14.04.1937
Efri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (1347)

51. mál, skemmtanaskattur

*Magnús Jónsson:

Þessar umr. hafa enn betur sannfært mig um þá skoðun, sem ég hafði á þessu frv., að hér sé verið að fara inn á braut, sem í raun og veru sé alveg ófær. —

Í l. um skemmtanaskatt eru veittar undanþágur frá slíkum skatti, en þær eru allar bundnar við skemmtanir í ákveðnu skyni, en ekki við skemmtanir ákveðinna aðilja. Undanþágurnar eru sem sé allar bundnar við skemmtanir, sem haldnar eru í góðgerðaskyni eða til ágóða fyrir fræðslu og listir. Og svo er síðan með l., sem hér er farið fram á að bæta við, veittar undanþágur fyrir kappleiki og íþróttasýningar, sem áhugamenn einir taka þátt í, en þær eru ekki bundnar við nein sérstök félög. Hér er því farið inn á alveg nýja braut, þar sem undanþágan er ekki miðuð við eðli skemmtananna eða gagn, heldur við það, hvað félagið er gott, sem skemmtanirnar heldur.

Þessar umr. hafa því leitt í ljós, að ef á að fara inn á þessa braut, þá mun hver einasti þm. geta komið með eitthvert félag, sem hann ber fyrir brjósti, og sýnt fram á, að það vinni að menningarstarfsemi.

Það er ákaflega broslegt, þegar verið er að karpa um það, hvort svo geysilega viðtæk hreyfing sem verkalýðshreyfingin starfi að menningu eða ekki. Það væru skárri ósköpin, ef hægt væri að halda slíkum félagsskap fyrir utan öll menningaráhrif. Þarf ekki um það að deila, að verklýðshreyfingin starfar að margvíslegum menningarmálum, enda þótt það sé ekki hennar aðaltilgangur.

Það eru svo mörg félög, sem starfa að þörfum hlutum, að halda verður sér við það að miða við eðli skemmtananna, en ekki gagnsemi félaganna, sem þær halda. Ég mun því ekki geta fylgt frv., eins og ég hugsaði mér frá upphafi, og því síður mun ég geta það, eftir þær umr., sem nú hafa farið fram.