20.03.1937
Neðri deild: 23. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (1312)

43. mál, opinber ákærandi

*Finnur Jónsson:

Ég þarf ekki miklu að bæta við það, sem hæstv. atvmrh. sagði um þetta mál, því að þær kærur, sem urðu út af bæjarmálefnum Vestmannaeyja og Ísafjarðar, voru algerlega ófyrirsynju dregnar inn í þetta mál.

Hv. þm. Vestm. hefir rækilega tekið fram, að í Vestmannaeyjum hafi ekki verið um nein þau atriði að ræða, sem ástæða var til að láta opinberan ákæranda fjalla um, og hæstv. atvmrh. hefir bent á, að það sama hafi gilt um Ísafjörð. Enda er það svo, að jafnvel þáverandi bæjarstjóri á Ísafirði, Jón Auðun Jónsson, nefndi það, sem hann kærði yfir „misfellur“ og lét bóka það í fundarbók bæjarstj. Mér dettur ekki í hug að halda, að Jón Auðun Jónsson hefði ekki orðað þetta öðruvísi, ef hann hefði álitið, að þar hefði farið fram eitthvað það, sem opinber ákærandi hefði átt að fjalla um, eða það, sem kæmi nálægt sakamáli.

Jón Auðun Jónsson varð bæjarstjóri á Ísafirði með hlutkesti. Það voru jöfn atkvæði íhaldsmanna og jafnaðarmanna í bæjarstjórninni, en einn maðurinn tilheyrði kommúnistum og var því oddamaður í bæjarstjórninni. Bæjarstjórinn varð þess vegna í minni hluta og átti mjög erfitt uppdráttar með sín störf. Það urðu harðar deilur í bæjarstjórninni, og þær leiddu til þess, að Alþfl. kærði Jón Auðun Jónsson til atvmrh. fyrir það að hafa gefið út rangar og villandi skýrslur um fjárhag bæjarins, skýrslur sem hefðu, ef lagður hefði verið trúnaður á þær, getað leitt til þess, að spilla lánstrausti bæjarins, og vitanlega var þetta mjög vítavert athæfi af bæjarstjóra. Þær skýrslur, sem Jón Auðun Jónsson gaf út um fjárhag bæjarins, voru svo mjög á reiki, að það urðu af þeim margar útgáfur. T. d. taldi hann upp, hvað bú bæjarins væri mikils virði, og byrjaði með að segja, að það væri 160 þús. kr. virði. Viku seinna sagði hann það 180 þús. kr. virði, og loks var það komið upp í 200 þús. kr. Ég skal ekki rekja þessar skýrslur fyrrv. bæjarstjóra á Ísafirði, Jóns Auðuns Jónssonar, það á ekki heima hér á Alþingi. — Kæra Alþfl. er dagsett 10. ágúst 1934. Jón Auðun Jónsson svaraði þessari kæru með annari kæru á hendur alþýðuflokksmönnunum, sem áður höfðu verið í hreinum meiri hl. í bæjarstjórn Ísafjarðar, og það var litið svo á, að ef kæra alþýðuflokksmannanna hefði ekki komið fram, þá mundi Jón Auðun Jónsson ekki heldur hafa komið með sína kæru, enda lýsti hann því yfir á bæjarstjórnarfundi, þar sem alþýðuflokksmenn samþ. að kæra hann, að hann mundi koma með gagnkæru. Þær ýfingar, sem út af þessu spunnust, voru því eingöngu út af bæjarpólitík á Ísafirði og eru þessu máli, sem hér er til umr., algerlega óviðkomandi. — Jón Auðun Jónsson kærði fyrrv. meiri hl. bæjarstjórnar á Ísafirði einkum fyrir 3 atriði. Í fyrsta lagi fyrir það, að bæjarstjórnarmeðlimir hefðu, þrátt fyrir að þeir væru í stjórn og meðeigendur í Samvinnufélagi Ísfirðinga, neitað að samþ. till. íhaldsmanna um það að ganga að samvinnufélaginu á árinu 1932. En svo stóð á, og það sýndi sig greinilega seinna, að ef þessi till. hefði verið samþ., hefði hún valdið bæði bæjarsjóði, sem var í ábyrgð fyrir skuldum félagsins, og eins ríkissjóði, mjög miklum fjárhagslegum skaða. Þannig var frá sjónarmiði þessara tveggja aðilja, sem voru stærstu skuldheimtumenn félagsins, rétt að fella till. um að ganga að félaginu. Annað kæruatriðið var út af veðum í sambandi við eigendaskipti á skipum félagsins. Þessi eigendaskipti og þessi veð höfðu verið samþ. af fjármrh. með bréfi dags. 18. des. 1930, og má nærri geta, hvort eftirmanni þess ráðh. hafi þótt ástæða til að setja sérstaka rannsókn á hendur bæjarstjórn Ísafjarðar fyrir það, að hún framkvæmdi veðsetningu og eigendaskipti á skipum Samvinnufélags Ísfirðinga, sem rn. var búið að veita sitt samþykki til, að færi fram. Í bréfi Jóns Auðuns Jónssonar til stjórnarráðsins er bent á það, að ekki hafi staðið heima samþykktin um upphæð þessara veða og veðsetningin, en það stóð í sambandi við áfallna vexti, af því að eigendaskiptin fóru ekki fram fyrr en nokkuð löngu seinna en samþykkið hafði fengizt. Þriðja atriðið, sem Jón Auðun Jónsson kærði alþýðuflokksmennina fyrir, var að veita Samvinnufélagi Ísfirðinga frest á skuldum og eftirgjafir á vöxtum og jafnframt lánveitingu úr hafnarsjóði, en allt þetta var samþ. af þáverandi atvmrh., Magnúsi Guðmundssyni, með bréfi dags. 18. febr. 1932. Með öðrum orðum, þau atriði, sem Jón Auðun Jónsson kærði alþýðuflokksmennina í bæjarstjórn fyrir, voru þess eðlis í fyrsta lagi, að ef þær samþykktir, sem kært var út af, hefðu ekki verið framkvæmdar, þá hefði bæjarsjóður Ísafjarðarkaupstaðar og ríkissjóður stórskaðazt. Í öðru lagi voru hin tvö kæruatriðin bæði samþ. af hlutaðeigandi ráðh., sem fór með æðstu stjórn bæjarmálefnanna í landinu á þeim tíma. Það liggur því í augum uppi, að það hefði þurft að liggja fyrir meira en lítið saknæmt til þess, að núv. atvmrh., Haraldur Guðmundsson, hefði farið að skipa fyrir um sérstaka rannsókn út af samþykktum, sem framkvæmdar voru með fullu samþykki hlutaðeigandi ráðh. og hans fyrirrennara. Enda var því yfirlýst af íhaldsmönnum á bæjarstjórnarfundi, þar sem þessi mál voru til umr., og bókað eftir þeim, t. d. um mína atkvæðagreiðslu í þessu máli, að þeir vissu, að það væri ekki í atvinnuskyni fyrir sjálfan mig, að ég greiddi atkvæði í þessu máli eins og ég gerði. Eins kom það á daginn, að íhaldsmenn í bæjarstjórn Ísafjarðar veittu Samvinnufélagi Ísfirðinga langtum meiri fjárhagsleg hlunnindi en þeir, sem samþ. það með atkv. alþýðuflokksmanna eingöngu. Annars get ég tekið það fram í sambandi við þetta til frekari áréttingar, að það er ekki rétt, að mitt atkv. hafi ráðið úrslitum, vegna þess að þær till., sem íhaldsmenn báru fram um að ganga að Samvinnufélagi Ísfirðinga, voru felldar með 6:4 atkv. og ennfremur af því, að þær till., sem samþ. voru, voru sömuleiðis samþ. með 6:4 atkv.

