24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (1321)

43. mál, opinber ákærandi

*Páll Þorbjörnsson:

Það er nú svo, að farið er að fyrnast yfir það, sem ástæða var til að tala um við þessar umræður, og það hefir verið fléttað inn í þessar umræður þeirri rannsókn, sem hæstv. dómsmrh. lét gera í Vestmannaeyjum. Hv. þm. Vestm. hefir belgt sig mjög mikið út af því, að þar hafi verið ráðizt á rétt Vestmannaeyja, og það hafi ekki verið maklegt, að láta þá rannsókn fara fram, sem hér er um að ræða. Meginatriði kærunnar voru þau, að það væri ekki bæjarstjórnin, sem réði og stjórnaði í Vestmannaeyjum, heldur 5 manna fulltrúaráð íhaldsins. Bæjarstjórnin héldi ekki fund nema stöku sinnum, og það liði oft 2–3 mánuðir á milli funda. Reikningar bæjarins voru ekki lagðir fyrir bæjarstjórnina, og fjárhagsáætlun var ekki tilbúin, fyrr en langt var liðið á það ár, sem hún var gefin út fyrir. Og þótt Ingólfur Jónsson hafi ekki komið auga á þessa galla, sem minni hl. bæjarstj. kærði, þá er ekki þar með sagt, að þar ríki nokkur heilbrigði. Það eina, sem íhaldið og þm. Vestm. geta haft út á rannsóknina að setja, er að hún hefir ekki verið nógu mikil til að komast í botn í þessu díki; það er nú smámsaman að sýna sig, að ekki fer ástandið batnandi. „Íhaldið“ hafði gert leynisamning við auðvaldsfyrirtæki bak við bæjarstj. Samningar þessir stóðu í sambandi við viðskipti bæjarstjórnar, og málinu var hagað þannig eins og bæjarstjórnin væri ekki til. Því eru þeir kunnugastir, sem að samningunum stóðu. Þá má minna á, að það er ekki bæjarstj., sem ræður starfsmenn bæjarins, heldur er það þetta fulltrúaráð „íhaldsins“. Þá bar það við fyrir skömmu síðan, að eini maðurinn, sem má telja, að hafi haft nokkurt vit við bæjarstörfin, varð að hrökklast burtu vegna hótana frá Jóh. Þ. Jósefssyni. Í fjárhagsáætlunina fyrir síðasta ár er tekin upphæð, sem nemur 10 þús. kr., sem rekstrarhalli á vissri stofnun, og margt fleira slíkt má telja. Það er sýnilegt, að eftirlitið hefir alls ekki verið nóg með þessu, það væri full ástæða til, að hið opinbera skrifaði þeim herrum aftur harðort bréf. Og ég vænti þess, þó að þessi rannsókn hafi ekki leitt meira í ljós en raun varð á, að dómsvaldið verði vel á verði og hafi strangt eftirlit með bæjarrekstrinum eins og alstaðar annarstaðar.