04.03.1937
Neðri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (1328)

51. mál, skemmtanaskattur

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég býst ekki við, að ég þurfi að halda langa ræðu um þetta mál, meðfram vegna þess, að grg. skýrir svo nákvæmlega frá ástæðunni fyrir þessu frv. sem kostur er á. Það sem farið er fram á í frv. er, að héraðsmót ungmennafélaganna í landinu séu undanskilin skemmtanaskatti samkv. þeim l., sem um hann fjalla. Ástæðan fyrir því, að þetta frv. er flutt af mér og hv. þm. Borgf., er sú, að fengin er reynsla fyrir því, að hreppur sá í Mýrasýslu, þar sem hið árlega mót Ungmennasambands Borgarfjarðar er haldið, hefir skyldað sambandið til að greiða 20% af tekjum mótsins í skemmtanaskatt. Það er vitanlegt, að þessi stóri skattur myndi verða til þess að lama stórlega og draga úr þeirri starfsemi, sem Ungmennasambandið hefir haldið uppi um áratugi í héraðinu, sem m. a. hefir komið fram í árlegum héraðsmótum. Þessi mót voru fyrstu árin haldin á ýmsum stöðum á víð og dreif, en á síðari árum hefir það verið haldið á sama staðnum, og þar hefir verið lagt í þó nokkurn kostnað.

Nú er öllum hv. þm. kunnugt, hvernig starfsemi ungmennafélaganna í landinu er háttað. Það er menningarstarfsemi, sem er mjög óeigingjörn. Hún er rekin af ungum mönnum í héruðunum, sem beita sér fyrir auknum íþróttum og auknu félagslífi. Á síðari árum hafa félögin beitt sér myndarlega fyrir stofnun ýmsra héraðsskóla, sem reistir hafa verið innan héraðanna. Þetta ungmennasamband, sem hér um ræðir, hefir í sínu héraði tekið mikinn þátt í ýmiskonar viðreisnarstarfsemi og menningarstarfsemi. Það getur tæplega hafa verið tilgangurinn með skemmtanaskattinum, að hann yrði notaður til þess að skattleggja slíka starfsemi.

Þetta er annars sú almenna hlið málsins. En auk þess má geta þess, að þó að félagið hafi valið sér ákveðinn stað innan ákveðins hrepps til þess að halda mótin á, þá er ekki sanngjarnt, að starfsemi, sem nær yfir alla sýsluna, þó hún haldi sín árlegu mót í einum hreppi, sé skattlögð sérstaklega af þessum eina hreppi. Þetta gæti vitanlega orðið til þess, að ungmennasambandið neyddist til þess að flytja sína starfsemi af þeim stað, sem hún er nú á, til þess að reyna að komast undan þessum álögum, en það veldur vitanlega mikilli fyrirhöfn og miklum fjárútlátum fyrir ungmennasambandið.

Mér finnst, að þetta mál liggi svo ljóst fyrir, að ég geri ráð fyrir, að hv. þm. taki það að sér og greiði göngu þess gegnum Alþ.

Þó að þetta sérstaka tilefni hafi gefizt vegna Ungmennasambands Borgarfjarðar, þá þótti okkur flm. frv. rétt að hafa þessa lagabreyt. almenna svo að hún næði til allra ungmennasambanda í landinu, því vitanlega eru ástæður þær sömu hjá þeim.

Ég vil svo mælast til, að þessu frv. verði vísað til menntmn., og ég vænti, að n. afgreiði málið fljótt og vel.