa upp á, að ekki væri skrifað í bækur skipsins af öðrum. Það var þetta mál, sem hæstiréttur ógilti, og einn af dómurunum óskaði, að hann sæi aldrei aftur. Það vita allir, af hverju þetta mál var sprottið, af hverju Einar var af andstæðingablöðunum stimplaður sem afbrotamaður og settur á land, þessi duglegasti varðskipsforingi, sem til var. Þegar þannig var búið að elta manninn í heilt ár, getur hver skilið, að sá dómsmrh., sem við tekur og þekkir málið út og inn, fer ekki að halda slíku áfram, því að málið var vitleysa frá upphafi, því var málið látið niður falla.

Því hefir verið haldið fram hér, að ég hefði átt að eltast við kærur þær, sem fram hafa komið gegn bæjarstjórninni á Ísafirði. En það er ekki sagt, að ég hefði átt að höfða mál gegn þeim í Vestm.eyjum. Svo er hamrað á því, hvílík hlutdrægni þetta sé. Þessir menn eru svo blindir, að þeir sjá ekki, að ef ég hefði átt að eltast við þessi mál, hefði ég orðið að fyrirskipa sakamálsrannsókn á báða. En ég hefi álitið réttara að láta þá bítast um þetta sjálfa þarna í Vestmannaeyjum en að höfða mál á hendur þeim. Að dómsmrh. eigi að rísa upp og höfða mál í hvert skipti, sem kærur eru bornar á menn, er eins og hver önnur vitleysa. Í Morgunblaðinu stendur, að Héðinn Valdimarsson sé auðugur maður og hafi eignazt auð sinn með svikum og þjófnaði. Ætti ég þá að fara að hefja sakamálsrannsókn út af þessu á hendur Héðni? Að einhver hafi svikið, er daglegt brauð, og getur dómsmrh. vitanlega ekki farið að eltast við allt slíkt.

Þá hefir verið minnzt á Behrensmálið. En það er eftirtektarvert, að hv. þm. sagði ekki meira en það, að þar hefði verið dæmt fyrir verknað, sem fjöldi manna hefði áður gert sig sekan um. En þó að aðrir hafi brotið l., er það ekki hlutverk dómarans að sýkna þann næsta, sem ákærður er fyrir hið sama. Við skulum ekki ræða það mál meira. Seinni tímar geta dæmt um, hvernig á því hefir verið tekið. Ég hefi oft heyrt, að ég hafi haft tilhneigingu til að dæma öðru vísi í því máli en öðrum, en slíku svara ég ekki.

Svo var minnzt á kollumálið, sem mikið hefir verið rætt áður. Ég hefi ekki kvartað yfir þeirri málssókn. Eins og henni lauk, væri frekar ástæða fyrir andstæðinga mína að láta sér leiðast málalokin. Ég get sýnt kvittun uppi í Stjórnarráði, sem hljóðar upp á 200 kr., sem einu vitninu höfðu verið greiddar. Það liggja fyrir fleiri kvittanir fyrir greiðslum til vitna. Og svo ég viti til, hefir það ekki komið fyrir í nokkru máli öðru en þessu, að þegar vitnin áttu að sverja, þá gengu þau af trúnni. Tveir voru aðventistar og máttu því ekki sverja, og einn skrifaði séra Bjarna til að fá vottorð um, að hann væri utan þjóðkirkjunnar. Ég veit ekki til, að það hafi áður komið fyrir á Íslandi, að menn gengju af trúnni, er þeir áttu að sverja. Læt ég svo útrætt um það mál.

En það var eitt atriði í gær, sem ég gat ekki upplýst. Það var deilt á mig fyrir að hafa höfðað mál gegn mönnum, sem réðust á mann á götu fyrir nokkru, en að hafa síðan svæft mál út af árás, sem gerð hafi verið á sjálfstæðismann, þrátt fyrir ítrekaða beiðni um að taka málið upp. Ég fór fram á það eftir umr. að fá að vita, hvaða mál þetta væri, og fékk ég þær upplýsingar. Síðan hringdi ég í lögreglustjóra. Og til þess að gefa mönnum hugmynd um, hvernig málin eru hér sótt, skal ég skýra frá því, hvernig í öllu liggur. Því hefir verið haldið fram, að ég hafi haft sérstaka löngun til að gera þeim manni órétt, er hér átti hlut að máli, af því að við losnuðum við hann úr Framsfl. yfir í Íhaldsfl. fyrir nokkrum árum. Því er haldið fram, að hann hafi ekki fengið mál sitt tekið fyrir. En málið hefir aldrei til mín komið fremur en mörg slík smærri mál. Þann 22. júlí í sumar var Jón Norman Jónasson á leið upp Laugaveg, og var honum þá gefið glóðarauga. Ég hefi nú í höndum dómsúrskurðinn, sem kveðinn var upp í þessu máli þann 21. ág. 1936. Innan mánaðar hefir málið þannig verið rannsakað og dæmt. Og svo er því haldið fram hér í hv. d., að dómsmrh. sitji á málinu enn. Hér liggur fyrir málsrannsókn og dómur, og geta hv. þm. séð ef þeir vilja.