24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (1325)

43. mál, opinber ákærandi

*Páll Þorbjörnsson:

Það er nú lítið, sem ég þarf að taka fram út af því, sem hv. þm. Vestm. sagði. Hann var aðallega að tala um það, að kæruatriðin á hendur bæjarstjórnarmeirihlutanum á Ísafirði hefðu verið miklu veigameiri en kæruatriðin þarna í Vestmannaeyjum. — Ég skal algerlega leiða minn hest hjá því, að dæma nokkurn hlut um það, hversu veigamikil þau kæruatriði hafi verið, það hefir verið farið allrækilega inn á það mál af hv. þm. Ísaf. og hæstv. atvmrh., og ég hygg, að hv. þm. muni lítið geta um það mál sagt, nema þá eitthvað, sem í þá hefir verið tuggið af öðrum.

Hv. þm. var hér að vanda að rifja það upp, sem hann er búinn að endurtaka í 2–3 ræðum, að hæstv. atvmrh. og að sjálfsögðu ég líka værum bara vikapiltar kommúnista í þessu árásarmáli, sem hann kallar. Það kemur nú úr hörðustu átt, þegar þessi maður er að tala um það, að menn séu vikapiltar fyrir einhverjar pólitískar trúboðsstefnur, þegar það er vitað, að ef að það er nokkur maður hér á þessu landi, sem er viðurkenndur og launaður vikapiltur fyrir erlenda trúboðsstefnu, þá er það þessi maður. Það er vitanlegt, að hann er fulltrúi einhverrar mestu blóðhefndarstefnu, sem kunnugt er um, nazistastefnunnar í Þýzkalandi. (Forseti hringir) Hv. þm. hélt því fram, að það væri ekki rétt hjá mér, að Ingólfur Jónsson hefði ekki eytt nema nokkrum dögum í þessa athugun á málum Vestmannaeyjabæjar. Ég hefi tekið það fram áður, að það einasta óheppilega, sem ég tel, að hafi verið við það, að Ingólfi Jónssyni var falin þessi rannsókn, var það, að það var verið að horfa í kostnaðinn. Hann var að fara hvort eð var til Vestmannaeyja til þess að athuga einhver brennivínsmál í sambandi við apótekin þar, og var falið að gera þessa athugun á Vestmannaeyjakaupstað um leið, og það er vitað, að Ingólfur Jónsson eyddi ekki nema kannske 2–3 dögum í þessa athugun á bæjarfélaginu. Það er líka vita, að það fór margt fram hjá honum við þessa athugun. Hins er ekki að vænta, að maður, sem ekki á lengur heima í Vestmannaeyjum, þó að hann sé bæjarfulltrúi kaupstaðarins, viti um það, hvað þar er að gerast á hverjum tíma.

Þá var hv. þm. að tala um það, að bæjarstjórnarmeirihlutinn á Ísafirði hefði gert ákvarðanir í bæjarstj. sér til fjárhagslegs framdráttar og því um líkt. Það er rétt, að í kæru minnihlutans í Vestmannaeyjum, mun ekki hafa verið farið sérstaklega inn á það mál, og einstökum bæjarfulltrúum íhaldsmeirihlutans því ekki borið á brýn, að þeir hafi haft slíkt um hönd, en fyrr og síðar er kunnugt um það, að gerðar hafa verið ýmsar einkennilegar ákvarðanir í bæjarstj. í sambandi við eignir vissra manna í bæjarfélaginu, og er óþarfi að vera að rifja það upp hér, að það hafa verið skrifaðar heilar bækur og gefin út sérstök vikublöð, meira að segja íhaldsvikublöð, til þess að ræða þessi fjármálahneyksli.

Þá var hv. þm. að tala um bæjargjaldkerann í Vestmannaeyjum. Ég skal játa það hér, að ég býst við því, að þessi bæjargjaldkeri sé mörgum fremri sem starfsmaður. Hann er viðurkenndur fyrir að vera duglegur skrifstofumaður og flínkur maður, en það, sem kært var yfir, var það, að þessi maður gekk þarna erinda íhaldsmeirihlutans. Það var ekki kært yfir því, að hann væri ekki fær um að inna starfið af hendi, heldur yfir því, að hann væri of trúr þjónn íhaldsmeirihlutans, og maðurinn er nú farinn úr starfinu, af því að hann treysti sér ekki til að þjóna íhaldsmeirihlutanum lengur.