08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Eins og fram kom við fyrri hluta umr., er þetta frv. komið frá hv. Nd., og var því breytt þar allverulega.

Með þeirri breytingu er gert ráð fyrir að opna skuldaskilasjóð aftur og veita lán úr honum, eftir því sem það fé hrekkur til, sem eftir er í honum, þeim mönnum, sem ekki fengu lán úr honum áður, og er skilgreiningin í því sambandi sú sama og var áður í lögunum, að það er aðeins veitt til báta undir 60 smálestum. Við fyrri hluta umr. kom það fram, að til eru þær skoðanir hér í hv. d., að réttara hefði verið að fara ekki þessa leið með það fé, sem eftir kann að vera í skuldaskilasjóði, þegar búið er að fullnægja ákvæðum bráðabirgðalaganna, sem þessi lög eru staðfesting á, og ég fyrir mitt leyti get að vísu tekið undir það, því að ég hefði heldur kosið, að því fé, sem eftir kann að vera í sjóðnum, þegar búið er að fullnægja ákvæðum bráðabirgðalaganna, yrði varið á annan hátt en gert er ráð fyrir samkvæmt áliti hv. Nd., en þar sem það kom glöggt fram í hv. Nd., að fyrir þessu var mikill meiri hluti þeirrar hv. d., þá hefir sjútvn. þessarar hv. d., sem tekið hefir málið til athugunar nú fyrir umr., fallizt á að leggja ekki á móti hessari breyt., því að af því gæti leitt hrakningur á málinu milli d., og allar líkur benda til þess, að hv. Nd. muni ekki falla frá þessari samþykkt sinni. Þess vegna leggur sjútvn. til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.

Ég hreyfði því við fyrri hluta umr., að í þessari brtt., sem kom inn í frv. í hv. Nd., væri óþörf tilvitnun, og hefir n. einungis athugað það og komizt að þeirri niðurstöðu, að þessi smágalli hefði ekki verulega þýðingu, og n. vill ekki fyrir sitt leyti hrekja málið milli d. út af því, þar sem ekki er ágreiningur um efni frv.

Fyrst ég er búinn að gera þá játningu, að ég vilji gjarnan aðrar ráðstafanir en þær, sem hv. Nd. vill gera á því fé, sem afgangs kann að verða, þegar búið er að fullnægja lánum til línuveiðaskipa, þá vil ég líka taka það fram um leið, að ég er ekki eins sammála hv. 4. landsk. um það, sem fram kom í ræðu hans við fyrri hluta umr., að þessi skuldaskil og kreppuráðstafanir væru gagnslausar og mætti nánast skoða því fé, sem til þess væri veitt, kastað í sjóinn. Ég skal játa, að alltaf má búast við, að slíkar ráðstafanir beri misjafnan árangur, en ég er persónulega ekki í vafa um, a. m. k. að því er snertir skuldaskilasjóðinn, að þessar ráðstafanir komi að mjög miklum notum og eiga vonandi eftir að koma að mjög miklum notum, og það sama vil ég vænta, að segja megi bæði um kreppulánasjóð bænda og eins kreppulánasjóð sveitar- og bæjarfélaga. Þessu máli mínu til sönnunar vil ég taka það fram, að mér hefir borizt í hendur rekstraryfirlit nokkurra báta, sem fengu skuldaskil á síðasta ári; hefir verið gert yfirlit yfir rekstur 12 báta, sem teknir eru úr 3 landsfjórðungum. Allir þessir bátar eru yfir 30 smálestir og í góðu standi, eins og yfirleitt þeir bátar, sem á annað borð eru veitt lán til úr skuldaskilasjóði. Ég held ég megi fullyrða, að svo framarlega sem þessir 12 bátar hefðu ekki fengið skuldaskil á síðasta ári, hefði rekstur þeirra flestra, ef ekki allra, stöðvazt. En hinsvegar sýnir rekstrarreikningur þessara báta, að þeir hafa á árinu framleitt vörur til útflutnings að verðmæti fyrir 1 millj. og rúmlega 200 þús. króna, eða m. ö. o., fyrir það að þessum bátum var gert kleift að starfa, hafa þeir getað útvegað útlendan gjaldeyri sem nemur 1 millj. og 200 þús. króna, og auk þess hafa þessir bátar greitt í vinnulaun innanlands upp undir ½ millj. króna. Þó að ég skuli játa, að þessir bátar hafi fengið töluvert mikla hjálp, eða samanlagt hátt á annað hundrað þúsund, þá verð ég að segja, að þetta er ekki aðeins bjargræði fyrir eigendur bátanna, heldur og fyrir ríkissjóð, þar sem útlit er fyrir, að þessir bátar allir geti staðið full skil á lánum sínum, ef rekstrarafkoma þeirra verður svipuð áfram. Ég veit, að stjórn fiskveiðasjóðs, sem nú kemur til með að hafa með höndum innheimtu á lánum skuldaskilasjóðs, hefir mikinn áhuga fyrir því, að geta fengið rekstrarreikninga allra þeirra, sem fengið hafa lán úr sjóðnum, og draga út úr þeim árangur þessa starfs, og tel ég það mjög vel farið, að sá háttur verði upp tekinn. Ég held, að stjórn fiskveiðasjóðs hafi mjög góða aðstöðu í þessu efni, því að fiskveiðasjóður, ásamt skuldaskilasjóði, er orðinn töluvert stór lánardrottinn alls smærri útvegs, og slíkt eftirlit og skýrslusöfnun er nauðsynleg fyrir þær lánsstofnanir, sem standa undir þessum rekstri. Ég vildi að gefnu tilefni láta þetta koma fram hér, af því að ég vildi ekki, að málið færi svo út úr þinginu, að litið yrði svo á, að ég væri því samþykkur, sem fram kom við fyrri hluta þessarar umr., að því fé, sem varið hefir verið úr skuldaskilasjóði og yfirleitt til kreppuráðstafana, væri á glæ kastað. En hitt er rétt, sem fram hefir komið, að það þarf fleira til þess, að sjávarútvegurinn geti staðizt, en skuldaskilasjóð og kreppuhjálp, en hún er a. m. k. þáttur í stuðningi við sjávarútveginn og landbúnaðinn.

Ég læt svo máli mínu lokið og vona, að hv. deild geti fallizt á að samþ. frv. eins og það liggur fyrir, þó að skiptar skoðanir kunni að vera um það, en ganga má út frá, að hv. Nd. verði svo fastheldin við þá breyt., sem þar komst inn í frv., að hún muni ekki fást út úr því aftur.