20.03.1937
Neðri deild: 23. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (1311)

43. mál, opinber ákærandi

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Út af ummælum hv. þm. Vestm. þarf ég að segja nokkur orð, þó að ræða hans gefi að vísu ekki tilefni til langra andsvara.

Ég hefi bent á það hér fyrr í þessum umr., að þau atriði, sem fram eru dregin í grg. viðvíkjandi bæjarmálum Vestmannaeyja og Ísafjarðar, eru þessu frv., sem fyrir liggur, óviðkomandi. Ég sýndi fram á, að það, sem þar var um að ræða, var sjálfsagt eftirlit, sem atvmrn. og þeim ráðh., sem hefir yfirstjórn bæjar- og sveitarmálefnanna, bar skylda til að hafa með höndum. Ef um saknæmt athæfi var að ræða að dómi aðilja sjálfra, sem ekki kemur fram nema í einni þessari kæru, kæru frá minni hl. bæjarstj. í Vestmannaeyjum, þá er það sú eðlilega leið, að snúa sér beina leið til dómsmrn. En í bréfinu til atvmrn. er engin beiðni um að vísa þessu til dómsmrn. Sú athugun, sem gerð hefir verið, var eingöngu gerð af atvmrn., sem sjálfsögð eftirlitsráðstöfun í sambandi við fjárstjórn þessa bæjar. Ef um saknæmt atriði hefði verið að ræða, hefði verið óskað eftir sakamálsrannsókn, en að genginni þeirri athugun, sem rn. gerði, taldi það ekki ástæðu til þess.

Hv. þm. Vestm. heldur því fram, að það hafi verið framið óvenjulegt gerræði á meiri hl. bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum með því að láta fara fram þá athugun, sem gerð var. Þó er það viðurkennt af honum sjálfum, að tæpum 6 mánuðum eftir að ríkissjóður var búinn að ganga í ábyrgð fyrir 110 þús. kr. láni, sem beinlínis var veitt ábyrgð fyrir af ríkisstj. í þeim tilgangi að greiða lausaskuldir kaupstaðarins, sem eru tryggðar með 2. veðrétti í ákveðnum fasteignum í kaupstaðnum, er svo ástatt í þessu bæjarfélagi, að þessar sömu eignir, sem eiga að vera veð fyrir þessu láni, eru auglýstar af bæjarfógeta eftir kröfu lánardrottna til sölu upp í greiðslu á vangreiddum vöxtum og afborgunum af lánum, sem hvíla á eignunum. Og það, sem er eftirtektarvert, er, að þessar greiðslur eru fallnar í gjalddaga, áður en lánið er veitt með ríkisábyrgðinni til þess að greiða lausaskuldir kaupstaðarins. Svo finnst hv. þm. Vestm. það ákafleg ósvinna gagnvart bænum, að láta rannsókn fara fram í þessu, eftir að búið er að óska, að það sé gert. Sú athugun, sem var gerð af Jóni Guðmundssyni endurskoðanda, leiddi í ljós, að það, sem sagt var, var rétt. Ég skal að vísu ekki segja, að hún út af fyrir sig hafi leitt til þess, að þessu var kippt í lag, en eftir hans för var þessu kippt í lag, og þá var málið látið falla niður. En því er ekki að neita, að um óheyrilega vanrækslu var að ræða í þessu efni af hálfu bæjarstj. Þegar svo enn á ný er vakin athygli ríkisstj. á því, að ýmsar aðrar misfellur séu á stjórn bæjarmálanna í þessum kaupstað — ekki af Jóni Guðmundssyni, heldur minni hl. bæjarstj. — þá verð ég að telja, eftir því sem áður var upplýst, að ómögulegt hafi verið að skella skolleyrunum við því að athuga, hvernig ástandið var. Ekki á þann hátt, að setja sakamálsrannsókn á bæjarstj. því að það heyrði ekki undir mitt rn., heldur að rn. léti framkvæma þá athugun, sem nauðsynleg var til þess að ganga úr skugga um, að hve miklu leyti þessi kæra hefði við rök að styðjast, og það og ekkert annað var gert með sendiför Ingólfs Jónssonar, lögfræðings. Ég hygg, að enginn ráðh. hefði getað skellt skolleyrunum við því, að taka þessa rökstuddu kæru til greina á þann hátt, sem gert var.

