14.04.1937
Efri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (1345)

51. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég vona, að hv. 4. landsk. hafi ekki skilið orð mín svo, að ég væri að ráðast á verkalýðsfélögin, enda þótt ég ekki í fljótu bragði sæi, að þessi félagsskapur hefði haft menningarstarfsemi með höndum. En hv. þm. hefir nú leitt rök að því, að þessi félagsskapur hafi orðið til menningar í hópi verkamanna, og ég hefi ekki gert tilraun til að rýra það.

En hitt segi ég og því held ég fast fram, að ungmennafélagsskapurinn hefir haft með höndum mjög merkilega starfsemi, og það, sem fyrir mér vakir, er að verja þann rétt, sem þeir, er að þessum félagsskap standa, ætla að nota honum til eflingar.

En viðvíkjandi brtt. hv. 4. landsk. vil ég benda á það, að hér gætu mörg félög komið til greina. Þegar opnaðar eru dyrnar, þá vilja margir fara inn. Það mætti benda á mörg félög með sama rétti og hv. þm. bendir á verkalýðsfélögin.