24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (1322)

43. mál, opinber ákærandi

*Garðar Þorsteinsson:

Hv. þm. Barð. byrjaði á monti af því, að mér og 11. landsk. væri fyrirgefið vegna ungæðisskapar. Það má segja um þennan hv. þm., að daglega sjást ellimörkin á honum. Það, sem hér er um að ræða, eru einka og opinber mál, sem voru undirbúin af Einari Arnórssyni. Og ég hygg, að vinnubrögð hv. 1. landsk. og hv. þm. Barð. hafi ekki verið önnur en þau, að lesa frv. yfir og gera á því smávægilegar orðabreyt. og það er víst, að hvað mikil vinna sem lögð er í þetta, þá verður það aldrei svo úr garði gert, að að því megi ekki finna, þar sem svo gagngerðar breyt. á að gera á réttarfarinu. Það er sama, hvað oft hv. 1. landsk. endurtekur það, að hann hafi samið frv., því að þrátt fyrir þetta sjálfshól sitt, sem er heldur væmið, en honum eiginlegt, þá á hann engan raunverulegan þátt í undirbúningi þessa máls. Það vita allir. Sú eina efnisbreyt., sem þessi hv. þm. gerði á frv. um meðferð einkamála, er í kaflanum um sjódómsmál, sem var breytt í sjódóms- og verzlunarmál. (BJ: Hv. þm. talar um það, sem hann veit ekkert um). Ég veit það vel. Mér finnst það ógeðslegt sjálfshól hjá þessum manni, þegar hann er stöðugt að endurtaka það, að, frv. sé sitt mikla verk, en hefir ekki gert annað en að hirða launin fyrir sitt litla starf.

Ég veit það að vísu, að hv. 1. landsk. er það eiginlegt að hæla sér, en ég kann verr við það, að hv. þm. Barð., sem finnur nú ellimörkin færast yfir sig, eins og hann sjálfur orðaði það, sé að hæla sér yfir sínum verkum. Það sannast hér, sem ég benti á á þinginu 1934, að það frv. í þessum efnum, sem lengstan tíma þarf til þess að undirbúa, er hin væntanlega refsilöggjöf.

Eins og ég hefi bent á áður, þýðir ekki að vera að deila um þetta, en ég álít, að það hefði farið vel á því, að frv. um meðferð opinberra mála kæmi hér fyrir þingið, af því að það er vitanlegt, að frv. er tilbúið af hæstaréttardómaranum Einari Arnórssyni, og hvorugur þessara manna gerir gagn með því að lesa það yfir; þeir geta alveg eins gert það sem meðlimir allshn.

Hv. 1. landsk. sagði, að „kollumálið“ væri átakanlegt dæmi um pólitískar ofsóknir. Mér er það ljóst, að þessi hv. þm. getur ekki gert sér ljóst, hvenær hann fer með rétt og hvenær hann fer með rangt mál. Honum er það meðskapað. En það, sem þessi hv. þm. verður að muna, er það, að hann má ekki blanda saman afskiptum dómarans og afskiptum ráðh. af málinu. Að því er „pólitískar ofsóknir“ snertir, þá gerði ráðh. í þessu tilfelli ekki annað en að fyrirskipa rannsókn í máli, sem kæra var komin fram í. Hv. þm. Barð. getur vitanlega ekki afsakað neitt hæstv. ráðh., sem þá var dómari í lögreglumálum hér í Reykjavík, fyrir það, að viðhafa þau orð um vitnin, að þau væru ljúgvitni, og þó að hann stæði í þeirri meiningu, að ég myndi gera það sama, ef ég væri hinn ákærði, þá leysir það hann ekki undan sökinni. Sá er munurinn, að ég hefi ekki starfað sem dómari, að ég hefi ekki farið með lögreglumál, að ég hefi ekki dæmt hundruð manna á vitnaframburði, en þetta gildir um hæstv. ráðh. Þegar hv. þm. Barð. er að tala um það, að hér hafi verið um rangan framburð að ræða, þá verður líka að minnast þess, að hæstiréttur hefir slegið því föstu, að þennan framburð ætti að leggja til grundvallar um það, hvort verknaðurinn hafi verið framinn eða ekki. Þetta verður hann að muna.

Að síðustu vil ég aðeins benda á það, sem hæstv. ráðh. sagði í sinni ræðu, að það lægju kvittanir í stjórnarráðinu fyrir svo og svo mörgum hundruðum króna, sem þessum vitnum hefði verið greitt. Ég hefi ekki séð þessar kvittanir, en ég veit, að þetta er að því leyti tilhæfulaust, að hafi þessir menn fengið einhverja greiðslu, þá hefir það vitanlega ekki verið í neinu sambandi við þetta „kollumál“. Hinu má slá föstu, að ef hæstv. ráðh. getur slegið því fram úr ráðherrastóli, að þegnar hafi verið mörg hundruð króna fyrir að bera ljúgvitni fyrir rétti, þá misbeitir hann sínu ákæruvaldi a. m. k. á passivan hátt, ef hann ekki þegar fyrirskipar rannsókn út af þessu, því að ef þetta væri rétt, væri hér ekki eingöngu um afbrot vitnanna að ræða, heldur og þeirra manna, sem greiddu þetta fé af hendi og mér skilst, að hafi verið framsóknarráðherra. Ein sökin verður því annari verri í framkomu og ummælum hæstv. ráðh.