Hv. þm. Vestm. sagði, að þótt margt væri svart af því, sem atvmrh. hefði gert í garð Vestmannaeyja, þá hefði það þó verið það langsvartasta, að senda þennan mann, Ingólf Jónsson, til þess að athuga þetta, því að hann hefði verið sendur eftir pöntun kærendanna sjálfra. Það væri sama, sagði hann, og ákærandinn sjálfur ætti að vísa á dómara. Ég vil fyrst benda hv. þm. Vestm. á, að hér var ekki um dómara að ræða, heldur aðeins um að ræða athugun á einstökum atriðum, sem bent var á í kærunni, á fjárreiðum kaupstaðarins yfirleitt, og þessi maður átti ekki annað að gera en að kynna sér málið og gefa um það skýrslu, en alls ekki að starfa sem dómari. En í lok ræðu sinnar fullyrti þessi hv. þm., að niðurstaða athugana þessa manns hefði verið sú, að í raun og veru hefði allt verið í bezta lagi, þ. e. a. s., að þessi ógurlegi maður hefði fallizt á, að mér skildist, að meiri hl. bæjarstj. í Vestmannaeyjum hefði rækt sitt starf prýðilega. Nú er þetta fjarri sanni hjá hv. þm. Það voru ýmsar misfellur í starfi meiri hl. bæjarstj., en mismunandi stórar, sumar þýðingarmiklar, en aðrar smærri, en enginn þess efnis, að ástæða þætti til þess að fyrirskipa sakamálsrannsókn á hendur meiri hl. bæjarstj., bæjargjaldkeranum eða einstökum mönnum. Þessar misfellur voru sumpart bættar og sumpart víttar, eins og tíðkast hjá atvmrn., sem hefir eftirlit með sveitar- og bæjarstjórnarmálefnum.

Hv. þm. Vestm. sagði, að Ingólfur Jónsson hefði verið sendur eftir pöntun kærendanna sjálfra. Það er hreinn og beinn hugarburður. Hann var sendur af því, að hann hafði öðrum störfum að sinna; við það sparaðist fé, og auk þess var mér kunnugt um, að hann er glöggur bókhaldsmaður og vanur slíkri reikningsfærslu og því fljótur að átta sig á þessu. Hv. þm. sagði, að þetta hefði verið hneyksli, vegna þess að þessi maður lægi undir kæru fyrir saknæmt athæfi. Það er rétt, að kæra hafði komið fram af hálfu bæjarstjórans á Ísafirði, Jóns Auðuns Jónssonar, á hendur meiri hl. bæjarstj. þar, og ég ætla bæjarstjórans líka, þótt ég muni það ekki með vissu, en eftir þá athugun, sem gerð var af rn., komst rn. að þeirri niðurstöðu, að þessi kæra væri tilefnislaus. Þess vegna var því ekki lengra haldið. Og því, sem hafði verið talað um þær samþykktir bæjarstjórnarinnar, sem fyrrv. bæjarstjóri, Jón Auðun Jónsson, kærði yfir, var áður búið að skjóta til rn., og rn. búið að leggja samþykki sitt á þær.

Um sama leyti hafði einnig borizt á hendur Jóni Auðun Jónssyni kæra frá meiri hl. bæjarstj. fyrir bæði að hafa vanrækt að inna af hendi störf, sem bæjarstj. hafði lagt fyrir hann, og loks að hann með skrifum sínum um fjárhag bæjarins hafi gefið rangar upplýsingar og reynt að spilla lánstrausti bæjarins út á við. Þessi kæra var afgr. til hlutaðeigandi manna til umsagnar, og að henni fenginni sá rn. ekki ástæðu til þess að efna til frekari rannsóknar í málinu. Það má að sjálfsögðu kasta því fram órökstuddu um hvern einasta mann, að hann hafi gert sig sekan um saknæmt athæfi og ætti því af þeim sökum að vera óhæfur til starfa. En slíkt nær vitanlega ekki nokkurri átt. Enda er það ljóst, að hv. þm. Vestm. telur sig eftir atvikum geta verið ánægðan með athugun Ingólfs Jónssonar á þessum málum.

Hv. þm. Vestm. taldi, að þetta væri því til sönnunar, að ég sem ráðh. væri vikapiltur kommúnistanna í Vestmannaeyjum. Sé honum það hugarhægð í þessu pólitíska andstreymi að nefna mig slíkum nöfnum þá er honum það velkomið. Það er bara orðafleipur. Ég get nefnt hann vikapilt eða skóþurrku nazista eða hverju öðru nafni sem nefnist, en ég læt það ógert, að vera að metast um slík köpuryrði.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að vera að eyða um þetta fleiri orðum. Það, sem mestu skiptir í þessu sambandi, er á engan hátt efni þessa frv., heldur það eftirlit, sem þeim ráðh., sem hefir með höndum yfirumsjón bæjar- og sveitarmálefna, ber að hafa með störfum bæjar- og sveitarstjórna.