Ég ætla, að með því, sem ég hefi sagt um þetta til áréttingar því, sem hæstv. atvmrh. hefir sagt um þetta mál, þá sé það sýnt og sannað, að hér er í rauninni alveg það sama á ferðinni eins og um Vestmannaeyjar, því að hér er ekki um að ræða neitt mál, sem hefði komið undir opinberan saksóknara; hér er aðeins um að ræða atriði viðvíkjandi bæjarfélaginu, sem heyrir undir atvmrh., en ekki undir dómstólana. Þetta sýnir, að það er hægt að færa röng rök fyrir máli, þannig að það geti jafnvel skaðað málstaðinn. Enginn neitar því, að það geti vel komið til mála, að hyggilegt sé að setja hér opinberan saksóknara, en þegar færð eru alveg röng rök fyrir þessari nauðsyn, þá getur vitanlega varla farið hjá því, að menn skoði hug sinn, áður en þeir greiði atkv. með slíku frv. Það liggja ekki önnur rök fyrir þessu máli heldur en þau, sem hafa verið hrakin bæði af hv. þm. Vestm., hæstv. atvmrh. og mér, og ég hygg, að hv. 11. landsk., sem hefir óskað eftir að verða einskonar opinber refsivöndur í þessu landi, muni hafa sett hér met í því að bera fram röng rök fyrir sínum málstað hér á Alþingi.